Categories
Greinar

Vísindasamvinna Íslands og Japans

Deila grein

29/01/2020

Vísindasamvinna Íslands og Japans

Ísland hefur látið að sér kveða í alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum þar sem rannsóknir á landslagi, lífríki og samfélögum norðurslóða eru í brennidepli. Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum og breytingum á vistkerfi sjávar. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland og íslenska vísindamenn að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi tengdu norðurslóðum.

Ísland og Japan standa sameiginlega að alþjóðlegum fundi vísindamálaráðherra um rannsóknasamstarf á norðurslóðum í Tókýó í nóvember. Undirbúningur er langt á veg kominn og næstkomandi föstudag verður haldinn kynningarfundur um áherslur ráðherrafundarins með fulltrúum sendiráða í Reykjavík og samstarfsaðilum úr vísindasamfélaginu. Í aðdraganda fundarins í Tókýó er lögð áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum, til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið sem geta nýst við mótun stefnu og aðgerða stjórnvalda. Leiðarljós ráðherrafundarins eru samvinna, þátttaka, gagnsæi og nýsköpun. Við erum þakklát fyrir það góða samband og sameiginlegu sýn sem Ísland og Japan deila. Sem eyjaþjóðir deilum við meðal annars áhyggjum af heilbrigði sjávar. Sameiginlega fleti má einnig finna í áherslum ríkjanna á umhverfisvernd og sjálfbærni.

Mikilvægi samtals milli vísindasamfélagsins og stjórnvalda eykst stöðugt og það er brýn þörf á auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum. Fundir sem þessir eru kærkominn vettvangur fyrir okkur til þess að miðla þekkingu, ræða aðgerðir og ekki síst forgangsraða verkefnum. Til þess að mæta áskorunum sem fylgja loftslagsbreytingum er mikilvægt að ríki vinni saman og myndi samstarfsnet um sameiginlega vísindalega þekkingu og vinni sameiginlega að því að hafa áhrif á raunverulegar aðgerðir og lausnir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. janúar 2020.