Categories
Fréttir

Samstöðu um málefni fatlaðs fólks

Deila grein

13/09/2016

Samstöðu um málefni fatlaðs fólks

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Í ársbyrjun 2014 skipaði hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar eiga auk mín sæti fjölmargir fulltrúar þeirra sem málið varðar eins og fulltrúar sveitarfélaga, ráðuneyta, samtaka, félagsmálastjóra, Þroskahjálpar, Landssambands eldri borgara, Öryrkjabandalagsins og kirkjunnar. Það er öflugur hópur sem unnið hefur ötullega við þá endurskoðun sem er meðal annars ætlað að greiða fyrir innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann bíður enn fullgildingar þrátt fyrir að hafa verið undirritaður fyrir margt löngu af Íslands hálfu, eða þann 30. mars 2007. Í sumarbyrjun lágu fyrir drög að tveimur frumvörpum. Annað er frumvarp til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk sem ætlað er að leysa núgildandi lög af hólmi þar sem lögð er áhersla á ákvæði um þjónustu sem taka mið af og samræmast samningi Sameinuðu þjóðanna. Hitt varðar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga til þess að bregðast við samfélagsþróuninni og er það jafnframt til samræmis við hin nýju lög.
Nú erum við í starfshópnum að leggja lokahönd á að vinna úr umsögnum sem bárust fyrr í sumar og nú á síðustu dögum, og ganga frá greinargerð. Á dagskrá þingfundar í dag er þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Það fellur ágætlega saman að fullgilda samninginn og að endurskoða lögin. Það er ekki endastöð heldur er það hluti af vegferð þar sem við verðum stöðugt að bæta lagaumhverfið til þess að tryggja jöfn tækifæri, jafnt aðgengi, mannréttindi og virka þátttöku allra í samfélaginu. Auðvitað er tímabært að fullgilda samninginn og þótt fyrr hefði verið. Nú þegar tækifæri gefst er ég ekki í vafa um að samstaða næst hér á Alþingi um það.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 13. september 2016.