Categories
Fréttir

Sigrún mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Deila grein

14/09/2016

Sigrún mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Sigrún Magnúsdóttir_001Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti í dag á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem í daglegu tali er nefnd rammaáætlun.
Ráðherra lagði fram þingsályktunartillöguna að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Tillagan er samhljóða niðurstöðum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar.
Í ræðu sinni beindi Sigrún sjónum að því hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda. „Ég tel að rammaáætlun sé grundavallartæki til að vinna undirlag fyrir ákvörðunartöku um það hvaða landsvæði við viljum taka undir virkjunaráform og hvaða landsvæði við viljum vernda til framtíðar og hef lagt á það ofuráherslu sem umhverfis- og auðlindaráðherra að standa vörð um þetta stjórntæki.“
Með þingsályktunartillögunni er lagt til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, tíu virkjunarkostir fari í verndarflokk og tíu í biðflokk.  „Tillagan sem ég mæli hér fyrir er í senn öflug orkunýtingaráætlun, á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Fyrirliggjandi tillaga felur í sér mikla möguleika til orkuöflunar eða rúmlega 1400 MW. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er um 2500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd,“ sagði Sigrún. Þá væri í tillögunni stór biðflokkur með virkjunarkostum til skoðunar í framtíðinni. „Ég tel í raun gott að við tökum hæg skref og flýtum okkur hægt þegar um er að ræða framtíðarnýtingu landsvæða enda er tækniþróun hröð, hagsmunamat breytist og við vitum ekki hvernig staðan verður eftir fimm eða tíu ár.“

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is