Í vikunni mælti ég á Alþingi fyrir metnaðarfullri bókmenntastefnu til ársins 2030. Með henni viljum við efla íslenska ritmenningu og tryggja að íslensk tunga dafni til framtíðar. Stefnan leggur áherslu á margvísleg atriði, en í kjarnanum er það að tryggja fjölbreytta og kraftmikla útgáfu bóka á íslensku og auka lestur á öllum aldri, en með sérstakri áherslu á yngri kynslóðir. En hvað gerir útgáfa bóka á íslensku svo mikilvæga? Hvers vegna þarf þjóðfélagið að fjárfesta í henni?
Íslenskar bókmenntir eru grundvöllur menningar okkar. Þær varðveita sögu, þjóðsögur og hefðir og endurspegla þróun samfélagsins í gegnum tíðina. Bækur eru lykill að því að skilja menningu okkar, hugmyndafræði og sjónarmið. Aðeins með því að skapa og varðveita íslenskar bókmenntir getum við tryggt að framtíðar kynslóðir fái að kynnast ríkri menningararfleifð okkar, skilja rætur sínar betur og viðhalda tungumálinu.
Það er ekkert launungarmál að tungumálið okkar stendur frammi fyrir áskorunum af völdum snjalltækja og stóraukins aðgangs að ensku snemma á máltökuskeiði. Við sjáum til að mynda að í nýlegri könnunum hefur áhugi barna á lestri stórlega minnkað frá árinu 2000. Þetta eru slæmar fréttir sem þarf að bregðast við með fjölbreyttum ætti. Margt hefur áunnist á undanförnum árum en það eru ýmis tækifæri til þess að gera betur í þessum efnum. Í bókmenntastefnunni er lögð sérstök áhersla á börn og ungmenni. Má þar til dæmis nefna að starfsumhverfi höfunda barna- og ungmennabóka verði styrkt sérstaklega og viðbótarfjármagni verði tímabundið veitt til Barnamenningarsjóðs til að styrkja verkefni sem byggjast á og stuðla að aukinni miðlun á íslenskum sagnaarfi til barna og ungmenna ásamt því að kannaðir verði möguleikar á því að styðja sérstaklega við þýðingar á erlendum bókmenntum eða sambærilegu efni sem höfðar til barna og ungmenna á íslensku. Þá er einnig lagt til að stuðlað verði að aukinni kynningu og sýnileika á hlutverki og störfum rithöfunda, myndhöfunda og þýðenda, meðal annars í starfi grunnskóla og framhaldsskóla, vegna mikilvægis þeirra fyrir íslenska tungu og sköpunarkraft komandi kynslóða.
Með því að gefa út fjölbreyttar bækur á íslensku fyrir börn og fullorðna aukum við notkun og skilning á tungumálinu. Um aldir höfum við skrifað söguna á íslensku og því ætlum við að halda áfram um ókomna tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2024.