Categories
Fréttir

Áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum

Deila grein

20/05/2020

Áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja milljarði króna, fram til ársins 2023, til að styðja við rannsóknir og nýsköpun á samfélagslegum áskorunum, í gegnum Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu áætlunina í dag  sem og skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna og fjölluðu að auki um frekari áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum.
Árið 2018 átti Vísinda- og tækniráð í víðtæku samráði við almenning, vísindamenn, þingmenn og aðra hagaðila um þær brýnustu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir til næstu ára. Niðurstaðan var að leggja áherslu á þrjár áskoranir:

  1. loftslagsbreytingar og sjálfbærni
  2. heilbrigðisvísindi og velferð
  3. fjórða iðnbyltingin

Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rannís.
Ríkisstjórnin hefur jafnframt samþykkt aðgerðaáætlun sem miðar að því að nýta þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin felur í sér til bæta lífskjör og auka velsæld.
Aðgerðaáætlunin felur í sér 27 aðgerðir sem stjórnvöld munu vinna að á komandi misserum. Hún er unnin af verkefnisstjórn sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2019 og byggir á ýtarlegri greiningu á þeim tækifærum og áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.
Unnið er að því innan Stjórnarráðsins að hrinda tillögum verkefnisstjórnarinnar í framkvæmd. Sumt snýr að innviðum stjórnkerfisins, annað að því að efla stofnanir og sjóði sem vinna eiga að frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Mikilvægt er að móta stefnu Íslands í málefnum gervigreindar, eins og verkefnastjórnin bendir á í skýrslu sinni. Þetta verður meðal helstu verkefna íslensks samfélags á komandi árum.
Þá hefur verið sett á laggirnar þvervísindalegt rannsóknarsetur Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag. Leggur danski Carlsbergsjóðurinn 500 m.kr til setursins, íslenska ríkið 140 m.kr. og Rannsóknasjóður 100 m.kr. í tilefni af 80 ára afmæli Danadrottingar og 90 ára afmæli Vigdísar. Rannsóknarsetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Áhersla verður lögð á að ráða unga vísindamenn að verkefninu.
Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna. Tillögur verkefnisstjórnar.

Heimild: stjr.is