Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu menningar- og viðskiptaráðherra um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023 til 2026. Áætlunin felur í sér 14 aðgerðir sem hrinda munu í framkvæmd nýrri stefnu málefnum hönnunar og arkitektúrs til ársins 2030, sem kynnt var í febrúar á þessu ári.
„Framtíðarsýn okkar er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé markvisst nýtt til þess að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Við getum aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað uppbyggingu og verðmætasköpun með því að virkja krafta sem sannarlega búa í íslensku hönnunarsamfélagi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar tengjast fimm áherslusviðum; verðmætasköpun, menntun framsækinna kynslóða, hagnýtingu hönnunar sem breytingaafls, sjálfbærri innviðauppbyggingu og kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.
Verðmætasköpun
Stjórnvöld leitist við að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með vaxandi áherslu á greinar sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði verði lykill að því að nýta tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni. Leitast verði við að hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og lífsgæði til framtíðar með því að virkja fagþekkingu hönnuða, arkitekta og aðferðafræði hönnunar.
Hönnun sem breytingaafl
Hagnýting hönnunar verði vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun fyrirtækja og stofnana og hönnunarhugsun nýtt í auknum mæli til úrlausnar á fjölbreyttum verkefnum og flóknum umhverfis- og félagslegum áskorunum.
Sjálfbærir innviðir
Hönnunarhugsun og sérþekking hönnuða verði nýtt við þróun, viðhald og uppbyggingu innviða, þ.m.t. tæknilegra og félagslegra, til að stuðla að uppbyggingu sjálfbærra samfélaga. Hugað verði að heildrænni stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með aukna sjálfbærni, gæði og bætta lýðheilsu að leiðarljósi og byggt upp öflugt þverfaglegt rannsóknarumhverfi fyrir fagfólk í arkitektúr og hönnunar- og byggingagreinum.
Menntun framsækinna kynslóða
Til að efla verðmætasköpun á Íslandi með hönnun og arkitektúr verði meðvitund um fagþekkingu hönnuða og arkitekta aukin og leitast við að tryggja að menntun þeirra og hæfni mæti áskorunum samfélagsins hverju sinni. Námsframboð, m.a. á sviðum símenntunar, sæti stöðugri endurskoðun og taki mið af örri tækniþróun og eðli hönnunartengdra faga. Aukið verði úrval námsmöguleika á sviðum nýlegra hönnunargreina þar sem vaxandi eftirspurn er eftir sérþekkingu, svo sem á sviði stafrænnar hönnunar, þjónustu- og upplifunarhönnunar og viðmótshönnunar. Unnið verði að því að auka þverfaglega nálgun í menntun, rannsóknum og samstarfi.
Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr
Byggt verði á grunni þess sem áunnist hefur við að vekja athygli og áhuga á íslenskri hönnun og arkitektúr og unnið að því að auka skilning hjá fyrirtækjum og stofnunum á jákvæðum áhrifum hönnunarhugsunar á verkefni, þjónustu og skipulag. Til þess að auka virðingu og sýnileika íslenskrar hönnunar verði lögð áhersla á íslenska hönnun og birtingarmyndir hennar á sem flestum sviðum
Aðgerðaáætlunin og ferill málsins á vef Alþingis
Heimild: stjr.is