Categories
Greinar

Aðgerðir til að verja störfin

Deila grein

26/03/2020

Aðgerðir til að verja störfin

Þessi vet­ur mun seint renna okk­ur Íslend­ing­um úr minni. Fann­fergi, tíður lægðagang­ur, raf­magns­leysi, snjóflóð á Vest­fjörðum og landris í Grinda­vík. Vet­ur­inn hef­ur svo sann­ar­lega minnt okk­ur á hvar á jarðar­kringl­unni við búum. Í efna­hags­mál­um vor­um við að sigla inn í sam­drátt­ar­skeið eft­ir átta ára sam­fellt hag­vaxt­ar­skeið og staðan á síðustu tveim­ur vik­um hef­ur síðan gjör­breyst með til­komu Covid-19 (kór­ónu­veirunn­ar). Stjórn­völd eru vel í stakk búin til að bregðast við enda staða þjóðarbús­ins sterk.

Tekj­ur fyr­ir­tækja þurrk­ast út

Mik­il óvissa rík­ir á vinnu­markaði eft­ir að lýst hef­ur verið yfir heims­far­aldri vegna kór­ónu­veirunn­ar. Við erum að horfa fram á nán­ast hrun í ferðaþjón­ustu næstu mánuðina og ljóst að áhrif­in verða einnig mik­il á aðrar at­vinnu­grein­ar, bæði hér á landi og er­lend­is. Bein störf við ferðaþjón­ustu eru um 25 þúsund á Íslandi og má ætla að hlut­ur er­lendra ferðamanna í verðmæta­sköp­un ferðaþjón­ustu sé hlut­falls­lega um 70%. Af­leiðing þessa get­ur með bein­um hætti haft áhrif á um 18 þúsund störf hér á landi. Ef ekk­ert er gert má gera má því ráð fyr­ir að at­vinnu­leysi vaxi mikið með til­heyr­andi áhrif­um á allt þjóðfé­lagið.Við höf­um kynnt fyrsta áfanga um­fangs­mik­illa aðgerða með það að mark­miði að verja efna­hags­lífið eins og hægt er. Aðgerðirn­ar eru fjöl­breytt­ar og lúta meðal ann­ars að sér­stök­um hluta­at­vinnu­leys­is­bót­um, frest­un og af­námi op­in­berra gjalda, sér­stök­um barna­bóta­auka með öll­um börn­um og end­ur­greiðslu virðis­auka­skatts vegna fram­kvæmda.

Við þess­ar aðstæður er mark­miðið skýrt; að verja heim­il­in, fyr­ir­tæk­in og störf­in í land­inu.

Hluta­bæt­ur eru hryggj­ar­stykkið í aðgerðapakk­an­um

Fyr­ir nokkr­um dög­um samþykkti Alþingi frum­varp mitt um rétt til greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda, svo­kallaða hlutastar­fa­leið. Mark­miðið með laga­setn­ing­unni er ein­falt; að stuðla að því að vinnu­veit­end­ur haldi ráðning­ar­sam­bandi við starfs­menn sína eins og frek­ast er unnt. Mik­il verðmæti eru fólg­in í því fyr­ir sam­fé­lagið allt að sem flest­ir haldi virku ráðning­ar­sam­bandi við vinnu­veit­anda og hér verði kröft­ug viðspyrna þegar far­ald­ur­inn hef­ur gengið yfir.Helstu atriði frum­varps­ins eru eft­ir­far­andi:

• Allt að 75% hluta­bæt­ur – At­vinnu­rek­andi lækk­ar starfs­hlut­fall starfs­manns niður í að minnsta kosti 80% miðað við fullt starf, en þó ekki neðar en í 75% starfs­hlut­fall, og þá kem­ur ekki til skerðing­ar á at­vinnu­leys­is­bót­um. At­vinnu­rek­anda er óheim­ilt að krefjast vinnu­fram­lags um­fram nýtt starfs­hlut­fall.

• Allt að 90% heild­ar­launa – Greiðslur at­vinnu­leys­is­bóta skulu nema há­marki tekju­tengdra at­vinnu­leys­is­bóta í réttu hlut­falli við hið skerta starfs­hlut­fall. Laun frá vinnu­veit­anda og greiðslur at­vinnu­leys­is­bóta sam­an­lagt geta þó aldrei numið hærri fjár­hæð en 90% af meðaltali heild­ar­launa launa­manns miðað við þriggja mánaða tíma­bil áður en launamaður missti starf sitt að hluta.

• Þak á sam­an­lagðar bæt­ur og laun 700.000 kr. – Laun frá vinnu­veit­anda fyr­ir hið minnkaða starfs­hlut­fall og at­vinnu­leys­is­bæt­ur geta sam­an­lagt aldrei numið hærri fjár­hæð en 700.000 kr. á mánuði.

• Laun allt að 400.000 kr. að fullu tryggð – Ein­stak­ling­ar með 400.000 kr. eða minna í laun á mánuði geta fengið greidd 100% af meðaltali launa.

• Náms­menn heyra und­ir lög­in – Náms­menn geta átt rétt á bót­um sam­kvæmt frum­varp­inu upp­fylli þeir að öðru leyti skil­yrði ákvæðis­ins. Hvet ég náms­menn til að kynna sér skil­yrðin á vef Vinnu­mála­stofn­un­ar.

• Starfs­menn íþrótta­fé­laga og frjálsra fé­laga­sam­taka heyra und­ir lög­in – Starfs­menn og verk­tak­ar íþrótta­fé­laga og frjálsra fé­laga­sam­taka eiga rétt á hluta­greiðslu sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda.

• Sjálf­stætt starf­andi ein­stak­ling­ar heyra und­ir lög­in – Aðgerðir rík­is­ins eiga einnig við um sjálf­stætt starf­andi ein­stak­linga og gilda sömu skil­yrði um þá og starfs­fólk fyr­ir­tækja.

Lög­in eru tíma­bund­in og gilda út maí en við erum til­bú­in að bregðast við ef þess verður þörf. Nú þegar er búið að opna fyr­ir um­sókn­ir um slík­ar bæt­ur á vefsíðu Vinnu­mála­stofn­un­ar. Ég hvet at­vinnu­rek­end­ur til þess að minnka frek­ar starfs­hlut­fall starfs­fólks tíma­bundið í stað þess að grípa til upp­sagna. Störf­in ætl­um við að verja með öll­um til­tæk­um ráðum og með hlutastar­fa­leiðinni tryggj­um við að viðspyrn­an verður miklu kraft­meiri og snarp­ari þegar far­aldr­in­um lýk­ur.

För­um sam­an gegn­um skafl­inn!

Öll él stytt­ir upp um síðir og þegar birta tek­ur mun­um við þurfa alla þá viðspyrnu sem við náum til að ná fyrri styrk og von­andi gott bet­ur. Með æðru­leysi, kjarki og dugnaði kom­umst við gegn­um þessa tíma­bundnu erfiðleika. Pöss­um upp á þá sem standa okk­ur næst, nýt­um tækn­ina til sam­skipta og rækt­um lík­ama og sál eins og við get­um. Samstaða þjóðar­inn­ar hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ari og all­ir þurfa að leggja hönd á plóg. Sam­an för­um við í gegn­um skafl­inn.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2020.