Categories
Fréttir

Ályktun LFK: Jafnrétti er ekki einkamál annars kynsins

Deila grein

19/06/2015

Ályktun LFK: Jafnrétti er ekki einkamál annars kynsins

logo-lfk-gluggiFramkvæmdastjórn Landssambands Framsóknarkvenna (LFK) fagnar tillögu formanna stjórnmálaflokkanna um jafnréttissjóð í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að m.a. konur fengu kosningarétt.
Þrátt fyrir að vera efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins í jafnrétti kynjanna er enn nokkuð í land að fullu jafnrétti sé náð á Íslandi. Afar jákvætt er að vinna eigi sérstaklega í því að ná enn lengra en sjóðinum er ætlað að styrkja verkefni til eflingar jafnréttis innanlands sem utan.

Mikilvægt er að styðja við konur í þeim löndum þar sem þær njóta ekki lagalegra réttinda á við karlmenn.
Í 52 ríkjum heims er ekki skilyrt í lögum að kynin njóti sömu réttinda. 26 ríki í heiminum í dag mismuna konum samkvæmt lögum um erfðarétt þar í landi. Efnahagslegt frelsi er grunnurinn að sjálfstæði kvenna en án þess eru þær dæmdar í fátækt og að vera háðar karlmönnum. Ísland á að vera fyrirmynd og í forystu í þessum mikilvæga málaflokki.
Jafnrétti er ekki einkamál annars kynsins og fagnar LFK áherslum UN Women um að auka þátttöku og skilning karla og drengja á mikilvægi þeirra í baráttu fyrir jafnari stöðu kynjanna.