Categories
Fréttir

„Tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar“

Deila grein

26/01/2023

„Tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins, náttúruhamfarir og hversu mikil áhrif þau hafa haft á þjóðarsálina, en á síðustu dögum hafa verið rifjuð upp og minnst atburða síðustu áratuga. Rakti hún viðbrögð og vinnu stjórnvalda við að bregðast við náttúruhamförum og ofanflóðasjóða sérstaklega.

„Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun,“ sagði Líneik Anna.

Fór hún yfir að vinna við framkvæmdir og uppkaup á eignum hafi verið gerð á 15 þéttbýlisstöðum á landinu. Er vinnu við varnir lokið við sex þéttbýli.

„Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn,“ sagði Líneik Anna.

„Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.“

„Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:

„Virðulegi forseti. Síðustu daga höfum við rifjað upp og minnst náttúruhamfara sem hafa haft mikil og djúpstæð áhrif á einstaklinga, fjölskyldur, samfélög og raunar þjóðarsálina alla. Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina farið í ýmiss konar vinnu til að verjast og bregðast við náttúruhamförum og hér vil ég ræða ofanflóðasjóð sérstaklega.

Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun. Framkvæmdir og uppkaup hafa átt sér stað á 15 þéttbýlisstöðum og er lokið á sex þeirra. Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn. Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.

Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar.“