Categories
Fréttir

„Heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid“

Deila grein

24/01/2023

„Heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Í skýrslunni eru nefnd margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Svo sem að efla og samræma bráðaþjónustu, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma og styðja við menntun og þjálfun.

„Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum,“ sagði Líneik Anna.

„Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu.“

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land.

„Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja,“ sagði Líneik Anna.

„Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga,“ sagði Líneik Anna að lokum.

***

Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:

Virðulegi forseti. Á fundum velferðarnefndar í síðustu viku var m.a. farið yfir skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Tillögurnar snúast um að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun og fleira.

Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja. Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hafi tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði, t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum um síma þar sem nefnd er betri vegvísun. Þá er unnið að frekari umbótum í vegvísun í heilbrigðisþjónustu þar sem horft er til þess að samræma upplýsingagjöf, auka samvinnu og dreifa álagi á heilbrigðisstofnanir. Þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land. Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga.