Categories
Fréttir Greinar

Björg í þjóðarbú

Deila grein

21/06/2023

Björg í þjóðarbú

Það mun­ar um ferðaþjón­ust­una. Hlut­ur ferðaþjón­ustu í lands­fram­leiðslu árs­ins 2022 nem­ur 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna og er áætlað að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu í fyrra. Það gef­ur auga­leið að fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa öfl­ug­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una. Eft­ir mik­inn sam­drátt er ferðaþjón­ust­an aft­ur orðin sú at­vinnu­grein sem skap­ar mest­an er­lend­an gjald­eyri fyr­ir þjóðarbúið. Síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina að stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins.

Ferðaþjón­ust­an er ein ár­ang­urs­rík­asta byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar – sjálfsprott­in at­vinnu­upp­bygg­ing um allt land. Á ár­un­um 2009-2019 skapaði ferðaþjón­usta að jafnaði 500 ný störf á ári á lands­byggðinni. Það er gríðarlega mik­il­vægt að þessi þróun tap­ist ekki. Ferðaþjón­ust­an hef­ur einnig átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat og gefið Íslend­ing­um tæki­færi til að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tek­in. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylg­ir ferðaþjón­ust­unni hef­ur einnig aukið skiln­ing lands­manna á eig­in landi – og varpað ljósi á hversu sér­stakt það er fyr­ir margra hluta sak­ir. Það er ánægju­legt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim nátt­úru okk­ar, sögu og menn­ingu. Það er mik­il­vægt að ferðaþjón­ust­an fái svig­rúm og tæki­færi til að vaxa enn frek­ar en mark­miðið er sjálf­bær upp­bygg­ing ferðaþjón­ustu til lengri tíma í sátt við nátt­úr­una og menn, sem áfram­hald­andi lyk­il­stoð í okk­ar efna­hags­lífi. Sam­hliða end­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur fyr­ir­komu­lag gjald­töku í grein­inni verið skoðað með það að mark­miði breikka skatt­stofn­inn og tryggja jafn­ræði aðila á markaði, meðal ann­ars fyr­ir­komu­lag gistinátta­gjalds í sam­vinnu við ferðaþjón­ust­una og sveit­ar­fé­lög­in með það að mark­miði að sveit­ar­fé­lög­in njóti góðs af gjald­tök­unni.

Ýmsir í sam­fé­lag­inu hafa talið að allt það sem ferðaþjón­ust­an legg­ur til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar sé ekki um­tals­vert og líta svo á að vas­ar at­vinnu­grein­ar­inn­ar séu óþrjót­andi. Þeir hinir sömu eru jafn­vel til­bún­ir að stíga skref sem ógna sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar og átta sig ekki á hinni þjóðhags­legu heild­ar­mynd. Það er úti­lokað í mín­um huga að samþykkja til­lög­ur um aukna gjald­heimtu eins og OECD legg­ur til í nýrri skýrslu, séu þær þess eðlis að þær stefni í hættu sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2023.