Categories
Fréttir

Rótgrónar stofnanir víki alltaf fyrir farsæld barna

Deila grein

14/09/2023

Rótgrónar stofnanir víki alltaf fyrir farsæld barna

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.

„Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf,“ sagði Ásmundur Einar í ræðu sinni og hélt áfram: „Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.“

„Við viljum og munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu risastóra en mikilvæga verkefni“

Ásmundur Einar sagði mikilvægt að ráðist yrði í breytingar í menntakerfinu. Sagði hann breytingarnar tengjast lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna.

„Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til þess að sameina skóla sameininganna vegna. Nú eða hagræða hagræðinganna vegna. Heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu.“

Ásmundur Einar sagði ástæðurnar fyrir breytingunum vera þær að of mörg börn og ungmenni næðu ekki fullnægjandi námsárangri, ættu ekki vini eða liði ekki nógu vel.

„Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld.“

Ræða mín í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Það er gífurleg uppspretta orku og ástríðu að fá að fylgjast með því…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 13. september 2023

Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi:

„Kæru landsmenn. Í störfum mínum sem mennta- og barnamálaráðherra fæ ég að hitta mikinn fjölda fólks sem starfar daglega með börnum og ungmennum hér á landi. Ég verð að segja að það er gífurleg uppspretta orku að fá að fylgjast með því öfluga starfi sem fram fer um allt land í þessu efni, að finna kraftinn í frumkvöðlum og ástríðufólki sem vinnur ótrúlega vinnu með okkar mikilvægustu borgurum. Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf. Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.

Um þetta snúast einmitt lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna. Innleiðing þessara laga er gríðarlega umfangsmikil og til að mynda í síðustu viku komu hátt í 1.000 manns saman í Hörpu til að fara yfir stöðu innleiðingarinnar. Það er mikilvægt að þetta gangi vel því að í þeim skugga sem kassar hinna ólíku kerfa skapa grasserar ójöfnuður og mismunun og það er þar sem ástríðufullt starfsfólk örmagnast, frumkvöðlar, börn og fjölskyldur sem með réttum stuðningi hefðu getað blómstrað.

Kæru landsmenn. Af öllu því sem við gerum er skólakerfið ekki bara mest stefnumótandi til framtíðar heldur eru gæði þess og styrkur það langmikilvægasta sem við gerum til að tryggja farsæld næstu kynslóðar. Þar er lagður grunnur að því hvert við stefnum og hvers konar samfélag við viljum byggja upp. Opinber stefnumörkun í menntun er mjög afgerandi í því að tryggja eigi góða menntun og jafnræði barna. Til að ná þessum markmiðum höfum við síðan lagt línurnar um hvaða breytingar þurfa að verða á menntakerfinu til ársins 2030. Það var gert með róttækri menntastefnu sem unnin var í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra og samþykkt var hér á Alþingi.

En af hverju markaði menntastefnan ákveðnar breytingar á menntakerfinu? Af hverju þarf að ráðast í breytingar? Ástæðan er einföld: Það eru því miður blikur á lofti. Þrátt fyrir fögur orð og metnað til margra ára í menntakerfinu er staðan sú að of mörg börn og ungmenni ná ekki fullnægjandi námsárangri, eiga ekki vini eða líður ekki nógu vel. Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld, alveg öfugt við þau gildi sem við höfum í hávegum og þau orð sem fram koma í lögum og stefnum.

Kæru landsmenn. Það er á okkar ábyrgð að bæta úr þessari stöðu, á minni ábyrgð sem mennta- og barnamálaráðherra, á ábyrgð ríkisstjórnar og raunar Alþingis alls. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að við byggjum hvert barn hér á landi upp með farsæld, framfarir og seiglu að leiðarljósi, að öll börn njóti sömu tækifæra. Það er á okkar ábyrgð að styðja við kennara og annað frábært starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar á hverjum einasta degi. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að menntun, sem nú á tímum er dýrmætustu réttindi hvers samfélags, skili sér raunverulega til þeirra sem réttinn eiga. Til þess að ná því þurfum við breytingar á skólakerfinu, breytingar sem ekki verða gerðar í afmörkuðum kössum hver í sínu horni heldur í samvinnu.

Kæru landsmenn. Nokkur umræða hefur skapast um stöðu framhaldsskólanna síðustu vikur. Ég fagna þessari umræðu og að gefnu tilefni vil ég segja að þær aðgerðir sem unnið er að miða í öllu að því að bregðast við þessari stöðu sem ég hef hér rakið; þeirri staðreynd að of mörg börn eru ekki að ná fullnægjandi árangri og farsæld. Í þessu verkefni erum við að sjálfsögðu háð þeim ramma, þeim fjárheimildum og verkfærum sem úthlutað hefur verið til verkefnisins og það er ekkert leyndarmál að staðan í ríkisfjármálum hefur sett okkur ákveðnar skorður. Tímarnir eru hins vegar að breytast og ótrúlega hröð breyting á stöðu ríkissjóðs til hins betra á að geta gefið okkur tækifæri til að auka fjárfestingu okkar í þessum börnum, m.a. í gegnum framhaldsskólakerfið.

Fáist ekki aukið fjármagn og verði ekki farið í ansi róttækar breytingar á landsvísu sem skila sér m.a. í betri nýtingu fjármagns mun það fljótt hafa mikil áhrif. Það er því miður ekki langt í að erfitt verður eða ókleift að auka við stuðning við skóla og nemendur sem þess þurfa. Við stöndum þannig frammi fyrir því að einhverjir skólar munu í náinni framtíð mögulega ekki geta sinnt lögbundinni þjónustu eða menntun vegna fjár- eða húsnæðisskorts, til að mynda til þess að mæta aukningu í starfs- og verknám.

Þetta er krefjandi staða því að breytingar, ekki síst á rótgrónum menntastofnunum, þurfa aðdraganda og umræðu og oftar en ekki eru þetta menntastofnanir sem er fullkomlega eðlilegt að margir beri mjög sterkar tilfinningar til. Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til að sameina skóla sameininganna vegna, nú eða hagræða hagræðingarinnar vegna, heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu. Þar liggur ábyrgðin. Fáist ekki nýtt fjármagn og ef við þurfum að velja milli farsældar og jöfnuðar meðal barna, og mæta þeim áskorunum sem ég nefndi, eða að viðhalda rótgrónum stofnunum þá þurfum við að forgangsraða í þágu barna. Þar höfum við ekkert val.

Kæru landsmenn. Stöndum vörð um hvert barn hér á landi, farsæld, tækifæri, menntun þeirra og líðan. Stöndum vörð um fjölskyldur, foreldra og ekki síst starfsfólkið okkar sem á hverjum degi vinnur að því að tryggja velsæld samfélags okkar til framtíðar. Það er það verkefni sem ég mun óska eftir samstarfi um við ykkur og Alþingi á þessum þingvetri fram undan. Við viljum og við munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu stóra en mikilvæga verkefni. — Góðar stundir.“

***