Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hafa lífskjör hundraða milljóna manna batnað verulega með auknum kaupmætti. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum – þar sem hugað hefur verið að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins.
Hagsaga Íslands er saga framfara en um leið og Ísland hóf aftur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og velmegun. Á þeirri vegferð hefur tæknivæðing samfélagsins lagt sitt af mörkum og skilað aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Á undanförnum árum hafa ýmsar áskoranir birst í heimi alþjóðaviðskiptanna. Eftir að Bretton-Woods-gjaldmiðlaumgjörðin leið endanlega undir lok á áttunda áratugnum tók við tímabil sem einkenndist af efnahagslegri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Bandaríkin og Bretland í umfangsmiklar kerfisbreytingar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal annars í því að losa um eignarhald ríkisins á ýmsum þáttum hagkerfisins, skattar voru lækkaðir, einblínt var á framboðshliðina og létt var á regluverki.
Eftir gríðarlegt pólitískt umrót í Kína áratugina á undan náðist samstaða um að hefja mikið efnahagslegt umbótaskeið sem hóst með valdatöku Deng Xiaoping 1978. Í kjölfar þess að Bandaríkin og Bretland fóru að styrkjast efnahagslega ásamt Kína fóru mörg önnur ríki að þeirra fordæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæmin aukin viðskipti innan EFTA, ESB og EES sem styrktu hagkerfi innan þeirra vébanda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eftir fall ráðstjórnarríkjanna. Að sama skapi skipti sköpum fyrir þróun heimsviðskipta innganga Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina árið 2001. Í kjölfarið urðu breytingar á samkeppnishæfni og útflutningi Kínverja með tilheyrandi aukningu í alþjóðaviðskiptum.
Við höfum séð viðskiptahindranir og -hömlur aukast töluvert undanfarinn áratug. Í því samhengi hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% en það jafngildir samanlagðri stærð franska og þýska hagkerfisins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í heiminum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.