,,Hæstv. forseti. Ég ætla að tala um Landsvirkjun. Ég fékk loksins svar við fyrirspurninni, sá það í gær. Umhverfis- og orkumál sem og matvælaframleiðsla eru hin stóru mál framtíðarinnar. Ísland er mjög framarlega í heiminum í framleiðslu á nýtingu grænnar orku, þ.e. virkjun fallvatna og jarðvarma. Á þeim sviðum hefur orðið til gríðarleg þekking hér á landi á síðastliðnum áratugum sem okkur ber að miðla eftir bestu getu til annarra þjóða. Hlutverk okkar í ýmsum þróunarsamvinnuverkefnum eru til að mynda á þeim sviðum, sem er vel, auk miðlunar á þekkingu varðandi landgræðslu, sjávarútveg og síðast en ekki síst í jafnréttismál, svo eitthvað sé nefnt.
Víkjum aftur að orkuframleiðslunni hér á landi og framtíðarsýn hvað varðar eigandastefnu orkufyrirtækja. Landsvirkjun er gríðarlega öflugt orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Starfsemi Landsvirkjunar hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi, bæði með auknu öryggi, afhendingu á raforku og miklum gjaldeyristekjum. Þau lífsgæði sem við höfum hér í formi tiltölulega ódýrrar grænnar orku eru alls ekki sjálfsögð. Því er það samfélagslega afar mikilvægt að Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins.
Í svari sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra nýlega um eigandastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landsvirkjun kemur fram að ekki standi til að einkavæða fyrirtækið að hluta eða öllu leyti. Það eru mjög góðar fréttir. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins um að Landsvirkjun verði áfram í eigu íslenska ríkisins. Í greinargerð málsins kemur m.a. fram að forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á að fjárhagsleg staða fyrirtækisins verði sífellt sterkari og arðsemi aukist. Í lok ársins 2016 var eiginfjárhlutfall landsvirkjunar 45,4% og hefur aldrei verið hærra. Þetta mun leiða til þess að arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð landsmanna munu fara stighækkandi. Þær gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum. Ríkisstjórnin áformar að setja fram eigandastefnu fyrir Landsvirkjun, það kom fram í svari ráðherra, og það er því afar mikilvægt á þeim tímapunkti að vilji Alþingis gagnvart þessu máli komi skýrt fram.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins, 3. maí 2017.
Categories
Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum
04/05/2017
Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum