Categories
Fréttir

Kæru flokksfélagar!

Deila grein

21/02/2024

Kæru flokksfélagar!

Kjördæmavika þingflokks Framsóknar verður í næstu viku, líkt og áður má leiða að því líkum að því að fram undan séu áhugaverðir og skemmtilegir dagar. Það að þeysast um kjördæmið og hitta á mann og annan er eitt að því sem okkur þingmönnum þykir skemmtilegt. Þingmenn og ráðherrar munu eiga fjölmarga fundi í öllum landsfjórðungum og eins munum við nýta tímann til að heimsækja fyrirtæki og stofnanir eins og við komumst yfir. Á heimasíðu flokksins verður hægt að nálgast yfirlit yfir fundina. Auk þess mun flokksfólk að sjálfsögðu fá sérstakt boð á fundi. Samtalið við ykkur er okkur mikilvægt og gefur gott veganesti í áframhaldandi störf okkar.

Einnig, sem hluti af því að vera í betra sambandi við grasrótina verður boðað til fundar með flokksfólki á Teams nk. fimmtudag kl. 20. Fundurinn er hugsaður sem framhald af bréfi þingflokksformanns þar sem farið er yfir helstu málin í þinginu hverju sinni. Þá gerum við ráð fyrir að boðað verði til fleiri slíkra funda í framtíðinni með reglulegu millibili, eða á um tveggja mánaða fresti, svo hægt sé að halda áfram virku samtali. Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn hér:

Störf þingsins – Rafrænn fundur

Hlekkur á fundinn verður sendur skömmu fyrir fund.

Öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga

Ætla verður að engan hafi órað fyrir því, við þingsetningu Alþingis 12. september sl., að stjórnarfrumvarp um uppkaup ríkisins á heilu sveitarfélagi, 1.200 íbúðum, yrði á dagskrá þingsins þennan veturinn. En því miður er það raunin. Frumvarpið er í góðu samræmi við ákall frá Grindvíkingum á fjölmennum íbúafundi í Laugardalshöll 16. janúar. Þar kölluðu Grindvíkingar eftir að ríkisvaldið myndi borga Grindvíkinga út úr húsnæðum sínum, fyrir þá sem það kysu. Ríkið stefnir nú að því að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga innan Grindavíkurbæjar, ef eftir því er leitað af hálfu viðkomandi eigenda. Í frumvarpinu er lagt til að greiðsla fyrir íbúðarhúsnæði muni verða 95% af brunabótamati á kaupdegi að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Frumvarpið kveður eins á um forgangsrétt eiganda, í samningi um kaup þess, sem veitir honum forgangsrétt að íbúðarhúsnæðinu, en að rétturinn falli niður tveimur árum eftir gildistöku laganna.

Engin ein leið passar fyrir alla, en þarna er leitast við að mæta sem flestum á eins sanngjarnan hátt og hægt er í svo flóknu og viðamiklu máli. Reikna má með að málið geti tekið breytingum í þinglegri meðferð þar sem innsendar umsagnir verða teknar til umfjöllunar. Undirrituð tekur undir með Jóhanni Friðrik Friðrikssyni, alþingismanni, í fyrstu umræðu málsins er hann sagði:

„Eins og hér hefur komið fram þá höfum við verið vakin og sofin yfir því að reyna að koma til móts við þá stöðu sem við erum búin að vera að ganga í gegnum á Suðurnesjum og í Grindavík. Allur þingheimur hefur verið einhuga um það að vinna hratt og vel að málefnum Grindvíkinga. 63 þingmenn hafa hér verið á grænu í öllum þeim málum sem þegar hafa komið fram og hafa verið kláruð. Ég er þess fullviss að sú samvinna í þeirri vegferð mun halda áfram og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja það að við léttum eins og mögulegt er áhyggjum af Grindvíkingum á þessum erfiða tíma.“

Málefni útlendinga framarlega í umræðunni

Annað mál hefur verið mjög hávært í þjóðfélagsumræðunni, málefni útlendinga. Í gær átti Framsókn pláss í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þar sem fyrirspurn okkar var beint til dómsmálaráðherra um hvernig eftirliti með landamærum okkar sé háttað. Í fréttum síðustu helgi fór hátt mál hælisleitanda, er hafi verið synjað um vernd hér á landi, á þeim grundvelli að hafa þegar fengið vernd í Grikklandi. Var honum vísað brott í lögreglufylgd auk þess sem hann fékk á sig endurkomubann. Daginn eftir var hann þó aftur kominn til landsins og er hér enn. Hér er því svo sannarlega ekki um að ræða skilvirka brottför að ræða og mikilvægt að tekið verði af málum sem þessu með festu.  

Stjórnarflokkarnir hafa sammælst um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Þar er verið að taka utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með það til hliðsjónar að samræma framkvæmd við þá sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum, m.a. með niðurfellingu séríslensks ákvæðis í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Markmiðið er aðallega að fækka óþörfum umsóknum, gera afgreiðslur mála skilvirkari og stytta málsmeðferðartíma til muna. Með því er talið að kostnaður við þann málaflokk muni lækka, en hann hefur aukist umtalsvert.

Málið hefur nú þegar verið afgreitt frá þingflokkunum og reikna má með að ráðherra muni mæla fyrir því í vikunni.

Málið verður reifað betur á framangreindum fundi með grasrót flokksins nk. fimmtudag.

Vikan í þinginu litast í þetta sinn að miklu leyti af málefnum Grindvíkinga og stefnumótun stjórnvalda í málefnum útlendinga. Mikilvægasta verkið þessa dagana er að ljúka umfjöllun í nefndum um uppkaup húsnæðisins í Grindavík og fjárauka því tengdu í þessari viku svo hægt sé að útrýma óvissu.

Við munum nú í kjördæmaviku eiga mjög dýrmætt tækifæri til að eiga milliliðalaust samtal um þessi mál og fleiri við grasrót flokksins og stuðningsfólk. Við hlökkum til að koma og eiga gott samtal við ykkur.

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen