Categories
Fréttir Greinar

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Deila grein

04/04/2024

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Íslenskt menn­ing­ar­líf hef­ur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða ver­öld. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hef­ur verið al­mennt breið sátt um það að hlúa að menn­ing­ar­líf­inu með því að fjár­festa í list­námi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrót­ar­sam­tök í menn­ing­ar­líf­inu og skapa vett­vang fyr­ir lista­menn til þess að hlúa að frumsköp­un. Þar hafa starfs­laun lista­manna þjónað sem mik­il­vægt verk­færi til að efla menn­ing­ar­starf í land­inu. Lista­manna­laun í ein­hverju formi eru rót­grón­ari en marg­an grun­ar, en saga þeirra nær allt aft­ur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skálda­laun. Um­gjörð þeirra var fyrst form­gerð með laga­setn­ingu árið 1967 þegar lög um lista­manna­laun voru samþykkt og síðar voru upp­færð árin 1991 og 2009.

Árleg­ur kostnaður við lista­manna­laun er 978 millj­ón­ir króna. Til að setja þá tölu í sam­hengi er um að ræða 1,5% af út­gjöld­um til há­skóla­stigs­ins og 0,06% af fjár­lög­um árs­ins 2024.

Ný­verið voru kynnt­ar til­lög­ur til breyt­inga á lista­manna­laun­um þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skref­um til árs­ins 2028, en eng­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á kerf­inu í 15 ár. Eru boðaðar breyt­ing­ar gerðar í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem fram kem­ur í stjórn­arsátt­mála, að unnið skuli að því að styrkja fag­lega starfs­launa- og verk­efna­sjóði lista­manna. Þær eru því eðli­legt skref og for­gangsraðað verður í þágu þeirra á mál­efna­sviði menn­ing­ar­mála inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins. Í breyt­ing­un­um felst meðal ann­ars að komið verði á fót tveim­ur nýj­um þverfag­leg­um sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyr­ir lista­menn und­ir 35 ára aldri, og Veg­semd, sjóði fyr­ir lista­menn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sér­stak­lega við unga lista­menn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu inn­an sinn­ar list­grein­ar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagn­rýni sem heyrst hef­ur, að lít­il nýliðun sé inn­an kerf­is­ins. Að sama skapi er Veg­semd sér­stak­ur, þverfag­leg­ur sjóður fyr­ir eldri lista­menn sem hafa varið sinni starfsævi til list­sköp­un­ar.

Ég tel eðli­legt að við stönd­um með lista­fólk­inu okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menn­ing eitt­hvað sem sam­ein­ar okk­ar – sér­stak­lega þegar vel geng­ur. Öll fyll­umst við til að mynda stolti þegar ís­lensk­um lista­mönn­um geng­ur vel á er­lendri grundu og kast­ljós um­heims­ins bein­ist að land­inu vegna þess. Dæmi er um lista­menn sem hlotið hafa eft­ir­sótt­ustu verðlaun heims á sínu sviði sem á ein­hverj­um tíma­punkti þáðu lista­manna­laun á ferli sín­um til þess að vinna að frumsköp­un sinni. Ísland er auðugra og eft­ir­sótt­ara land fyr­ir vikið, fyr­ir okk­ur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.