Categories
Fréttir

Bætum stöðu og réttindi íþróttafólks

Deila grein

26/01/2023

Bætum stöðu og réttindi íþróttafólks

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins samtöl sín við íþróttafólk og forsvarsmenn íþróttafélaga nú í byrjun ársins. Fram hafi komið að þörf sé á betri umgjörð um afreksíþróttafólk til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir. Aðstæður eru misjafnar hjá íþróttafólki, „t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata“.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið skrifuðu nýlega undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Samhliða var tilkynnt að Vésteinn Hafsteinsson, þjálfari, hafi verið ráðinn til að halda utan um vinnuna við þessa stefnumótun og aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi íþróttafólks.

„Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hérna upp og fagna góðu verkefni. Á síðasta ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Við höfum séð of oft og of víða að það hefur reynst erfitt fyrir okkar góðu íþróttamenn, unga og eldri — fyrir utan það að auðvitað vantar almennilega skilgreiningu á því hverjir teljast til afreksíþróttamanna — að fjármagna keppnis- og æfingaferðir og jafnvel til viðbótar við það að tapa launum á meðan fjarveru stendur. Þarna geta aðstæður verið æðimisjafnar, t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata.

Ég var sjálfur á ferð um mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, núna í byrjun janúar, og þetta er það sem við heyrum víða, ef ekki alls staðar, í samtölum við íþróttafólkið sjálft og forsvarsmenn íþróttafélaga, að þörf sé á betri umgjörð um þessi mál. Ég tek undir og fagna því mjög að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið hafi nýverið skrifað undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Ég tel að sú tillaga sem ég mælti fyrir hér síðasta haust falli vel að þessu markmiði og þessu verkefni og skapi þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir afreksíþróttastarf þannig að það verði eins og best verður á kosið og afreksíþróttafólkið okkar standi jafnfætis keppinautum sínum um allan heim. Nú er ljóst, það var tilkynnt samhliða, að Vésteinn Hafsteinsson, sem við könnumst auðvitað öll við fyrir afrek hans, muni starfa að þessum málum með íslenskum stjórnvöldum við það að móta aðgerðir sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi þessa fólks. Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur.“