Categories
Greinar

19. júní – „betur má ef duga skal“

Deila grein

19/06/2015

19. júní – „betur má ef duga skal“

Anna-Kolbrun-ArnadottirÞað er við hæfi að líta um öxl á þessum degi. Árið 1911 samþykkti Alþingi með miklum meirihluta frumvarp Hannesar Hafsteins um algert jafnrétti kynjanna til skólagöngu, námsstyrkja og embætta. Árið 1915, 19. júní, staðfesti konungur stjórnarskrána með réttindum kvenna, sem þær síðan hafa haft. Þessu ber að fagna og minnast, jafnvel 100 árum seinna. Við fögnum þessu í dag með hátíðarhöldum um allt land. En áfram þarf að vinna, það er ljóst að með jöfnum rétti kynja til skólagöngu var lagður grunnurinn að því jafnrétti sem við þekkjum hér á landi en það var og er ekki sjálfgefið.

Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem við þurfum að vinna að eins og áður sagði, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Launamunur kynjanna er enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Einnig þarf að stuðla að og efla jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi sem okkur ber að halda áfram að vinna að og það er mikilvægt að við hugum að jafnrétti á hverjum degi og minnumst þess jafnframt að samtakamáttur kvenna var og er mikill. Við megum ekki gleyma því að þegar konur komu saman á Austurvelli 1915 til að fagna kosningaréttinum var ákveðið að reisa spítala, ákvörðun sem velkst hafði fyrir körlum á Alþingi í mörg ár. Konur tóku málið að sér, hófu fjáröflun og Landsspítali reis.

Kæru konur um leið og við minnumst afreka innanlands er gott að við hugum einnig að konum utan landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum.

Innilega til hamingu með daginn – höldum áfram að vera þær fyrirmyndir sem formæður okkar allra voru.

Anna Kolbrún Árnadóttir,
Formaður Landssambands Framsóknarkvenna.