Categories
Fréttir

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Deila grein

21/11/2022

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra á Skipulagsdeginum 17. nóvember 2022

Kæru gestir!

Það er mér sönn ánægja að flytja opnunarávarp á Skipulagsdeginum.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt ávarp á þessari samkomu sem ráðherra nýs innviðaráðuneytis. Undir það ráðuneyti heyra nú byggðamál, húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur og málefni sveitarstjórna. Sú yfirsýn sem náðst hefur með nýju innviðaráðuneyti felur í sér miklar breytingar og gerir okkur kleift að samhæfa þessa málaflokka, einfalda ferla og gera okkur betur grein fyrir þörfum íbúa um land allt með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Með því að færa skipulagsmálin og húsnæðismálin á milli ráðuneyta og samþætta þau við aðra málaflokka í nýju innviðaráðuneyti næst fram betri yfirsýn, áætlunargerð verður markvissari og hagkvæmni eykst, sem til framtíðar mun aftur leiða til aukins stöðugleika. Á þeirri vegferð leika skilvirkir skipulagsferlar stórt hlutverk og að upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á hverjum tíma. Þannig hafa sveitarfélög t.a.m. betri upplýsingar um þörf fyrir byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. 

Að mínu mati eru skipulagsmál einn mest spennandi málaflokkur sem ég hef komið að. Málaflokkinn þekki ég vel sem fyrrum sveitarstjórnarmaður og umhverfis- og auðlindaráðherra – og nú á ný sem innviðaráðherra. Og með þessa reynslu veit ég líka að þau geta verið mjög snúin og flókin þar sem þau snerta marga, ef ekki meira og minna flesta málaflokka sem snýr að stjórnsýslunni. Ég hef stundum sagt að í samgöngum séu um 360 þúsund ráðgjafar sem allir hafi eitthvað til málanna að leggja. Skipulagsmál eru um margt flóknari. Því er mikilvægt að skipulagsmálin séu skipuð næst þeim málaflokkum þar sem áskoranirnar eru stærstar á hverjum tíma, núna í samgöngum, húsnæðismálum og sveitarstjórnarmálum.

Góðir gestir

Skipulagsstofnun er um margt einstök stofnun. 

Umgjörð stofnunarinnar er á þann hátt að hún er lögbundin líkt og lægra sett stjórnvald á grundvelli skipulagslaga. Hlutverk stofnunarinnar sem ráðgefandi stofnun er hins vegar meira í ætt við ráðuneytisstofnun gagnvart innviðaráðherra en tekur hins vegar kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laga á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra líkt og lægra sett stjórnvöld gera.

Eitt af því sem Skipulagsstofnun gerir svo vel er að að veita upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál. Með öðrum orðum að fylgjast með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum og aðstoða þau og leiðbeina þeim við gerð skipulagsáætlana. Ráðherra leggur hins vegar fram tillögu til þingsályktunar um landskipulagsstefnu sem sveitarfélögin taka mið af við gerð skipulagsáætlana.

Það er gaman frá því að segja að gildandi landsskipulagsstefna var að einhverju leyti unnin þegar ég var umhverfis- og auðlindaráðherra. Eftirmaður minn, Sigrún Magnúsdóttir, tók síðan við keflinu og lagði hana fram árið 2015 sem Alþingi samþykkti ári síðar. 

Ég hef nú ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun á gildandi landskipulagsstefnu 2015-2026. Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum, til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um þróun byggðar og landnýtingu. Hún setur fram stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, í dreifbýli, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og loks um skipulag á haf- og strandsvæðum. 

Leiðarljós stefnunnar verða sem fyrr að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun, auknum lífsgæðum íbúa og samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta.

Það fer vel á því að málaflokkurinn sé kominn til innviðaráðuneytisins þar sem stefnan tekur mið öðrum áætlunum sem varða landnýtingu, t.d. hvað varðar samgöngur, byggðamál og orkunýtingu auk náttúruverndar.

Fyrstu skrefin við undirbúning endurskoðunarinnar hafa verið stigin og samráð verður haft á öllum stigum málsins eins og ávallt. Breytingin verður þó ekki meiri en svo að gerð verður tillaga um að ný viðfangefni fléttist inn í gildandi stefnu.

Sem ráðherra hef ég lagt fram nokkrar áherslur til grundarvallar í þessari endurskoðun.

Sérstök áhersla á skipulag í þágu loftslagsmála og setja fram stefnu um bindingu kolefnis, draga úr losun frá landnotkun og byggð.

Mikilvægt er að skipulag stuðli að jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en ég mun koma nánar að húsnæðismálum síðar. 

Þá er áhersla á fjölbreytta ferðamáta og orkuskipti í samgöngum og sett fram stefna sem stuðla að tryggum innviðum fyrir orkuskipti og blöndun byggðar sem stuðlar að tækifærum fyrir fjölbreytta ferðamáta.

Við endurskoðun á landsskipulagsstefnu verði einnig  mótuð nánari stefna um uppbyggingu vegasamgangna á miðhálendinu eins og er skilgreind í gildandi stefnu. Horft verður til þess að skoða útfærslu vega á miðhálendinu með tilliti til orkuskipta í samgöngum og mögulegs öryggishlutverks vega á miðhálendinu sem hjáleiðar vegna náttúruvár.

Lögð verður áhersla á útfærslu úrræða til þess að stuðla að framgangi þjóðhagslega mikilvægrar innviðauppbyggingar. Í skipulagsgerð sveitarfélaga eru teknar ákvarðanir um hvernig uppbyggingu innviða skuli háttað, uppbygging sem í sumum tilvikum hefur áhrif á fleiri en íbúa sveitarfélagsins. Þegar um er að ræða uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða er í sumum tilvikum eins og við gjarnan þekkjum mikilvægt að það sé til staðar farvegur til að móta stefnu sem varðar sameiginlegar skipulagsákvarðanir um þjóðhagslega mikilvæga innviði.

Þá er mikilvægt að huga að skiptingu og útfærslu landbúnaðarlands. Það ríkir samkeppni um land og á það ekki síst við um land í dreifbýli, aukin eftirspurn er eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, þéttbýlismyndun í dreifbýli og aukinn áhugi á nýtingu vindorku. Það reynir meira á að ná fram sátt í skipulagsgerð og móta þarf stefnur um varðveislu lands sem hentar vel til ræktunar.

Vindorkan og nýting hennar skipar stóran sess í skipulagi og fylgir því nýjar áskoranir, ekki síst vegna sjónrænna áhrifa. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Við endurskoðun landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að sett verði sett fram stefna og viðmið fyrir ákvarðanir um nýtingu vindorku.

Loks verður við endurskoðun landsskipulagsstefnu stefna um skipulag haf- og strandsvæða endurskoðuð með hliðsjón af lögum um skipulag haf- og strandsvæða, tillögum svæðisráða um strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum sem og annarri stefnumörkun stjórnvalda er snýr að nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.

Innviðaráðuneytið stóð nýlega fyrir samráðsfundum í öllum landshlutum þar sem fjallað var um stefnur og áætlanir sem heyra undir ráðuneytið. Íbúum og sveitarstjórnarfólki um land allt gafst þar tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins. Þessir fundir voru í anda þeirrar samhæfingar sem ég hef áður lýst þar sem þessar málaflokkar hafa svo mikil hver á annan. Á fundunum var fjallað um nýsamþykkta byggðaáætlun, samgönguáætlun og stefnu í sveitarstjórnarmálum, sem eru í reglubundinni endurskoðun og  nýja húsnæðisstefnu sem er í smíðum. Loks var fjallað um áherslur ráðherra í komandi endurskoðun á landsskipulagsstefnu.

Samnefnari þessara áætlana er það sem við höfum nefnt búsetufrelsi. Skilgreining á búsetufrelsi er á þessa leið: Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.

Fjölbreytt íbúðasamsetning, grunnþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi.

Góðir gestir – framundan er spennandi dagskrá og viðfangsefnin brýn.

Eitt af viðfangsefnum fundarins hér í dag er fæðuöryggi og orkuskipti. Sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ég sterkar taugar til innlendrar matvælaframleiðslu en þessar tvær atvinnugreinar leggja grunninn að fæðuöryggi þjóðarinnar. Hvernig ætlum við að knýja áfram skipaflotann okkar, flugflotann og vinnuvélar í iðnaði og landbúnaði? Hvernig ætlum við að ná og viðhalda orkusjálfstæði sem leggur grunn að fæðuöryggi? Tækifærin eru mörg og þau eru stór. 

Við eigum allt undir því að fiskistofnarnir í sjónum séu heilbrigðir og að til staðar sé gott land til ræktunar, ásamt nýjustu þekkingu á framleiðslu og tækjum.

Við vitum að í matvælaframleiðslu, eins og öðrum mikilvægum sviðum samfélagsins, þarf orku, innlenda græna endurnýjanlega orku. Þar erum við raunar í öfundsverðri stöðu á heimsvísu og verðum að nýta þekkingu okkar og aðstæður eins og kostur er. Og þá sérstaklega að gæta að skipulagi og nýtingu landbúnaðarlands til að tryggja innlenda framleiðslu á matvælum og fæðuöryggi, ekki síst á tímum loftslagsvár og stríðsátaka. Orkuskiptin geta ekki aðeins orðið lykill að kolefnishlutleysi heldur hreinlega styrkt efnahagslega stöðu þjóðarinnar.

Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum samtímans. Loftslagsmálin er verkefni okkar allra, áskorun sem allir þurfa að taka og gera ráð fyrir í atvinnulífinu og daglegu lífi. 

Ríkisstjórnin hefur lagt fram mjög metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum með raunhæfum aðgerðum til að standa við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum, sem eru í raun skuldbindingar gagnvart okkur sjálfum. 

Og að því sögðu þarf skipulag að taka mið af samfélaginu hverju sinni en einnig og ekki síst að taka mið af breyttum heimi vegna loftslagsbreytinga. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.