Categories
Fréttir

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Deila grein

30/01/2020

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, fór yfir stöðu tveggja flugvalla á Norðurlandi vestra, þ.e. flugvöllinn á Blönduósi og Alexandersflugvöll á Sauðárkróki, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
„Í kjölfar þess gjörningaveðurs sem gekk yfir landið í upphafi desembermánaðar og þeirra óveðra sem komið hafa í framhaldinu hafa komið upp fjöldi tilfella og fjöldi daga þar sem Norðurland vestra hefur verið einangrað í vegsamgöngum við aðra landshluta sem og að vegir hafa verið lokaðir innan svæðis. Í nokkur skipti á þessu tímabili stóðu lokanir yfir í nokkra daga í senn.
Í ljósi þess að á undanförnum árum hefur sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og í raun víðar á landsbyggðinni verið færð að stórum hluta í stærri sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri erum við sem á svæðinu búa orðin miklu háðari sjúkraflutningum en áður. Alvarlegri tilfelli eru í fæstum tilfellum meðhöndluð í héraði og sama á við um fæðingarþjónustu,“ sagði Stefán Vagn.
Stefán Vagn minnti á að flugvellirnir séu gríðarlegt öryggistæki fyrir íbúa á Norðurlandi vestra og sagði mikilvægt að þeir séu þjónustaðir og viðhaldið að á þá sé treystandi þegar neyðin er mest.

„Alexandersflugvöllur er með ein bestu lendingarskilyrði á landinu og lokast nánast aldrei sökum veðurs og að mínu mati og fjölda annarra ætti hann að gegna mun stærra hlutverki en hann gerir í dag. Flugvöllurinn á Blönduósi er þannig staðsettur að hann er mjög nálægt þjóðvegi 1 og hefur sannað sig sem mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa og gesti svæðisins.“

„Hér er um mikið öryggis- og byggðamál að ræða fyrir íbúa Norðurlands vestra og mikilvægt fyrir stjórnvöld að hlusta á raddir íbúa og sveitarstjórnar í þessu mikilvæga máli,“ sagði Stefán Vagn.