Á 37. Flokksþingi Framsóknar um liðna helgi voru veitt Bjartsýnisverðlaun Framsóknar. Bjartsýnisverðlaun Framsóknar eru veitt aðilum utan flokksins sem hafa lagt eitthvað jákvætt að mörkum til íslensks samfélags.
Þann 20. apríl, á kvöldverðarhófi flokksþings Framsóknar voru verðlaunin veitt Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið: Frú Ragnheiður.
Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna.
Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar.
Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, veitti verðlaunum viðtöku og óskar Framsókn henni og Rauða krossinum innilega til hamingju með verðlaunin.