Categories
Fréttir

Breytingar á losunarheimildunum í flugi – harkalegar fyrir Ísland

Deila grein

23/03/2023

Breytingar á losunarheimildunum í flugi – harkalegar fyrir Ísland

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar og formaður þingmannanefndar EFTA og EES, sótti fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES í Strassborg á dögunum. Þingmannanefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins og um áskoranir í starfi sínu.

Á fundinum lagði Ingibjörg sérstaka áherslu á áhyggjur Íslendinga af einni grundvallaráskorun sem varðar viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi. Sagði hún Ísland ætla að sjálfsögðu að taka fullan þátt í Parísarloftslagsmarkmiðunum og að Ísland hafi sett metnaðarfull markmið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og styðji markmið „Fit for 55 pakkans“. En að Íslendingar hafi verulegar áhyggjur af því hversu harðar fyrirhugaðar breytingar á beitingu ETS-kerfisins yrðu fyrir flugið í landinu.

Endurskoðun ETS-kerfisins mun leiða til alvarlegrar röskunar á jöfnum samkeppnisskilyrða flugfélaga sem nota Ísland til millilendinga á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Tilgangur endurskoðunarinnar er skiljanlegur, enda ætlað að flýta fyrir grænum umskiptum í fluggeiranum og ýta neytendum yfir í aðra umhverfisvænni ferðamáta fyrir skemmri leiðir innan ESB.

„Við Íslendingar erum hins vegar ekki með lestarsamgöngur eða aðra sambærilega ferðamáta og landið því háð flugferðum til og frá Evrópu þar sem það er eina raunhæfa leiðin til að ferðast til og frá landinu,“ sagði Ingibjörg,

„Við munum því ekki styðja að fella viðeigandi reglugerð inn í EES-samninginn án aðlögunar, vegna okkar landfræðilegu aðstæðna. Ég vil leggja áherslu á að á meðan Ísland styður fullkomlega markmið „Græna samningsins“ munu áhrifin bitna harðar á Íslandi en öðrum þar til raunhæfar grænar lausnir verða að veruleika. Ísland mun þurfa aðlögun þar til það gerist,“ sagði Ingibjörg.

Stríðið í Úkraínu

Að lokinni umfjöllun um EES málin var stríðið í Úkraínu næst til umræðu líkt og hefur verið í brennidepli í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á síðasta ári.

„Fyrir rúmu ári hefði það verið óhugsandi fyrir flest okkar að við værum hér í dag og ræddum áframhaldandi stríð í Úkraínu. Ár er liðið frá því að Rússar hófu mestu átök á meginlandi Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. Á þessum tíma hafa íbúar Úkraínu sýnt aðdáunarvert hugrekki og seiglu í baráttunni fyrir sameiginlegum gildum okkar á sama tíma og þola daglegar skelfingar stríðsins,“ sagði Ingibjörg og hélt áfram, „það er aðeins Rússland sem getur og verður að stöðva stríðið. Og það er skylda okkar að styðja Úkraínu, eins lengi og það tekur,“ sagði Ingibjörg.

Ísland hefur tekið á móti yfir tvö þúsund og fimm hundruð úkraínskum flóttamönnum frá stríðsbyrjun, sem er töluvert miðað við íbúafjölda 375.000. Á síðasta ári var fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu áætlaður um 2,2 milljarðar króna (u.þ.b. 14,5 milljónir evra). Áætlað er að fjárstuðningur í ár fari umfram það.

Orkumál í Evrópu

Að lokinni umfjöllun um Úkraínu voru orkumál í Evrópu á dagskrá fundarins, þau munu enda verða ítrekað til umfjöllunar á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES líkt og á síðasta ári. Stríðið í Úkraínu hefur haft gríðarlega mikil áhrif á orkuframboð, orkuverð og orkuöryggi í Evrópu.

„Það er mikilvægt að styðja  við skapandi lausnir nýsköpunariðnaðarins til að draga úr losun. Frábært dæmi er Carbfix verkefnið sem er langvarandi umhverfislausn sem fjarlægir koltvísýring (CO2) úr loftinu og breytir því í stein á innan við tveimur árum. Á síðasta ári fékk Carbfix um 110 milljónir evra styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu til að reisa koltvísýringsgeymslustöð á Íslandi, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Áætlað er að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og fullum afköstum verður náð árið 2031, þegar allt að 3 milljónir tonna af CO2 verða geymd árlega með því að jarðefna það varanlega neðanjarðar,“ sagði Ingibjörg.

„Carbfix verkefnið er fullkomið dæmi um hvernig EES-samningurinn gagnast bæði EES-EFTA aðildarríkjunum og ESB. Ég vil að lokum ítreka skuldbindingu Íslands til að vinna við hlið ESB til að tryggja sjálfbæra og örugga orkuframtíð,“ sagði Ingibjörg.