Categories
Fréttir

„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“

Deila grein

25/01/2023

„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“

„Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl. Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti.“

Útskrifuðum kennurum hafði frá 2008 fækkað talsvert og því markmiðið að efla kennaranám að nýju, gera það meira aðlaðandi starf en áður.

„Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum,“ sagði Lilja Rannveig. „Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.

***

Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni:

Hæstv. forseti. Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár. Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl.

Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti. Strax voru aðgerðir kynntar með það að markmiði að efla kennaranám og gera það áberandi og enn meira aðlaðandi kost en áður. Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum.

Að lokum var samþykkt frumvarp um eitt leyfisbréf í kennarastéttinni sem hefur leitt til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga sem hefur aukið starfsmöguleika kennara um allt land.

Á þessu kjörtímabili tók hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason við keflinu sem nýr mennta- og barnamálaráðherra og hélt aðgerðunum áfram.

Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld.