Categories
Fréttir

Ættleiðingar úr flóttamannabúðum

Deila grein

13/09/2016

Ættleiðingar úr flóttamannabúðum

160218-johanna-maria-sigmundsdottir-256x384„Hæstv. forseti. Þegar ég lagði fram fyrirspurn þess efnis hvort ekki væri hægt að koma á ættleiðingum úr flóttamannabúðum fékk ég mörg og mismunandi viðbrögð. Aldrei mundi mér detta í hug að leggja til að börn sem ættu foreldra þarna úti yrðu tekin frá þeim. Ég er að sjálfsögðu að horfa til þeirra barna sem mörg hver hafa horft á eftir fjölskyldu sinni verða sprengjum og byssukúlum að bráð, ættingjar eru órafjarri og/eða hafa enga burði til að huga að þeim. Núna hverfa börn og ungar stúlkur úr þessum búðum nærri því á hverjum degi og það er ekki af því að foreldrar þeirra eða ættingjar hafi komið og sótt þau. Það er vegna þess að litið er á þau sem ódýrt vinnuafl og góðan varning í mansal. Krakkar sem enginn leitar að því það er enginn eftir til að leita að þeim. Smyglarar sem stunda mansal eru núna farnir að nota flóttamannabúðir sem ódýrar stoppistöðvar fyrir varning sinn sem þeir smygla frá öðrum löndum. Erum við virkilega að útiloka alla möguleika yfir höfuð á því að hægt væri að veita einhverjum af þessum börnum örugga framtíð, ást og umhyggju, með aðstoð allra þeirra hjálparsamtaka sem þarna vinna? Ekki einu sinni þeim börnum sem missa foreldra sína eftir að þau komu í flóttamannabúðir svo enginn vafi leikur á að þau standa ein? Þarna eru fimm ára börn sem geta lýst því í smáatriðum hvernig foreldrar þeirra voru myrtir og framtíðin sem blasir við þeim er að dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum, þ.e. ef þau eru heppin og lenda ekki í höndum glæpamanna. Það eru til tölur um að nær helmingur barna sem eru fylgdarlaus í flóttamannabúðum í Evrópu hverfi árlega, mörg á innan við 48 klukkustundum eftir að þau koma þangað og mörg hver þeirra finnast aldrei aftur. Börn eru stundum aðskilin viljandi frá fjölskyldum af hendi smyglara og þeirra sem stunda mansal.
Herra forseti. Ég spyr þá sem að málinu koma og alla þá sem málið snertir: Er virkilega enginn möguleiki og er þetta virkilega svona afkáraleg spurning hjá mér?“
Jóhanna María Sigmundsdóttir  í störfum þingsins  13. september 2016.