Categories
Fréttir

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Deila grein

29/01/2020

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í sérstakri umræðu um útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, á Alþingi í gær, að fjárfesting í ungu fólki sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Námsmenn á aldursbilinu 16-25 ára eru tveir þriðju af þeim hópi er nær ekki að nýta persónuafsláttinn. Það eru um 10 milljarðar er koma ekki til útgreiðslu.
„Þá velti ég fyrir mér hvernig við styðjum þetta fólk best.“

„Mér finnst umræðan góðra gjalda verð sem og hugmyndafræðin sem liggur að baki. Mér finnst hún hafa dregið fram einkum tvennt,
í fyrsta lagi að þetta sé augljóslega rætt í samhengi við tekjuskattskerfið og hlutverk persónuafsláttar í því kerfi og
í öðru lagi aukinn stuðning við þá sem hafa lægri tekjur.“

„Ég held að flestir séu sammála því að fjárfesting í ungu fólki og fólki almennt sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Það er oft sagt forsenda framtíðarhagvaxtar. Þess vegna er öflugt menntakerfi og forsendur þess í raun og veru að við tryggjum að allir geti aflað sér menntunar. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér þá helstu nýbreytni að auka og jafna stuðning í formi styrkja,“ sagði Willum Þór.