Categories
Fréttir

Ráðast þarf í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi

Deila grein

24/01/2023

Ráðast þarf í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hvað tryggingafélög hafi hækkað iðgjöld umfram almennar verðlagshækkanir.

„Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum,“ sagði Ágúst Bjarni.

Sagði hann það alvarlegt mál ef aðeins efnameiri fjölskyldur hefðu efni á líf- og sjúkdómatryggingum, þar sem þær hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir.

Þessar upplýsingar koma fram í svari við fyrirspurn Ágústs Bjarna til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum.

„Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu,“ sagði Ágúst Bjarni.

Nefndi hann dæmi að meðalfjölskylda með bifreið eða bifreiðar og sé jafnframt með eigna- og líftryggingu sé að borga 550.000-700.000 kr. á ári.

„Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.

***

Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni:

Virðulegur forseti. Í byrjun desember sl. barst mér svar við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum. Almenningur fylgist vel með og tekur eftir þeim hækkunum sem verða hvar sem er í samfélaginu. Fyrirspurnina sendi ég eftir að hafa fengið ábendingar um mikla hækkun frá fjölda fólks. Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu. Dæmi: Meðalfjölskylda sem rekur bifreið eða bifreiðar og er með eigna- og líftryggingu er að borga 550.000–700.000 kr. á ári. Þetta eru háar tölur, virðulegur forseti.

Í ljós kemur í svari við fyrirspurn minni að tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín umfram almennar verðlagshækkanir. Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum. Þá er ég einnig hugsi yfir gjöldum vegna líf- og sjúkdómatrygginga en sé horft til þess sem fram kemur í svarinu sýnist mér að iðgjöld líf- og sjúkdómatrygginga hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir. Sú staða má aldrei koma upp, ekki undir nokkrum kringumstæðum, að þurfi fólk að draga saman seglin, draga saman í heimilisbókhaldinu, horfi það til þess að segja upp tryggingum sem þessum. Fyrir mér er það alvarlegt mál ef samfélagið er að þróast í þá átt að aðeins þeir efnameiri hafa efni á líf- og sjúkdómatryggingum. Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir.