Categories
Fréttir Greinar

Viðspyrna gegn verðbólgu

Deila grein

04/04/2023

Viðspyrna gegn verðbólgu

Það er afar já­kvætt að vext­ir á rík­is­skulda­bréf­um hafi lækkað veru­lega í kjöl­far auk­ins taum­halds pen­inga­stefnu sam­hliða nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un. Til­trú fjár­festa á aðgerðum stjórn­valda er að aukast. Aðhald og skýr for­gangs­röðun er meg­in­stef í nýkynntri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ásamt því að styðja við brýn verk­efni og standa vörð um al­mannaþjón­ust­una. Rík­is­fjár­mál­in þurfa að vinna með pen­inga­stefnu Seðlabank­ans til að ná jafn­vægi í efna­hags­líf­inu og ná verðbólg­unni niður. Fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára sýn­ir þá stefnu stjórn­valda að beita rík­is­fjár­mál­un­um með mark­viss­um hætti til að ná niður verðbólgu og frek­ari hækk­un vaxta með auknu aðhaldi, tekju­öfl­un og frest­un fram­kvæmda.

Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjón­ust­una, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífs­kjör al­menn­ings. Skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lækka á tíma­bil­inu og af­koma batn­ar. Lagður verður á 1% tíma­bund­inn viðbót­ar­skatt­ur á lögaðila á ár­inu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyr­ir aukn­um tekj­um af ferðaþjón­ustu með skatt­lagn­ingu á skemmti­ferðaskip sam­bæri­legri við gistinátta­gjald sem og aukn­um tekj­um af fisk­eldi og sjáv­ar­út­vegi ásamt breyt­ing­um á skatt­lagn­ingu öku­tækja og eldsneyt­is.

Á umliðnum árum hef­ur verið fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um mála­flokk­um á mál­efna­sviðum menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins sem hef­ur skilað sér í betra sam­fé­lagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjár­mála­áætl­un er að finna ýms­ar áhersl­ur kom­andi ára í þeim mála­flokk­um. Má þar nefna hið mjög svo brýna verk­efni að bæta rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með skatta­leg­um stuðningi til að tryggja fjöl­breytni á fjöl­miðlamarkaði í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála. Með nýj­um aðgerðum vilj­um við skapa hvata og auka sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði.

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öfl­un áreiðan­legra gagna og innviðaupp­bygg­ingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönn­um víðar um landið og yfir allt árið.

Þá er gert ráð fyr­ir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjón­ustu til að auka lífs­gæði heyrn­ar­skertra og heyrn­ar­lausra. Lögð verður fram til­laga til þings­álykt­un­ar um ís­lenskt tákn­mál og aðgerðaáætl­un vegna henn­ar. Barna­menn­ing­ar­sjóður verður fest­ur í sessi með 100 m.kr. ár­legu fram­lagi ásamt verk­efn­inu List fyr­ir alla og auk­inn þungi verður sett­ur í neyt­enda­vernd og unnið að heild­ar­stefnu­mót­un sem áætlað er að ljúki fyr­ir árs­lok 2024.

Starfs­um­hverfi lista­manna og um­gjörð starfs­launa lista­manna verður bætt á tíma­bil­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur verið unnið að til­lög­um í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í fram­kvæmd. Mark­mið stjórn­valda er að starfs­launa- og verk­efna­sjóðir tryggi bet­ur af­komu þeirra sem starfa í list­um eða við skap­andi grein­ar, stuðli að meiri fjöl­breytni í út­hlut­un­um, auknu og jöfnu aðgengi mis­mun­andi list­greina og raun­særri viðmiðum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar. lda@mvf.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2023.