Categories
Fréttir

Áframhaldandi vinna við áskoranir!

Deila grein

08/04/2023

Áframhaldandi vinna við áskoranir!

Þær hafa verið viðburðaríkar vikurnar frá síðasta bréfi. Vil ég byrja á að þakka innilega fyrir hönd þingflokksins góð samtöl við ykkur í mjög vel heppnaðri kjördæmaviku. Þið náðuð að nesta okkur af mikilvægum ábendingum sem úrlausna þarf við og eins að hvetja okkur áfram, fyrir það erum við þakklát.

Í liðinni viku kynntu formenn stjórnarflokkanna fjármálaáætlun, fyrir árin 2024-2028, þar sem koma fram áherslur og markmið til næstu fimm ára um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra. Áætlunin er mikilvægt tæki til að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti. Það mátti greina góð fyrstu viðbrögð markaða við framlagningu fjármálaáætlunarinnar, vextir á ríkisskuldabréfum lækkuðu verulega og samhliða lækkaði verðbólga á milli mánaða.

Þingflokkur Framsóknar og ríkisstjórnin eru skýr með að sýna trúverðugt aðhald, en forgangsröðun brýnna verkefna og að bjóða áfram upp á góða almannaþjónusta. Þórarinn Ingi var talsmaður þingflokksins við fyrri umræðu fjármálaáætlunarinnar á Alþingi. Verður umræðunni framhaldið strax að loknu páskafríi Alþingis, þar sem ráðherrar munu m.a. fara yfir málaflokka sinna ráðuneyta.

Fjölskyldan snertir beint allt í okkar samfélagi og því er svo mikilvægt að gæta að og halda málefnum hennar á efst á blaði við alla ákvarðanatöku. Við ætlum okkur áfram að byggja gott samfélag og bjóða upp á jöfn tækifæri.

  • Við ætlum áfram að nýta barnabótakerfið til að auka ráðstöfunartekjur tekjulægri fjölskyldna.
  • Staða fjölskyldna langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verður bætt með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og umönnunargreiðslna. Aðbúnaður og réttindi barna eru ávallt í fyrirrúmi, börn eru hjartað í kerfinu.
  • Áfram verður stutt við foreldra með öflugu fæðingarorlofskerfi.
  • Við veitum börnum og barnafjölskyldum þjónustu við hæfi án hindrana og stuðlum þannig að góðum lífsgæðum, sem er ávinningur samfélagsins alls.

Farsældarlögin, samþætting þjónustu í þágu farsældar barna eru umgjörð barna og foreldra, sem á þurfa að halda og veita aðgang að þjónustu þvert á kerfi, án hindrana.

Fjárframlögin til heilbrigðismála hafa aukist verulega og endurspegla forgangsröðun og áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa með íslensku heilbrigðiskerfi.

  • Bætt var við 12 milljörðum króna í viðbótarframlag til heilbrigðismála í síðustu fjárlögum (2023) til þess að styrkja heilbrigðiskerfið og engin aðhaldskrafa er á heilbrigðisstofnanir í fjármálaáætluninni.
  • Stærsta verkefnið framundan í geðheilbrigðismálum er samþætting og samvinna milli þjónustustiga geðheilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum notenda um allt land með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi á réttum tíma. Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni er í forgangi. Aðgerðaráætlun í geðheilbrigðisþjónustu til næstu 5 ára hefur verið lögð fram á Alþingi.
  • Samningar milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári voru undirritaðir á dögunum. Samningarnir munu stuðla að jöfnu aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Stóra áskorunin okkar í húsnæðismálum er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og að skipulag sveitarfélaga horfi markvisst til framboðs á fjölbreyttri nýtingu lands. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að ná þeirri stöðu á húsnæðismarkaði að framboð íbúða mæti undirliggjandi þörf mismunandi hópa fólks á öllum tímum, óháð efnahag og búsetu.

  • Það þarf að byggja þrjátíu og fimm þúsund íbúðir hér á landi á næstu tíu árum og hefur ríkið gert samninga við sveitarfélög til að ná því markmiði.

Ákveðið hefur verið að leggja á 1% tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024. Lagt er upp með að atvinnulífið komi þannig til móts við stuðning ríkissjóðs í gegnum Covid-19.

Áætlað er að ferðaþjónustan muni koma sterkt inn með auknum tekjum.

  • Tekin verður upp skattlagning á komu skemmtiferðaskipa sambærilegri og gistináttagjaldinu.
  • Jafnframt er horft til aukna tekna af greinum eins og af fiskeldi og sjávarútvegi.
  • Breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis skipta eins máli.

Lilja Dögg gerði vel á dögunum er hún fagnaði með forystu Neytendasamtakanna, á 70 ára afmæli þeirra og afhenti þeim styrk frá ríkisstjórninni og ráðuneyti hennar til að hefja úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum. Vil ég taka undir með Lilju Dögg hvað það er brýnt og mikilvægt að í núverandi efnahagsástandi sé hugað vel að neytendamálum. Ráðuneyti hennar mun setja aukinn þung í neytendavernd og unnið er að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024.

Sigurður Ingi sagði á kynningarfundi formanna ríkisstjórnarflokkanna um fjármálaáætlunina að áfram verði hægt að takast á við arðsamar fjárfestingar í samgöngum. Framkvæmdir sem þegar eru hafnar verði ekki frestað. Í umfjöllun fjármálaáætlunar um samgöngumál er m.a. gert ráð fyrir:

  • Að hægt verði að leggja á sérstakt varaflugvallargjald, 200 kr. á farþega sem skili um 1,3 milljörðum kr. á ári til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum.
  • Að í húsnæðismálum verður stuðlað að stöðugleika með sameiginlegri sýn ríkis og sveitarfélaga til næstu 10 ára um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins. Helstu breytingar á útgjaldaramma vegna þessa málaflokks á tímabili fjármálaáætlunar er 10 milljarða kr. aukning á stofnframlögum.
  • Að um sveitarfélög og byggðamál er m.a. vakin athygli á að útgjaldarammi hækki um 5,2 milljörðum kr. á tímabilinu sem skýrist af auknu lögboðnu framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Vil ég að lokum óska landsmönnum öllum gleðilegra páska.

Framtíðin er björt með Framsókn!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen


Áhugaverðir hlekkir: