Categories
Fréttir

Anna Kolbrún nýr formaður LFK

Deila grein

14/01/2015

Anna Kolbrún nýr formaður LFK

Anna kolbrúnAnna Kolbrún Árnadóttir var kjörin nýr formaður Landssambands framsóknarkvenna á 17. Landsþingi framsóknarkvenna sem fram fór síðastliðinn sunnudag 11. janúar. Hún tekur við af Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa sem hefur verið formaður frá hausti 2013. Anna Kolbrún er menntunarfræðingur og doktorsnemi frá Akureyri. Hún hefur áður gegnt formennsku í jafnréttisnefnd Framsóknar og átt sæti í skipulagsnefnd flokksins. Með Önnu Kolbrúnu í framkvæmdastjórn eru Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Linda Hrönn Þórisdóttir, Bjarney Rut Jensdóttir og Bjarnveig Ingvadóttir.
Á þinginu ályktuðu framsóknarkonur, m. a. um mikilvægi þess að leiðrétta launamun kynjanna, efla fæðingarorlofssjóð, tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónusta óháð fjárhag eða búsetu. Einnig lýsa framsóknarkonur miklum áhyggjum yfir stöðu geðheilbrigðisþjónustu barna- og unglinga á öllu landinu. Þá lagði þingið til að Framsóknarflokkurinn tryggi jafnræði kynjanna í efstu sætum framboðslista með því að láta reglur um paralista ráða þeim sætum sem kosið er um í bindandi kosningu.
IMG_7761Framsóknarkonur fagna niðurstöðu miðstjórnar Framsóknar sem ályktaði í nóvember síðastliðnum að flokksþing Framsóknarflokksins árið 2015 endurspegli vilja til þess að heiðra 100 ára kosningaréttar kvenna. Framsóknarkonur hvetja ennfremur allar konur til þess að gefa kost á sér í allar stöður þjóðfélagsins.
 
 
 
 
 

Ályktanir 17. Landsþings framsóknarkvenna (LFK) 11. janúar 2015

Framsókn

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar niðurstöðu haustfundar miðstjórnar flokksins þar sem miðstjórn ályktar að flokksþing Framsóknarflokksins árið 2015 endurspegli vilja til þess að heiðra 100 ára kosningaréttar kvenna. Lfk lýsir einnig yfir ánægju sinni á viðburðum tengdum þessum mikilvægu tímamótum.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur til að Framsóknarflokkurinn tryggi jafnræði kynjanna í efstu sætum framboðslista með því að láta reglur um paralista ráða þeim sætum sem kosið er um í bindandi kosningu. Bundin sæti skulu að lágmarki vera fjögur þegar valið er á lista.
    Með paralista er átt við að sitthvort kynið skal skipa 1. og 2. sætið og síðan í næstu tvö sæti og þannig áfram niður listann. Þegar efstu sætum sleppir skal hlutfall kvenna og karla vera sem jafnast á listanum öllum samanber lög og reglur flokksins. Víki framjóðandi sæti eftir að val fer fram, færist næsti frambjóðandi upp eftir þeirri reglu að áður samþykkt kynjahlutfall haldist gildi.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á að unnið verði áfram að jafnrétti kynjanna. Þar skiptir lagalegt, samfélagslegt og félagslegt réttlæti máli. Þótt lagalegt jafnrétti sé að mestu unnið er ennþá margt að vinna fyrir bæði kynin. Brjóta þarf niður venjur og hefðir sem hefta framþróun kynjajafnréttis bæði innan lands sem utan. Það er sameiginlegt verkefni kvenna og karla að stuðla að framþróun jafnréttis.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar endurreisn íslensks efnahagslífs undir forystu framsóknarmanna.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, tekur undir orð forystu Framsóknarflokksins um að aldrei má láta staðar numið og verkefnin eru næg, samfélagið er aldrei í kyrrstöðu og það verður að bera kyndilinn áfram til næstu kynslóða. Jafn réttur kynjanna er málefni allra.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, lýsir yfir ánægju sinni með bætt kynjahlutföll innan ríkisstjórnarinnar með skipun nýs ráðherra Framsóknar, Sigrúnar Magnúsdóttur í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra og óskar henni velfarnaðar í starfi.

Fjölskyldur

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á að fæðingarorlof verði lengt og upphæð orlofsins hækkuð þar sem hagur ríkissjóðs fer batnandi, einnig má benda á að með þeim hætti er staðið við markmið laga. Sýnt hefur verið fram á að karlar með lægri tekjur taka síður fæðingarorlof en þátttaka þeirra dróst saman eftir 2009. Lfk bendir á að þrátt fyrir mikla þátttöku karlmanna í fæðingarorlofi er mikilvægt að auka hana enn frekar. Þá sýna rannsóknir að þeir feður sem taka feðraorlof eru líklegri til þess að taka þátt í uppeldi barna sinna sem stuðlar að jafnrétti kynjanna, einnig innan veggja heimilisins.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar fyrirhuguðum úrbótum í húsnæðismálum með nýrri húsnæðisstefnu sem mun gagnast hvað mest efnaminni fjölskyldum sem nú þurfa margar hverjar að búa í allt of dýru leiguhúsnæði.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, telur afar mikilvægt að lýðheilsusjónarmið verði umfram allt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu frumvarps sem lagt hefur verið fram um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda frá því í janúar síðast liðinum. Í þessu sambandi vill Lfk benda á að alþjóðlegum rannsóknum ber saman um að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar neyslu þess og að samhliða aukinni áfengisneyslu mun samfélagslegur kostnaður aukast vegna neyslutengdra vandamála þeirra sem neyta áfengis.

Vinnumarkaðurinn

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á að þrátt fyrir miklar breytingar á liðnum áratugum sé íslenskur vinnumarkaður enn mjög kynjaskiptur, því þarf að breyta með öllum tiltækum ráðum, óviðunandi er að laun í kvennastéttum eru lægri en í karlastéttum. Lfk vekur athygli á að launamunur kynjanna mælist ennþá 7–18% sem er með öllu óásættanlegt og fagnar innleiðingu jafnlaunastaðals stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, ályktar að mikilvægt er að stuðla að því að uppræta rótgróin kynjabundin gildi um mismunandi hæfni kvenna og karla sem hamla því að kynin hafi jafna möguleika á vinnumarkaði. Lfk bendir á að staðalímyndir virðast ráða miklu um námsval ungs fólks sem svo hefur áhrif á starfsval þegar að atvinnuþátttöku kemur. Einnig er erfitt fyrir konur sem komnar eru yfir miðjan aldur að fá störf þrátt fyrir að búa yfir fagmenntun.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, vill hvetja konur til þess að gefa kost á sér í allar stöður þjóðfélagsins og bendir á að ójöfn staða karla og kvenna hamlar þróun í átt til jafnréttis kynjanna. Lagasetning um kynjakvóta hefur skilað árangri en jafnframt vill Lfk leggja áherslu á að gera þarf betur.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á að þegar verið er að skipa í nefndir á vegum ríkis og sveitarfélaga og annarra opinberra stofnana séu kynjasjónarmið ætíð höfð að leiðarljósi. Lfk hvetur stjórnvöld til þess að endursenda þau tilnefningabréf sem ekki innihalda nöfn á báðum kynjum eða gera grein fyrir ástæðum þess að ekki var tilnefnt samkvæmt lögum.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, vill hvetja konur í atvinnurekstri að efla samstöðu sína og viðskiptatengslanet. Konur eru í minnihluta í hópi eigenda og stjórnenda fyrirtækja. Mikilvægt er að auka fjölbreytni atvinnulífsins og nýta sem best krafta allra. Það er sameiginlegt verkefni karla og kvenna.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, lýsir yfir ánægju sinni með stofnun félags kvenna í sjávarútvegi.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, ályktar að stytting vinnuviku íslendinga sé nauðsynleg í komandi kjarasamningum til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar samanber ,,Measures work-life balance OECD” en þar kemur fram að Ísland og Pólland eru með sambærilegar tölur í unnum vinnutímum á viku á meðan nágrannaþjóðir okkar eru að ná hæstu gæðum og jafnvægi þegar kemur að því að sameina vinnu og fjölskyldulíf og er það tilkomið vegna styttri vinnuviku.

Byggðarmál

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar því að vinna sé hafinn við ljósleiðaravæðingu landsins sem verður að telja eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, ályktar að eðilegt sé að flutningur ríkisstofnanna séu ætíð til skoðunar. Enda liggi að baki vel rökstudd fagleg rök.

Heilbrigðismál

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar að nú sé mikilvægum áfanga náð í markvissri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins með samningi við lækna og vill benda á í því samhengi að á árinu 2015 verður meira fjármagni varið til Landspítalans en nokkurn tíma áður, auk sjöföldunar árlegs framlags til tækjakaupa á spítalanum.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála barna- og unglinga á öllu landinu. Það er með öllu óásættanlegt að aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu skuli ekki standa öllum til boða sem þurfa að nýta sér þjónustuna vegna kostnaðar, sem er ómanneskjulegur. Öll börn- og unglingar eiga að hafa rétt á sambærilegu aðgengi. Til að breyta þessu þarf aðeins reglugerðarbreytingu og Lfk bendir á að flokksþing Framsóknar ályktaði á flokksþingi sínu árið 2013 að gera öllum börnum og unglingum það kleift á landinu að njóta þessarar þjónustu óháð efnahag og búsetu. Lfk hvetur stjórnvöld til að flýta vinnu við þingályktunartillögu um bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn- og unglinga og fjölskyldur þeirra og vinna samhliða aðgerðir vegna úrraæða fyrir börn- og fjölskyldur þeirra sem eru í neysluvanda. Lfk bendir á að tryggja þarf fjármagn til þess að hægt sé að standa vel að þessu brýna máli.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar skipun ráðherranefndar forsætisráðherra um lýðheilsu, sem ætlað er að móta lýðheilsustefnu og aðgerðaráætlun.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, vekur athygli á að stjórnvöld þurfa að skapa aðstæður til að auðvelda fólki að lifa heilsusamlegu lífi sem getur sparað umtalsvert fjármagn í heilbrigðiskerfinu.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, ályktar að góður svefn og svefnvenjur sé lykilatriði í heilsu hvers landsmanns. Rannsóknir hafa bent til þess að með leiðréttingu klukkunnar sé hægt að hafa jákvæð áhrif á svefn sem hefur einnig áhrif á líðan m.a. skólabarna. Lfk styður tillögu um breytingu klukkunnar.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, vill benda á að nauðsynlegt er að standa vörð um aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Samvinnufélagaformið sé mikilvægur valkostur í því sambandi. Þjónustan verði að vera öllum aðgengileg óháð fjárhag eða búsetu. Lfk hafnar allri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, telur að bæta þurfi verulega í til að tryggja að þjónustukerfi innan velferðarsamfélagsins nái betur saman. Lfk leggur áherslu á að heilbrigðis- og skólakerfið vinni nánar saman með félagsþjónustu, foreldrum og barnavernd á hverjum stað. Það er brýn þörf á að þjónustuferlið sé heildstætt og allir aðilar vinni saman að markmiðum sem nýtast og eru hverju barni til góða.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, lýsir ánægju sinni með að nú verður MST fjölkerfameðferð í boði um allt land en úrræðið er ætlað fjölskyldum 12–18 ára barna sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda á mörgum sviðum.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar að tannlækningar 3 ára barna og barna frá 8 ára til 17 ára séu greiddar að fullu. Stefnt er að því að tannlækningar allra barna undir 18 ára verði greiddar að fullu af Sjúkratryggingum Íslands sem er stórt skref í tannheilbrigði landsmanna.

Ríkisfjármál

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, tekur undir sjónarmið formanns fjárlaganefndar að opinberar stofnanir þurfi að hagræða í rekstri sínum.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á forgangsraða og spara í ríkisrekstri sér í lagi þegar liggur fyrir að landsmenn eldast og hið opinbera er illa í stakk búið að takast á við þá stöðu. Allir skattgreiðendur verða að horfast í augu við þessa staðreynd og vera meðvitaðir um hvert álagðir skattar fara í þeirra þágu. Lfk skorar á stjórnvöld að fylgja hagræðingarstefnu sinni og hvetur í leiðinni opinbera aðila að hafa frumkvæði að sparnaði í rekstri sínum svo þetta markmið náist.

Skólamál

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, bendir á að grunnþættir menntunar eru samfélagsmiðaðir og þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði þannig að samfélagið njóti krafta allra til framtíðar. Því er það mikilvægt að standa vörð um að allir nemendur fái notið kennslu við hæfi og staðinn sé vörður um grunnþætti menntunar. Lfk leggur áherslu á að efnisval og inntak náms og kennslu mótist af þeim og ítrekar að ábyrgð fagfólks er mikil. Skólakerfið í heild sinni gegnir lykilstöðu í samvinnu við foreldra þegar samfélagsleg og siðferðileg málefni, staðalímyndir og kynímyndir eru mótaðar.

Kynbundið ofbeldi

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, vekur athygli á að grófasta birtingarmynd ójafnréttis er kynbundið ofbeldi og þ.m.t. nauðganir. Lfk telur afar brýnt að sú aðferðafræði þar sem gerandinn í ofbeldismálum fari af heimilinu en ekki fórnarlambið verði innleidd um allt land. Mikilvægt er að auka samstarf allra fagaðila og efla lögreglu og félagsþjónustu.

Samþætting kynja og jafnréttissjónarmiða

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, leggur áherslu á að sjónarmið beggja kynja séu til staðar þegar um breytingar í starfsemi eða þegar um er að ræða uppbyggingu nýrrar starfsemi. Með því er verið að tryggja að höfðað sé til beggja kynja og þarfir þeirra uppfylltar. Lfk bendir á að markmiðið er að tryggja að stefna og starfsemi mismuni ekki eftir kyni heldur stuðli að frekari uppbyggingu og auknu jafnrétti kynja. Hafa skal í huga að aðferðin getur nýst við fjölbreyttar aðstæður og auðvelt að aðlaga að því verkefni sem liggur fyrir. Í ljós hefur komið að kynjasamþætting getur haft jákvæð áhrif á rekstur og þjónustu og er gott gæðastjórnunartæki.

Alþjóðamál

  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, ályktar að mikilvægt sé að styðja við konur í þeim löndum þar sem þær njóta ekki lagalegra réttinda á við karlmenn. í 52 ríkjum heims er ekki skilyrt í lögum að kynin njóti sömu réttinda. 26 ríki í heiminum í dag mismuna konum skv lögum um erfðarétt þar í landi. Efnahagslegt frelsi er grunnurinn að sjálfstæði kvenna en án þess eru þær dæmdar í fátækt og að vera háðar karlmönnum. Ísland á að vera fyrirmynd og í forystu í þessum mikilvæga málaflokki.
  • 17. landsþing Landssambands framsóknarkvenna haldið í Reykjavík sunnudaginn 11. janúar 2015, fagnar áherslu Íslands á jafnréttismál á alþjóðagrundu. Jafnrétti kynjanna er efnahagslega mikilvægt og þarft áhersluefni en UN WOMEN er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem Ísland leggur mest fé til. Ísland er eina ríki heims sem forgangsraðar stuðningi sínum við stofnanir Sameinuðu þjóðanna á þennan hátt. Væntanleg ráðstefna Íslands og Súrinam er fagnaðarefni þar sem verið er að efla karlmenn til dáða til þátttöku í baráttu fyrir mannréttindum um allan heim.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.