Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

21/06/2023

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Í lok síðustu viku var fundum Alþingis frestað til 12. september. Þó svo við þingmenn séum komnir í frí frá þingfundum er ekki þar með sagt að við séum komin í sumarfrí. Nú nýtum við tækifærið til að heyra í ykkur, funda með fólki í kjördæmunum okkar og undirbúa næsta þingvetur. Hér má nálgast minnisblað með yfirliti yfir þingmál þingmanna Framsóknar  síðastliðinn þingvetur. Þar kennir ýmissa grasa sem endurspeglar fjölbreytni þingflokksins.

Verðbólgan er og verður eitt umfangsmesta verkefni stjórnvalda komandi mánaða. Ríkisstjórnin kynnti fyrir hálfum mánuði aðgerðir til að vinna gegn hárri verðbólgu og frekari hækkun vaxta, hægt er að nálgast þær upplýsingar inn á vef stjórnarráðsins. Áður hafði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 komið fram og verið skýr varðandi fjármálastefnuna, um umsvif og rekstur hins opinbera og markmið hagstjórnarinnar. Var farið vel yfir það í síðasta bréfi.

Þá kynnti formaður okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson, á fundi hjá HMS í gær lið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu. Hér er um að ræða áætlun um stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni. Stefnt að því að byggja 2.800 íbúðir fyrir þennan hóp á árunum 2023-2025 í stað 1.250 íbúða sem áður var áætlað. Þar af verða 800 byggðar þegar á þessu ári. Með þessum aðgerðum sem nú hafa verið kynntar er verið að tvöfalda framlög til stofnlána til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Þá hefur reglugerð um hlutdeildarlán verið breytt með það að markmiði að auðvelda fólki að kaupa íbúðir. Hér er um að ræða lán sem eru aðeins í boði fyrir fyrstu kaupendur og þá sem hafa ekki átt íbúð undanfarið fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.

Til þess að við getum ná markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu þurfum við að sýna ábyrgð og stíga skref sem styðja við aðgerðir Seðlabankans. Á sama tíma og við ætlum okkur að sporna gegn þenslu höfum við það ávallt að leiðarljósi að verja sérstaklega viðkvæma hópa fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Í lok hvers þingvetrar er haldinn eldhúsdagur

Ræðumenn Framsóknar á eldhúsdegi Alþingis voru undirrituð og Jóhann Friðrik Friðriksson. Í ræðu minni kom ég inn á mikilvægi þess að bæta réttarkerfið og samfélagið þolendum ofbeldis til hagsbóta. Við eigum að skapa öruggan grundvöll fyrir þolendur ofbeldis til að koma reynslu sinni á framfæri og vinna úr henni, stytta málsmeðferðartíma enn frekar. Í máli mínu fór ég einnig inn á þau áhrif sem slaufun getur haft á einstaklinga, þó svo að fólk tengi slaufun við þekkta einstaklinga er hún því miður í öllum lögum samfélagsins. Getur beinst gegn þolanda, meintum geranda auk þess sem hún er farin að sýna sig hjá börnunum okkar og ungmennum sem fylgja fordæmi sinna fyrirmynda og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu – eða stafrænu ofbeldi hvort gegn öðru.  Hlutverk samfélagsins hlýtur að vera að finna raunverulegar leiðir til að útrýma ofbeldi og skapa öryggi. Þar til við höfum náð því markmiði viljum við finna jafnvægi þar sem skilningur, ábyrgð og skýrar leiðir til betrunar og sátta eru leiðandi sjónarmið fyrir alla aðila.  Eitt skref í þá átt er fundurinn sem haldinn verður í haust, þar sem við hefjum samtalið, vinnum þvert á ráðuneyti í samvinnu við alla þá aðila sem hlut eiga að máli. 

Jóhann Friðrik fór vel yfir gildi Framsóknar, þar sem við leggjum áherslu á landið allt og höfum í heiðri gildi félagshyggju, samvinnu og lýðræðis. Við fjárfestum í fólki, frá velferð barnanna okkar og yfir í að það sé gott að eldast hér á landi. Allt þar á milli eru áskoranir varðandi fjórðu iðnbyltinguna, hagkerfið og verðbólgu. En að við minnum okkur á að það sé gott að búa á Íslandi.

Þá vil ég nýta hér tækifærið og þakka ykkur sem sáuð ykkur fært um að mæta á vorfund miðstjórnar. Það var ánægjulegt að hitta svo mikið af góðu Framsóknarfólki og má eflaust fullyrða að fáir flokkar standa að svo öflugu baklandi eins og við í Framsókn. Formaðurinn okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson, fór  þar yfir aðgerðir í húsnæðismálum sem er eitt af stóru og mikilvægu verkefnum okkar ásamt því að ná niður verðbólgunni.  Einnig taldi hann upp þau mikilvægu mál sem náðu fram að ganga hjá okkar ráðherrum á líðandi þingvetri og starfið fram undan.  Skráning í málefnastarf Framsóknar var kynnt á fundinum og hefur verið opnað fyrir skráningu allra sem skráð eru í Framsókn. Vil ég hvetja ykkur til þátttöku í málefnastarfinu – með því að smella hér má nálgast skráningarformið og val um málefnaflokka.

Fundurinn var í styttri kantinum eins og vorfundir eru gjarnan en engu að síðu mikilvægur. Því eins og formaðurinn sagði, þá á jú einnig að vera gaman að starfa í kringum pólitík. Fólkið í flokknum er það sem gerir starfið skemmtilegt sem sýndi sig með góðu spjalli og skemmtun fram á kvöld.

Í lokin vil ég nefna ákvörðun matvælaráðherra um tímabundna stöðvun veiða á langreyðum eða fram til 31. ágúst. Ákvörðunin kemur á óvart enda skammur fyrirvari þar til áætlaðar veiðar áttu að hefjast. Ykkur til upplýsinga er þingflokkurinn í þéttu samtali varðandi málið, sömuleiðis er formaður atvinnuveganefndar Alþingis Stefán Vagn Stefánsson að undirbúa opinn fund með ráðherra vegna þessa.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa haft samband við þingflokkinn í vetur, mætt á fundi og tekið þátt í starfi flokksins með einum eða öðrum hætti. Það er ómetanlegt fyrir okkur að fá upplýsingar, hvatningu og eins rýni til gagns.

Ég óska ykkur öllum góðra stunda og vona að þið njótið sumarsins með öllu því sem því fylgir með von um að þessi gula láti sjá sig sem oftast og lengst.

Framtíðin er björt með Framsókn!
Með kveðju frá Akureyri,
Ingibjörg Isaksen