Categories
Fréttir

Áfengið selt af dönsku félagi til sænskra neytenda af lager staðsettum í Danmörku

Deila grein

21/02/2024

Áfengið selt af dönsku félagi til sænskra neytenda af lager staðsettum í Danmörku

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins álita- og ágreiningsmál vegna smásölu áfengis í netsölu. Í Svíþjóð er það Systembolaget er hefu einkaleyfi til smásölu áfengis og sér um söluna. Það er sambærilegt og ÁTVR hefur einkaleyfi til smásölu áfengis hér á landi. „Einkasölufyrirkomulag áfengis á smásölustigi er hér liður í forvarnastefnu eins og víðar um lönd.“

„Í júlí 2023 féll dómur í hæstarétti Svíþjóðar sem er áhugaverður í því samhengi. Systembolaget höfðaði mál gegn fyrirtækjum í netsölu. Í málinu var deilt um hvort fyrirkomulag fyrirtækjanna á sölu áfengis væri í trássi við einkarétt eða hvort um væri að ræða einkainnflutning einstaklinga á áfengi frá öðru landi innan ESB sem væri heimill samkvæmt sænskum áfengislögum eins og þeim íslensku,“ sagði Líneik Anna.

„Niðurstaða Hæstaréttar var sú að einkainnflutningur sænskra neytenda á áfengi frá Danmörku væri heimill en athyglisvert er að skoða á hverju sú niðurstaða byggist en það var einkum að áfengið væri selt af dönsku félagi til sænskra neytenda af lager sem væri staðsettur í Danmörku og flutt inn til Svíþjóðar af óháðum flutningsaðila, danska félagið sem var seljandinn starfaði sannarlega í Danmörku og var ekki með starfsemi í Svíþjóð og félögin stunduðu ekki beina sölustarfsemi í Svíþjóð.“

„Það er ljóst af því að fyrirkomulag netverslunar með áfengi á Íslandi er í mörgum atriðum frábrugðið þessu, og í mörgum tilfellum, og mörg dæmi eru um að hún brjóti flestar ef ekki allar þessar forsendur og því vandséð að sú netsala falli undir undanþáguákvæðið,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til smásölu áfengis. Einkasölufyrirkomulag áfengis á smásölustigi er hér liður í forvarnastefnu eins og víðar um lönd. Markmið laga um verslun með áfengi og tóbak er m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks.

Í Svíþjóð er þetta sambærilegt og Systembolaget sér um söluna. Þar eins og hér hafa risið álita- og ágreiningsmál vegna netsölu. Í júlí 2023 féll dómur í hæstarétti Svíþjóðar sem er áhugaverður í því samhengi. Systembolaget höfðaði mál gegn fyrirtækjum í netsölu. Í málinu var deilt um hvort fyrirkomulag fyrirtækjanna á sölu áfengis væri í trássi við einkarétt eða hvort um væri að ræða einkainnflutning einstaklinga á áfengi frá öðru landi innan ESB sem væri heimill samkvæmt sænskum áfengislögum eins og þeim íslensku.

Niðurstaða Hæstaréttar var sú að einkainnflutningur sænskra neytenda á áfengi frá Danmörku væri heimill en athyglisvert er að skoða á hverju sú niðurstaða byggist en það var einkum að áfengið væri selt af dönsku félagi til sænskra neytenda af lager sem væri staðsettur í Danmörku og flutt inn til Svíþjóðar af óháðum flutningsaðila, danska félagið sem var seljandinn starfaði sannarlega í Danmörku og var ekki með starfsemi í Svíþjóð og félögin stunduðu ekki beina sölustarfsemi í Svíþjóð.

Það er ljóst af því að fyrirkomulag netverslunar með áfengi á Íslandi er í mörgum atriðum frábrugðið þessu, og í mörgum tilfellum, og mörg dæmi eru um að hún brjóti flestar ef ekki allar þessar forsendur og því vandséð að sú netsala falli undir undanþáguákvæðið.“