Categories
Fréttir

Stærsta einstaka áskorunin við gerð fjárlaga 2024 að ná verðbólgu niður!

Deila grein

14/09/2023

Stærsta einstaka áskorunin við gerð fjárlaga 2024 að ná verðbólgu niður!

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, var talsmaður Framsóknar í fyrstu umræðu fjárlaga á Alþingi fyrir árið 2024 í dag.

Stefán Vagn sagði að augljóst væri að hvernig svo sem skipting fjármuna væri útfærð, yrði hún alltaf umdeild, sjónarmið stjórnmálaflokka á Alþingi væri misjöfn eðli málsins samkvæmt.

„Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár,“ sagði Stefán Vagn.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að 46 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. En það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023. Það eru hærri tekjur og lægri útgjöld í hlutfalli við umfang hagkerfisins sem skila því.

Verðbólgan hefur reynst þrálátari hér undanfarna mánuði en er ekki séríslenskt fyrirbæri. „Er það stærsta einstaka áskorunin við gerð þessara fjárlaga að ná henni niður,“ sagði Stefán Vagn.

„Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu.“

Almenn aðhaldskrafa er í fjárlögunum sem nemur 4,6 milljörðum kr. og til viðbótar sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum. Það eru aðgerðir stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu.

„Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi,“ sagði Stefán Vagn.

Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verða 15,4 milljörðum kr. meiri en í síðustu fjármálaáætlun.

„Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi,“ sagði Stefán Vagn.

Fjárfest verði áfram í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

„Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%,“ sagði Stefán Vagn.

Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist af:

  • stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og
  • breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið.
  • Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.

Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs.

Með lækkandi skuldastöðu hefur náðst meginmarkmið fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.

„Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénum og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár,“ sagði Stefán Vagn.

Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% á næsta ári og fari svo lækkandi enn frekar árið 2025.

„Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu,“ sagði Stefán Vagn.

Samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi.

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að:

  • fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu.
  • Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum.

Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi.

Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.

Heilbrigðismálin í forgrunni núna líkt og áður!

„Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021,“ sagði Stefán Vagn.

Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn – þar skiptir framboð mestu máli!

„Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári,“ sagði Stefán Vagn og bætti við: „Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.“

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.

Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála!

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.

***

Allt sem tengist fjárlagafrumvarpinu!

Hér að neðan eru fjölbreytt gögn og upplýsingar sem tengjast fjárlagafrumvarpinu. Má þar nefna fylgirit frumvarpsins, skjöl og gögn, greiningar, fréttatilkynningar ráðuneyta, kynningu ráðherra og umfjöllun um frumvarpið í stuttu máli. 

Öll helstu skjöl og gögn sem tengjast frumvarpinu, svo sem myndagögn úr frumvarpinu, ítarefni, töflur, töfluviðaukar og talnagögn fjárlagafrumvarpsins á Excel-formi. 

Á rafrænu mælaborði má bera saman greiningu gjalda í rekstur, tilfærslur og fjárfestingu fyrir árin 2022-2026 samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál.

Helstu atriði fjárlagafrumvarps 2024 sett fram með einföldum og skýrum hætti í máli og myndum. Yfirlit á einni síðu og hægt að stækka hverja mynd til að skoða nánar.

Upptaka af kynningu ráðherra á fjárlagafrumvarpi 2024 fyrir blaðamönnum. 

Fréttatilkynningar ráðuneyta sem tengjast efni fjárlagafrumvarps fyrir 2024. 

Öll fjárlagarit á einum stað, frá fjármálastefnu og fjármálaáætlun til frumvarps og samþykktra fjárlaga.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024. Fjárlög eru ein af grunnlögum okkar og því afar mikilvægt að við þingmenn náum góðri og djúpri umræðu um frumvarpið hér á Alþingi í haust. Það skiptir miklu máli hvernig því fé sem ríkið hefur yfir að ráða er útdeilt, enda er verið að útdeila takmarkaðri auðlind, ef svo má segja. Mér er það ljóst að sú skipting, hvernig sem hún er útfærð, verður alltaf umdeild, enda eru sjónarmið þeirra flokka sem hér eru á þingi misjöfn eðli málsins samkvæmt. Það er samt mín trú að það sé mun meira sem sameinar okkar sjónarmið í þessum fjárlögum en það sem við erum ósammála um. Það er mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er að öll sjónarmið heyrist og vinnan í fjárlaganefnd verði markviss og árangursrík á komandi þingvetri. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um frumvarpið eins og það kemur mér fyrir sjónir, virðulegur forseti.

Þróttur íslensks samfélags er mikill um þessar mundir. Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár. Fjárlagafrumvarp ársins 2024 gerir ráð fyrir því að halli verði á rekstri ríkissjóðs sem nemur 46 milljörðum kr. Það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023 sem rekja má hvort tveggja til hærri tekna og lægri útgjalda í hlutfalli við umfang hagkerfisins. Við erum sem sagt að vaxa út úr vandanum.

Þessi bætta staða ríkisfjármála endurspeglast jafnframt í uppfærðum afkomuhorfum yfirstandandi árs sem gera ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði sem nemur um 47 milljörðum kr. eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu og er það tæplega 100 milljörðum kr. betri útkoma en áætlun fjárlaga ársins 2023 gerði ráð fyrir. Frumjöfnuðurinn var þegar orðinn jákvæður á ný í fyrra og nemur batinn yfir 190 milljörðum kr. á milli áranna 2021 og 2022.

Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekkert séríslenskt fyrirbæri en hefur þó reynst þrálátari hér undanfarna mánuði, því miður. Við því verður að bregðast og að mínu mati er það stærsta einstaka áskorun okkar við gerð þessara fjárlaga að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum og vaxtastigi í landinu. Það eru þegar fram komnar vísbendingar um að draga muni úr þenslunni á næstu misserum.

Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu. Það er sama til hvaða greininga horft er, niðurstaðan er sú sama: Ríkissjóður hefur dregið úr vexti eftirspurnar og þar með verðbólgu frá árinu 2022. Þetta fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að svo verði enn á næsta ári. Ekki aðeins hefur afkomubatinn verði umfram það sem vænta mætti á áhrifum hagsveiflunnar heldur er batinn einn sá mesti sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2024 er venju samkvæmt gert ráð fyrir almennri aðhaldskröfu og nemur hún um 4,6 milljörðum kr. Því til viðbótar eru í frumvarpinu sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum sem skýrast af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Almenn aðhaldskrafa í frumvarpinu er 2% auk 1% viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneyti. Skólar hljóta lægri aðhaldskröfu eða 0,5%. Þá eru almanna- og sjúkratryggingar undanskildar ásamt heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, löggæsluembættum, fangelsum og dómstólum. Almenna aðhaldskrafan var aukin í fjármálaáætlun til að styðja við markmið um hóflegan vöxt útgjalda og draga úr þenslu. Í því ljósi var einnig gert ráð fyrir frestun fjárfestingarverkefna.

Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu. Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi. Loks gerir tekjuáætlun ráð fyrir áframhaldandi áhrifum ráðstafana sem farið var í á þessu ári, m.a. varaflugvallagjaldinu og breytinga á virðisaukaskattsendurgreiðslum vegna íbúðarhúsnæðis. Samanlagt er áætlað að framangreindar ráðstafanir skili ríkissjóði um 25 milljarða kr. auknum tekjum á næsta ári.

Tekjur ríkissjóðs hafa tekið hratt við sér á grunni hins sterka efnahagsbata og samhliða hefur verið gætt að því að sýna nokkurt aðhald á útgjaldahliðinni. Birtist aðhaldið meðal annars í því að á meðan tekjuhliðin hefur tekið við sér og vaxið hraðar en nemur vexti landsframleiðslunnar eru frumgjöld um hálfu prósentustigi lægri sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á árunum 2023 og 2024 en þau voru árið 2022. Með öðrum orðum, það er ekki verið að ráðstafa öllum viðbótartekjum sem leiða af hagsveiflunni í ný og aukin útgjöld heldur er í staðinn verið að nýta þær til að bæta afkomu ríkissjóðs. Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verði 15,4 milljörðum meiri en í fjármálaáætlun sem samþykkt var í júní og nemur aukningin 1,2% milli áætlun. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi.

Áfram er fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%. Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist annars vegar af stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og hins vegar breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið. Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.

Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Þegar fjármálaáætlun 2021–2025 var lögð fram á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins voru horfur á því að skuldahlutfallið yrði um og yfir 50% af vergri landsframleiðslu árin 2023 og 2024. Nú er ljóst að hlutfallið náði hámarki langtum neðar árin 2021 og 2022 og gangi áætlanir eftir mun það lækka smám saman og verða innan við 31% af vergri landsframleiðslu í árslok 2024. Það er meira en 20 prósentustigum lægra hlutfall á næsta ári en viðmið fjármálaáætlunarinnar gerði ráð fyrir.

Með lækkandi skuldastöðu höfum við náð meginmarkmiði fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.

Til viðbótar við afkomubatann og aðhald er tónninn því settur með enn frekari aðgerðum. Eitt grundvallaratriðið í því samhengi er að fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldrinum. Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénun og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár. Það er enn nokkuð í land með að verðbólga verði á ný í samræmi við markmið þótt gert sé ráð fyrir því að hún fari fremur hratt lækkandi.

Raungerist þessar fyrirætlanir skapast forsendur fyrir lækkun vaxta. Lækkun raunvaxta getur stuðlað að áframhaldandi kröftugri fjárfestingu. Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% árið 2024 og fari svo lækkandi enn frekar árið þar á eftir.

Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu.

Þjóðhagsspáin byggir á þeirri forsendu að laun hækki með svipuðum hætti og á árunum 2019–2020 en þá var verðbólga jafnframt lægri en hún er nú. Á þessum grundvelli er talið að kaupmáttur launa vaxi áfram árið 2024 og að vextir geti byrjað að lækka á því ári sem er, eins og áður sagði, gríðarlega mikilvægt fyrir fjölskyldur og heimili og fyrirtæki í landinu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi. Þetta samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu.

Til viðbótar við mikinn viðsnúning á síðustu misserum er, eins og áður sagði, 17 milljarða ráðstafanir útfærðar í frumvarpinu til þess að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða kr. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu sem bæði getur komið fram í gegnum starfsmannaveltu eða uppsagnir. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsmenn, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála. Þá lækka önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup en stefnt er á um 4 milljarða hagræðingu með þeim aðgerðum. Enn fremur er aukið aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum og með því stefnt á 8 milljarða kr. hagræði.

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu. Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum. Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði fyrir barnafjölskyldur þar sem stuðningurinn er efldur með hækkun fjárhæða, minni skerðingum og lægri jaðarsköttum. Þá verða einnig teknar upp svokallaðar samtímagreiðslur barnabóta en í því felst að biðtími eftir greiðslum verður aldrei meiri en fjórir mánuðir, en biðtíminn gat áður verið allt að ár frá fæðingu barns. Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.

Virðulegur forseti. Heilbrigðismálin eru í forgrunni núna líkt og áður. Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021.

Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn. Þar skiptir framboð mestu máli samhliða áframhaldandi lækkun verðbólgu sem ætti að fylgja lækkun vaxta. Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.

Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að prósentuhækkun atvinnuleysisbóta verði 4,9% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga og spá Hagstofunnar um hækkun verðlags á næsta ári. Áætlaður kostnaður vegna hækkunarinnar er um 1,6 milljarðar kr. Áætluð heildarútgjöld vegna hækkunar atvinnuleysisbóta og bóta almannatrygginga eru samanlagt 17,7 milljarðar kr. í fjárlögum ársins 2024.

Virðulegur forseti. Mig langar í lokin aðeins að ræða verklag varðandi fjárlög og framsetningu þeirra. Það er mín skoðun eftir að hafa setið í tvö ár í fjárlaganefnd að það færi ágætlega á því og sennilega betur, til þess að dýpka einmitt þessa umræðu hér í þingsal í dag, ef fjárlaganefnd gæti fengið drögin að fjárlagafrumvarpi um viku fyrr áður en þau eru kynnt, í trúnaði að sjálfsögðu, þannig að nefndarmenn gætu verið búnir að kynna sér betur efni fjárlaganna fyrir þessa umræðu. Það er mín tilfinning og mitt mat að slík breyting yrði klárlega til bóta fyrir alla þá sem í nefndinni sitja og gæfi nefndarmönnum miklum mun betri kost á því að fara dýpra í umræðuna hér í upphafi og yrði einnig góður undirbúningur fyrir starf vetrarins í nefndinni.

Virðulegur forseti. Ég læt þessari yfirferð minni hér í 1. umræðu fjárlaga lokið og bind vonir við og kalla eftir góðu samstarfi nefndarmanna í fjárlaganefnd í áframhaldandi vinnu fyrir fjárlög ársins 2024.“