Categories
Fréttir

Án þess að gera neitt nema bútasauma

Deila grein

08/09/2016

Án þess að gera neitt nema bútasauma

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég finn mig knúinn til að ræða lítillega frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingalögunum, ekki síst út af þeim orðum sem voru viðhöfð áðan af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að þetta frumvarp hafi komið fram nú eftir þrjú og hálft ár vegna þess að fyrstu tvö ár þessa kjörtímabils var starfandi nefnd um endurskoðun þessa kerfis, stór og fjölmenn nefnd sem vann vel saman lengst af og skilaði niðurstöðum 29. febrúar sl. Í þeirri nefnd var, eins og ég sagði, góður starfsandi lengstum en það dróst um tvo mánuði að nefndin skilaði af sér vegna þess að starfandi formaður hennar þá, sá sem hér stendur, reyndi að ná sem flestum saman um tillögur nefndarinnar. Illu heilli tókst það ekki vegna þess að einn stór hagsmunahópur, þ.e. bandalag öryrkja, ákvað undir lokin að fara frekar veg með stjórnarandstöðuflokkunum á þingi en að reyna að hafa áfram áhrif á störf nefndarinnar og niðurstöðu hennar. Það er að sjálfsögðu slæmt. Engu að síður komu þessar tillögur fram í febrúarlok síðastliðnum og tillögurnar eru í raun og sann stærsta breyting sem orðið hefur á þessu kerfi áratugum saman. Þess vegna kann ég ekki við að fulltrúi þess flokks sem lengst hefur sýslað með velferðarmál á Íslandi, áratugum saman, án þess að gera neitt nema bútasauma skuli svo koma hér og gera lítið úr því sem gert er nú með þessu frumvarpi, sem er fyrsta skrefið í þá átt að tillögur nefndarinnar téðrar komi fram öllum til hagsbóta sem eiga hlut að máli og til þess að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 7. september 2016.