Categories
Fréttir

Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag?

Deila grein

14/09/2023

Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag?

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.

Lilja Dögg sagði í ræðu sinni viðureignina við verðbólguna verða að ganga eftir svo vextir lækki fyrir heimilin. Sagði hún ríkisstjórnina muna gera allt sem í hennar valdi standi til að vinna bug á henni og telji hún að einhverju leyti séu jákvæð teikn á lofti í baráttunni. Sagði hún sitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.

Ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun

Lilja Dögg lagði áherslu á auðlindir Íslands og baráttuna um þær í ræðu sinni. Að okkur beri að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu og með sjálfbærri nýting þeirra til þess að komandi kynslóðir njóti þeirra. Lilja Dögg sagði það hvellskýrt í sínum huga og Framsóknar að ekki einn vatnsdropi í Landsvirkjun yrði einkavæddur. Hún sagðist sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni. Ísland gæti verið leiðandi á heimsvísu í grænu orkuskiptunum ef við höldum rétt á spilunum með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

„Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í,“ sagði Lilja Dögg.

„Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænum orkuskiptum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó fara leið samvinnunnar, þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu.

Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til þess að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin og gera það með ákveðinni sátt að leiðarljósi,“ sagði Lilja Dögg.

Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Í ræðu minni…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Miðvikudagur, 13. september 2023

Ræða Lilju Daggar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nýr árstími er að ganga í garð, hið fallega haust. Fyrir marga markar haustið ákveðin tímamót, nýjar áskoranir og eftirvænting er í loftinu. Það sama á við hér í kvöld í upphafi nýs þings. Því er viðeigandi að spyrja sig: Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag? Ljóst er að baráttuna við verðbólguna mun bera hæst í vetur og þar skiptir mestu máli fyrir heimilin að hún lækki svo vextir geti lækkað. Ríkisstjórnin mun auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að vinna bug á verðbólgunni og ég tel að það séu að einhverju leyti jákvæð teikn á lofti í þeirri baráttu. Í því samhengi mun mitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.

Mig langar þessa kvöldstund að víkja að einu framtíðarmáli; auðlindum Íslands og baráttunni um auðlindir Íslands. Snemma á síðustu öld gengu stjórnmálin út á hina pólitísku baráttu við dönsk stjórnvöld, um fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Ekkert annað komst að í upphafi síðustu aldar. Um miðbik aldarinnar gekk baráttan út á efnahagslegt sjálfstæði og hvar við vildum staðsetja okkur í alþjóðasamvinnu. Hin nýja sjálfstæða þjóð fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast eignarhald yfir sjávarauðlindinni. Orrusturnar voru nokkrar en sigur hafðist í stríðunum, sem var upphafið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Utanríkismálin urðu einnig mikið bitbein á þessum tíma þar sem hart var deilt um hina vestrænu samvinnu. Það var mikil framsýni á sínum tíma að taka afgerandi afstöðu með lýðræðisríkjum, gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og leggja mikla rækt við opin utanríkisviðskipti. Farsæld Íslands er háð nánu samstarfi við þjóðir heimsins um verslun og viðskipti. Þessi pólitíska barátta skilaði landinu miklum auðæfum. Á skömmum tíma var byggt upp öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og undir lok síðustu aldar voru þjóðartekjur á hvern einstakling meðal þeirra hæstu í veröldinni. Gríðarleg umskipti höfðu orðið á mjög stuttum tíma hjá íslensku þjóðinni. Fyrri kynslóðir börðust fyrir betri framtíð lands og þjóðar og við njótum þess svo sannarlega í dag. Þegar samfélag eins og okkar nær svona góðum lífskjörum þá breytast baráttumálin og snúa að því að verja góða stöðu en líka að horfa til framtíðar og sækja fram.

Virðulegur forseti. Ísland býr yfir miklum auðlindum og hagkerfið ber þess merki; gjöful fiskimið, gríðarleg náttúrufegurð, mikið landrými, hreint vatn, endurnýjanleg orka og mikill félagsauður. Þessar auðlindir okkar eru mjög eftirsóknarverðar á heimsvísu og ljóst er að skortur verður á slíkum auðlindum í fyrirsjáanlegri framtíð. Barátta stjórnmálanna í dag snýst um auðlindir landsins og réttláta skiptingu arðs af þeim. Okkur ber að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu þar sem vallarsýnin er sjálfbær nýting þeirra.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið eigi að losa um hlut sinn í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti til innlendra eða erlendra fjárfesta. Það er alveg skýrt í mínum huga og í huga Framsóknar að ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun. Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndartáknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í.

Kæru landsmenn. Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænu umskiptunum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó að fara leið samvinnunnar þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu. Kæru landsmenn. Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin en gera það með ákveðna sátt að leiðarljósi. Það er til mikils að vinna því að í mínum huga er yndislegt að búa á Íslandi. — Eigið góðar stundir.“

***