Categories
Fréttir

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Deila grein

27/01/2020

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, sagði í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið, á Alþingi í liðinni viku, að takist hafi að ná þeim meginmarkmiðum sem fiskveiðistjórnarkerfið átti að færa okkur í öndverðu að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna við landið og tryggja með því trausta atvinnu í landinu. En sagði þetta ekki hafa verið sársaukalaust.
„Já, þetta hefur tekist og má rekja þessa sögu aftur til þess að Hafrannsóknastofnun gaf út að til þess að hámarka afrakstur þorskstofnsins þyrfti að helminga sókn í hann og jafnframt koma í veg fyrir smáfiskadráp vegna lélegs ástand hans. En svo var kvótinn settur á markað og þá hófst sundurlyndið um kerfið. Mikil lóðrétt samþætting sjávarútvegsfyrirtækja hefur sannarlega skilað af sér stærri og verðmætari fyrirtækjum en að sama skapi hefur kvótinn verið á hreyfingu milli byggðarlaganna þannig að í sumum byggðum stendur lítið eftir nema sá félagslegi kvóti sem til skiptanna er,“ sagði Halla Signý.
„Við eigum það til að hreykja okkur af því að íslenskur sjávarútvegur sé sá besti og sjálfbærasti í heimi. En til þess að teljast sjálfbært þarf kerfið að vera allt í senn efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbært. Á því er enginn vafi að kerfið okkar er efnahagslega sjálfbært, í umhverfismálum stendur íslenskur sjávarútvegur sterkt og nytjastofnar hafa dafnað.
En er fiskveiðistjórnarkerfið okkar samfélagslega sjálfbært?
Þar má a.m.k. að gera úrbætur. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað nefnd sem á að endurskoða félagslegt aflamark og vil ég hvetja hann til dáða í því verkefni og til að sjá til þess að aðgerðir fari að skila sér til þeirra sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna,“ sagði Halla Signý.