Categories
Fréttir

„Þegar tæknin skilur íslensku“

Deila grein

22/03/2023

„Þegar tæknin skilur íslensku“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins mikilvægi þess að íslenskan sé fyrst alla tungumála fyrir utan ensku, í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4.

„Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu,“ sagði Líneik Anna.

„Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál, “ sagði Líneik Anna.

„Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku,“ sagði Líneik Anna að lokum.

***

Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég má til með að ræða hér um mikilvægi þess að íslenska hafi verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu.

Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og alþjóðlega er íslenska því ákveðinn brautryðjandi. Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál.

Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. (Forseti hringir.) Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku.“