Categories
Fréttir

Áframhald á framkvæmd Kvikmyndastefnu fyrir Ísland

Deila grein

12/09/2023

Áframhald á framkvæmd Kvikmyndastefnu fyrir Ísland

Í nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 eru áætluð framlög til kvikmyndamála 3.915,6 m.kr. Þar af munu framlög til Kvikmyndasjóðs nema 1.114,3 m.kr. Í fjárlögum ársins 2023 var framlagið 1.288,9 m.kr. Breytingarnar skýrast annars vegar af því að tímabundinni hækkun á framlagi til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði til framleiðslustyrkja úr Kvikmyndasjóði fellur niður og hins vegar af kröfu um aukið aðhald í ríkisfjármálum.

Mynd 1: Heildarframlög til kvikmyndamála árin 2017 –2024 á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Um er að ræða framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Kvikmyndasjóðs, endurgreiðslukerfis í kvikmyndagerð og Kvikmyndasafns Íslands. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 verður 113 m.kr. af 500 m.kr. tímabundnu fjárfestingarframlagi til menningarmála vegna heimsfaraldursins varið til Kvikmyndasjóðs en framlaginu var frestað í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 sem hluta af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að sporna gegn þenslu í efnahagslífinu. Þá verður 50 m.kr. af framlaginu varið til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og 20 m.kr. til Kvikmyndasafns Íslands vegna áframhaldandi vinnu við aðgerðir í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra kynnti árið 2020.

Tæpur 1,3 milljarður í viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð

Árin 2021 og 2022 var í fjárlögum úthlutað aukalega 460 m.kr., hvort ár um sig, í Kvikmyndasjóð auk 50 m.kr. viðbótarframlags til Kvikmyndamiðstöðvar vegna sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs. Þá er sjóðnum veitt 250 m.kr. aukaframlag á þessu ári til þess að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða notið skuldbindinga með samningi. Samtals munu tímabundin viðbótarframlög til Kvikmyndasjóðs vegna heimsfaraldursins og önnur aukaframlög nema 1.298 m.kr. fyrir tímabilið 2021-2024.

Mynd 2: Framlög í kvikmyndasjóð árin 2017-2024.

Áætluð framlög í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar árið 2024 eru 2.493,9 m.kr. Lækkun frá 2023 skýrist af framvindu verkefnisins True Detective sem var stærsta kvikmyndaverkefni hér á landi hingað til. Endanleg fjárhæð í endurgreiðslur í kvikmyndagerð hefur ákvarðast í fjáraukalögum hvers árs, þegar umfang verkefna á ársgrundvelli liggur fyrir.

Mynd 3: Framlög til endurgreiðslna árin 2017-2024. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna. 

Endurgreiðslukerfinu var komið á árið 1999 og hafa umsvif kvikmyndagerðar aukist verulega, sérstaklega á síðustu árum, en endurgreiðslur vegna innlendra sem og erlendra verkefna hafa aukist. Á árinu 2022 nam hlutfall endurgreiðslna til innlendra verkefna 44% og 56% til erlendra.

Góður gangur í framkvæmd Kvikmyndastefnunnar

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að efla umhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi í samræmi við Kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030. Má þar meðal annars nefna hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35%, tímabundin viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aukin framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi.

Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni. Þá hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands unnið að ýmsum verkefnum í samræmi við stefnuna sem snúa meðal annars að eflingu kvikmyndalæsis. Einnig má nefna vinnusmiðjur, mælaborð í samvinnu við fagfélög og áframhaldandi samstarf við fagfélög um bætt vinnuumhverfi og fleira.

Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda

Á þingmálaskrá menningar- og viðskiptaráðherra fyrir þingveturinn 2023-2024 er að finna frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar. Með frumvarpinu verður komið á nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Með breytingunni verður Kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn enda er fyrirmynd breytinganna sótt þangað.

Þá ráðgerir menningar- og viðskiptaráðherra að kynna nýjan starfslaunasjóð kvikmyndahöfunda sem hluta af endurskoðun á starfslaunakerfi listamanna, en unnið hefur verið að breytingum á kerfinu sem ráðgert er að innleiða á næstu árum. Ofantaldar aðgerðir eru hluti af aðgerðum kvikmyndastefnu.

Sjá einnig: Fjárlagafrumvarpið fyrir 2024

Heimild: stjr.is