Categories
Fréttir

Átak í að skipta út einbreiðum brúm – 5200 milljónir á næstu tveimur árum

Deila grein

27/03/2020

Átak í að skipta út einbreiðum brúm – 5200 milljónir á næstu tveimur árum

„Á þessu ári hefst verulegt átak í að skipta út einbreiðum brúm. Áformað er að verja aukalega 3300 m. kr. til að breikka einbreiðar brýr, alls um 5200 milljónir á næstu tveimur árum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, í yfirlýsingu á Facebook í gær.

„Elsta einbreiða brúin á Hringveginum er brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, byggð 1947, er orðin 73 ára gömul og komin af léttasta skeiðinu. Sú yngsta er yfir Selá í Álftafirði en hún var byggð 1985 og er því 35 ára gömul.“

„Áætlað er að breikka brýr yfir Köldukvíslargil á Norðausturvegi, Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi, Botnsá í Tálknafirði, Bjarnadalsá í Önundarfirði, Núpsvötn, Stóra- Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi, Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss. Auk þessa er unnið eftir samgönguáætlun en þar eru brýr yfir Jökulsá Sólheimasandi, Hattardalsá og Steinavötn, Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur, Kvíá í Öræfasveit, og Fellsá í Suðursveit sem fá að víkja fyrir nýrri kynslóð,“ segir Sigurður Ingi.