Categories
Greinar

Jákvæð gáruáhrif í hagkerfinu

Deila grein

28/01/2020

Jákvæð gáruáhrif í hagkerfinu

Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur lækkað hag­vaxt­ar­spá sína lít­ils­hátt­ar á heimsvísu árin 2020-2021 og spá­ir nú rúm­lega 3% hag­vexti. Lækk­un­in á einkum við um evru­svæðið en einnig hef­ur hægt á hag­vexti í þróuðum hag­kerf­um í Asíu. Í Kína hef­ur hag­vöxt­ur ekki mælst minni í lang­an tíma, ekki síst vegna viðskipta­deilna milli Banda­ríkj­anna og Kína.

Á ár­inu verða þrír meg­in­straum­ar ráðandi í alþjóðahag­kerf­inu. Í fyrsta lagi verður fyr­ir­komu­lag og um­gjörð heimsviðskipta áfram háð nokk­urri óvissu, þrátt fyr­ir tolla­sam­komu­lag sem Kín­verj­ar og Banda­ríkja­menn gerðu um miðjan mánuðinn. Í öðru lagi munu þjóðir heims áfram þurfa að laga sig að lág­vaxtaum­hverfi vegna minnk­andi hag­vaxt­ar og í þriðja lagi munu tækni­fram­far­ir og sjálf­virkni­væðing hafa mik­il áhrif á vinnu­markaði. Straum­arn­ir vega hver ann­an að ein­hverju leyti upp, því á sama tíma og viðskipta­deil­ur drógu úr þrótti hag­kerfa á síðasta ári ýttu lág­ir stýri­vext­ir und­ir hag­vöxt. Þá hafa tækni­fram­far­ir dregið úr kostnaði og verðbólga verið til­tölu­lega lág, jafn­vel í hag­kerf­um sem hafa notið mik­ils vaxt­ar.

Ísland er gott dæmi um þjóðríki sem hef­ur notið góðs af greiðum viðskipt­um á milli þjóða. Það er skylda okk­ar að greiða fyr­ir frjáls­um viðskipt­um og hlúa í leiðinni að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Að und­an­förnu hef­ur dregið úr hag­vexti í mörg­um lyk­ilviðskipta­ríkj­um Íslands. Iðnfram­leiðsla í Þýskalandi hef­ur dreg­ist sam­an og hag­vöxt­ur hef­ur minnkað í Frakklandi og Ítal­íu. Þannig hafa viðskipta­kjör Íslands versnað vegna minnk­andi hag­vaxt­ar. Hins veg­ar brugðust fjár­mála­markaðir vel við frétt­um um tíma­bundið sam­komu­lag banda­rískra og kín­verskra stjórn­valda. Áhættu­álag á skulda­bréfa­mörkuðum lækkaði og verð á hluta­bréfa­mörkuðum hækkaði. Það eru góðar frétt­ir fyr­ir Ísland, sem nýt­ur góðs af aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika um um­gjörð heimsviðskipta.

Staðan í alþjóðakerf­inu er án for­dæma í nú­tíma­hag­sög­unni, þar sem hátt at­vinnu­stig hef­ur jafn­an verið ávís­un á aukna verðbólgu. Víðast hvar eru stjórn­völd mjög meðvituð um stöðuna og lík­lega verður hag­stjórn í aukn­um mæli í hönd­um þeirra, þar sem hag­kerfi verða örvuð í niður­sveiflu. Mik­il­vægt er að halda áfram að fjár­festa í mannauði. Sú verður a.m.k. raun­in á Íslandi, þar sem hag­stjórn mun taka mið af aðstæðum og innviðafjár­fest­ing­ar munu aukast. Skýr­ari leik­regl­ur í sam­skipt­um viðskipta­stór­veld­anna munu hafa já­kvæð gáru­áhrif um all­an heim, sem og fram­kvæmd löngu boðaðrar út­göngu Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu nú um mánaðamót­in.

Óvissa er óvin­ur bæði þjóða og fyr­ir­tækja en um leið og aðstæður breyt­ast til hins betra taka þau fljótt við sér. Það er mik­il­vægt fyr­ir al­menn­ing hvar í heim­in­um sem er.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2020.