Categories
Fréttir

Það ver enginn dýraníð

Deila grein

08/09/2016

Það ver enginn dýraníð

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Umfjöllun fjölmiðla undanfarinn sólarhring um að þingmenn séu að verja dýraníð er með eindæmum undarleg, í raun fráleit, og gefur villandi mynd af stöðu mála. Enginn þingmaður hefur tekið þátt í því að verja dýraníð. Tillögur sem fyrir atvinnuveganefnd lágu voru báðar ófullkomnar og miklu meiri undirbúning þurfti til að standa að slíkri breytingu. Að fella niður stuðning eða beingreiðslur til bænda út af slíkum brotum er flókið verkefni og við viljum að sú lagasetning verði vönduð. Þess vegna var málið tekið aftur inn milli umræðna og nú hefur meiri hluti atvinnuveganefndar unnið málið áfram og útfært tillögu sem nú liggur fyrir.
Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að MAST hefur ríkar heimildir og úrræði til að beita í slíkum málum. Eitt af þeim er vörslusvipting. Hafi bóndi verið sviptur bústofni fær hann eðlilega ekki greiðslur samkvæmt búvörusamningi. Þá hefur MAST sektarheimildir sem beitt er til að þrýsta fram endurbótum, þær sektarheimildir geta hæglega gert allar greiðslur til bænda upptækar.
Hæstv. forseti. Það ver enginn dýraníð. Við lifum í siðuðu samfélagi þar sem við samþykkjum ekki slíkt. Almennt eru velferðarmál dýra í góðu lagi á Íslandi og eigendur búfjár mjög meðvitaðir um ábyrgð sína.
Með nýrri löggjöf um velferð dýra komu nýjar reglur um aðbúnað þeirra. Margir bændur í öllum búgreinum standa nú frammi fyrir því að gera dýrar úrbætur á húsum til að bæta aðbúnað. Nemur kostnaður við þær úrbætur mörgum milljörðum króna. Það er allt frá því að þurfa að byggja nýjar byggingar til þess að gera endurbætur sem eru umfangsminni.
Hæstv. forseti. Enginn vill loka augunum fyrir því að upp hafa komið alvarleg tilfelli þar sem skepnur líða fyrir slæman aðbúnað. Þau tilfelli munu því miður koma áfram upp. Það sem skiptir máli er að við látum okkur öll slíkt varða. Þau tilfelli eru oftar en ekki með rót í öðrum vandamálum, svo sem félagslegri stöðu, veikindum og öðrum þáttum en þeim sem endilega blasa við þegar slík mál koma upp. Eftirlit og reglur koma aldrei í staðinn fyrir alla hluti, eftirlitsstofnanir eins og Matvælastofnun hafa líka skyldur og ber líka að vera leiðbeinandi í störfum sínum.
Ég hafna því umræðu um að þingmenn verji dýraníð þegar þeir vilja vanda til lagasetningar.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. september 2016.