Categories
Fréttir

Áframhaldandi stjórnarsamstarf á traustum grunni

Deila grein

09/04/2024

Áframhaldandi stjórnarsamstarf á traustum grunni

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafa sammælst um áframhaldandi samstarf þar sem eftirfarandi mál verða í öndvegi í ríkisstjórn í öðru ráðuneyti Bjarna Benediktssonar:

  1. Efnahagsmál.
    Allt kapp verður lagt á að ná niður verðbólgu og styðja við nýgerða kjarasamninga og koma nýsamþykktum stuðningsaðgerðum stjórnvalda við kjarasamninga til framkvæmdar hið fyrsta. Stöðugleiki í efnahagsmálum, vaxandi velsæld, aukinn kaupmáttur og lækkun verðbólgu og vaxta verða í forgrunni. Ríkisrekstur verður einfaldaður, stofnanir og sjóðir sameinaðir og þjónusta bætt. Áfram verður unnið að bættum kjörum barnafjölskyldna og lágtekjuhópa, m.a. með áframhaldandi úrbótum í húsnæðismálum og endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.
  2. Innflytjendamál.
    Tekið verður utan um málefni innflytjenda í samræmi við heildarsýn stjórnvalda. Dregið verður markvisst úr kostnaði vegna hælisleitendakerfisins/umsækjenda um alþjóðlega vernd og ráðist í gerð nýrra heildarlaga um útlendinga. Lögð verður áhersla á inngildingu innflytjenda í íslenskt samfélag, þ.m.t. í skólum og unnið að nýjum heildarlögum um inngildingu.
  3. Orku- og loftslagsmál.
    Orkuframleiðsla verður aukin, virkjanaferlið einfaldað og valkostum í grænni orkuframleiðslu fjölgað svo styðja megi við orkuskipti og atvinnuuppbyggingu. Náttúruverndarsjónarmið verða höfð að leiðarljósi við sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Til að styðja við orkuskipti í samgöngum í þágu loftslagsmála verður m.a. lokið við uppfærslu samgöngusáttmála. Unnið verður að betri nýtingu í raforkukerfinu og skilvirkni aukin í þágu loftslagsaðgerða. Haldið verður áfram með endurskoðun rammaáætlunar.

„Þetta er það skynsamlegasta sem við getum gert, til þess að koma samfélaginu áfram inn í þann stöðugleika sem við þurfum til þess að ná niður verðbólgu og vöxtum. Við ætlum að styðja áfram við þá öflugu verðmætasköpun sem er í landinu og við erum á góðum stað, með öflugan þingmeirihluta og traustan málefnagrunn,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

Fjármálaráðuneytið er undir stjórn Framsóknar í fyrsta sinn í 45 ár eða frá því Tómas Árnason gegndi því embætti frá 1. september 1978 til 15. október 1979.

Yfirlit yfir fjármálaráðherra Framsóknarflokksins:

  • Tómas Árnason frá 1. september 1978 – 15. október 1979
  • Halldór E. Sigurðsson frá 14. júlí 1971 – 28. ágúst 1974
  • Eysteinn Jónsson frá 24. júlí 1956 – 23. desember 1958
  • Eysteinn Jónsson frá 8. september 1954 – 24. júlí 1956
  • Skúli Guðmundsson frá 14. apríl 1954 – 8. september 1954
  • Eysteinn Jónsson frá 11. september 1953 – 14. apríl 1954
  • Eysteinn Jónsson frá 14. mars 1950 – 11. september 1953
  • Eysteinn Jónsson frá 28. júlí 1934 – 17. apríl 1939
  • Ásgeir Ásgeirsson frá 3. júní 1932 – 28. júlí 1934
  • Ásgeir Ásgeirsson frá 20. ágúst 1931 – 3. júní 1932
  • Tryggvi Þórhallsson frá 20. apríl 1931 – 20. ágúst 1931
  • Einar Árnason frá 7. mars 1929 – 20. apríl 1931
  • Tryggvi Þórhallsson frá 8. desember 1928 – 7. mars 1929
  • Magnús Kristjánsson frá 28. ágúst 1927 – 8. desember 1928
  • Klemens Jónsson frá 18. apríl 1923 – 22. mars 1924