Categories
Fréttir Greinar

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Deila grein

14/09/2023

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Snemma á síðustu öld gengu stjórn­mál­in út á hina póli­tísku bar­áttu við dönsk stjórn­völd, um full­veldið og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóðar­inn­ar. Um miðbik ald­ar­inn­ar gekk bar­átt­an út á efna­hags­legt sjálf­stæði og stefnu okk­ar í alþjóðasam­vinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast for­ræði yfir sjáv­ar­auðlind­inni og bar­áttu­söngv­ar voru ort­ir á borð við texta Núma Þor­bergs­son­ar: „Þau eru svo eft­ir­sótt Íslands­mið, að ensk­ir þeir vilja oss berj­ast við.“ Sigr­ar unn­ust í þorska­stríðunum, sem var upp­hafið að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Ut­an­rík­is­mál­in urðu einnig mikið bit­bein þjóðar­inn­ar á þess­um tíma, þar sem hart var deilt um hina vest­rænu sam­vinnu. Það var mik­il fram­sýni að taka af­ger­andi stöðu með lýðræðis­ríkj­um, ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu og leggja mikla rækt við opin ut­an­rík­is­viðskipti. Far­sæld Íslands er háð nánu sam­starfi við þjóðir heims­ins um versl­un og viðskipti.

Þessi póli­tíska bar­átta skilaði land­inu mikl­um auðæfum. Á skömm­um tíma var byggt upp öfl­ugt mennta- og heil­brigðis­kerfi og und­ir lok síðustu ald­ar voru þjóðar­tekj­ur á hvern ein­stak­ling meðal þeirra allra hæstu í ver­öld­inni. Forfeður og –mæður okk­ar börðust fyr­ir betri framtíð lands og þjóðar og við njót­um þess í dag. Þegar sam­fé­lag eins og okk­ar nær svona góðum lífs­kjör­um, þá breyt­ast bar­áttu­mál­in og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.

Ísland býr yfir mikl­um auðlind­um og ljóst er að skort­ur verður á slíku í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð. Okk­ur ber því enn rík­ari skylda til að um­gang­ast auðlind­irn­ar af sér­stakri virðingu þar sem vall­ar­sýn­in er sjálf­bær nýt­ing.

Reglu­lega skjóta upp koll­in­um hug­mynd­ir um að ríkið losi um hluti í Lands­virkj­un með ein­um eða öðrum hætti. Í raun er það hvell­skýrt í mín­um huga og okk­ar í Fram­sókn: það verður ekki einn vatns­dropi einka­vædd­ur í Lands­virkj­un. Um slíka ráðstöf­un yrði aldrei sam­fé­lags­leg sátt á Íslandi, enda þjón­ar slíkt ekki hags­mun­um okk­ar til framtíðar.

Það er skoðun mín að al­mennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þess­um at­vinnu­rekstri, en það er eng­um vafa und­ir­orpið að op­in­bert eign­ar­hald á Lands­virkj­un hef­ur reynst þjóðinni far­sælt og er í raun fyr­ir­mynd­ar tákn­mynd þess blandaða markaðshag­kerf­is sem við búum í.

Ég er sann­færð um að eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á Lands­virkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frek­ari orku­öfl­un til að standa und­ir auk­inni lífs­gæðasókn í land­inu, enn traust­ari rík­is­fjár­mál­um og þeim grænu orku­skipt­um sem stuðla þarf að í þágu lofts­lags­mála. Þar get­um við Íslend­ing­ar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höld­um rétt á spil­un­um, með Lands­virkj­un okk­ar allra í broddi fylk­ing­ar.

Við, okk­ar kyn­slóð, get­um ekki skilað auðu og látið sem raf­magnið komi til okk­ar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orku­skipt­in þurfa þó að vera unn­in á grund­velli sam­vinn­unn­ar enda eru virkj­an­ir og orku­mann­virki vanda­sam­ar stór­fram­kvæmd­ir. Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um, í þágu ís­lenskra hags­muna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023.