Categories
Fréttir

„Afrekið sem skólafólk vann“

Deila grein

20/05/2020

„Afrekið sem skólafólk vann“

„Nú þegar farfuglarnir eru flestir komnir, reglur um samkomur rýmkaðar, sundlaugar opnar, margir nýklipptir og skólaárinu að ljúka er full ástæða til að rifja upp afrekið sem skólafólk vann í kjölfar kórónuveirunnar,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Skólastjórnendur, kennarar, leiðbeinendur og annað starfsfólk á öllum skólastigum um land allt brugðust við ákalli um breytta kennsluhætti og viðveru. Starfinu var kollvarpað á núll einni og fólk stóðst prófið með glans. Niðurstaðan er sú að Ísland er eitt fárra landa sem tókst að halda skólakerfinu sínu gangandi í heimsfaraldri. Takk fyrir það.“

Þórunn kom í framhaldi inn á aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa. „800 milljónum verður varið í að tryggja markvisst sumarnám á framhalds- og háskólastigi. Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að rúmlega 80 áfangar verði í boði, að námsframboð nái til sem flestra landshluta í staðnámi og einnig að fjarnám verði í boði. Komið verður sérstaklega til móts við starfsnámsnemendur og stuðningur býðst nemendum með annað móðurmál en íslensku,“ sagði Þórunn.

„Sumarnám í háskóla hefst í lok maí og athugið að allir háskólar landsins taka þátt í þessu verkefni og munu bjóða upp á yfir 200 fjölbreyttar námsleiðir. Utan hefðbundinnar kennslu bjóðast símenntunarúrræði, undirbúningur fyrir háskólanám og færnibrú fyrir fólk sem vill skipta um starfsvettvang. Áhersla er lögð á að skrásetningargjöldum verði haldið í lágmarki og að innritaðir nemar greiði ekki skólagjöld fyrir sumarið. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur brugðist við með margvíslegum aðgerðum til hagsbóta fyrir námsmenn, m.a. að rýmka reglur og undanþágur og lengja umsóknarfresti.“

„Stjórnvöld ætla að ná til þessa hóps námsmanna sem hvorki fær starf né aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2,2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Þegar er auglýst eftir nemum í sumarstörf hjá sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Við sjáum strax árangur af þessum aðgerðum og auk þess hafa stjórnvöld veitt aukafjármagn til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda. Stóra verkefnið er að vinna gegn atvinnuleysi. — Áfram við,“ sagði Þórunn að lokum.