Categories
Fréttir Greinar

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Deila grein

23/03/2024

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og róm­ur með, hug­ur og tunga hjálpi til, herr­ans pínu ég minn­ast vil.

Páska­hátíðin er haf­in þar sem við njót­um sam­vista með fjöl­skyldu og vin­um. Pass­íusálm­arn­ir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meist­ara­verk bæði frá list­rænu og trú­ar­legu sjón­ar­miði og ein af mörg­um birt­ing­ar­mynd­um þess ríka bók­mennta­arfs sem Ísland býr að. Bók­mennt­ir eru samofn­ar sögu þjóðar­inn­ar eins og við þekkj­um. Þannig er bók­mennta­arf­ur Íslend­inga okk­ar merk­asta fram­lag til heims­menn­ing­ar en hand­rita­safn Árna Magnús­son­ar er til dæm­is á verðveislu­skrá UNESCO.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in stór skref til þess að efla um­gjörð menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland leit dags­ins ljós árið 2020 og síðan þá hef­ur mynd­list­ar­stefna, tón­list­ar­stefna, stefna í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs verið gefn­ar út og hrint í fram­kvæmd. Unnið er að stefnu í mál­efn­um sviðslista og gær samþykkti rík­is­stjórn til­lögu mína um nýja bók­mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Nýrri bók­mennta­stefnu er ætlað að hlúa enn bet­ur að bók­mennta­menn­ingu okk­ar til framtíðar. Í stefn­unni er birt framtíðar­sýn fyr­ir mála­flokk­inn og jafn­framt þrjú meg­in­mark­mið sem aðgerðirn­ar skulu styðja við. Meg­in­mark­miðin snú­ast um fjöl­breytta út­gáfu á ís­lensku til að treysta stöðu ís­lenskr­ar tungu í sam­fé­lag­inu; um auk­inn og bætt­an lest­ur, ekki síst meðal ungra les­enda; og hvatn­ing til bóka­sam­fé­lags­ins um ný­sköp­un sem taki mið af tækniþróun og örum sam­fé­lags­breyt­ing­um.

Aðgerðaáætl­un­in hef­ur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Um­gjörð og stuðning­ur; Börn og ung­menni; Menn­ing­ar­arf­ur, rann­sókn­ir og miðlun; og Ný­sköp­un og sjálf­bærni. Aðgerðirn­ar leggja ekki síst áherslu á börn og ung­menni ann­ars veg­ar og ís­lenska tungu hins veg­ar en víða er komið við.

Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætl­un­inni snýst um end­ur­skoðun á því reglu­verki og þeirri um­gjörð sem hið op­in­bera hef­ur komið upp í tengsl­um við bók­mennt­ir og ís­lenskt mál. Þar eru und­ir lög um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls, lög um bók­mennt­ir, lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku, bóka­safna­lög o.fl. Í þeirri end­ur­skoðun er brýnt að hugað verði að breyttu lands­lagi tungu og bóka vegna til­komu gervi­greind­ar, mál­tækni, streym­isveitna og annarr­ar tækni sem er í hraðri þróun þessi miss­er­in.

Bók­mennta­stefn­an er gerð í mik­illi sam­vinnu við hags­munaaðila sem lögðu til grund­völl­inn í stefn­unni og aðgerðunum. Það er viðeig­andi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bók­mennta­stefnu sem mun leggja grunn­inn að enn metnaðarfyllra menn­ing­ar­lífi hér á landi. Ég óska öll­um gleðilegra páska.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.