„Á Íslandi hefur lengi verið rekin sjálfvirk byggðastefna sem felur í sér nýtingu skattfjár á einum stað til uppbyggingar fyrir náð og miskunn, kjördæmapot, skattaívilnanir eða kjarkaðan ráðherra sem hefur fært opinber störf frá höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að uppbygging hins opinbera á höfuðborgarsvæðinu er talin sjálfsögð og skynsamleg en ölmusa annars staðar,“ sagði Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Hvenær látum við okkur málið varða þannig að sú alvarlega byggðaröskun sem hefur átt sér stað vítt og breitt á landsbyggðinni stöðvist og landið haldist allt í byggð? Bíldudalur, Þingeyri, Árneshreppur, Hrísey, Grímsey, Öxarfjörður, Raufarhöfn, Bakkafjörður, Borgarfjörður eystri, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Hvaða svæði, þorp, bær eða byggð fer næst á lista?,“ sagði Hjálmar Bogi.
Með leyfi forseta:
Byggðastefna lyftir landi,
ef vandlega er farið með hana.
Hún er eins og heilagur andi,
það hefur enginn séð hana.
„Þannig orti eitt sinn góður og genginn Framsóknarmaður að nafni Þormóður Jónsson.“
„Þau svæði sem mynda fjarlæga skeifu utan um höfuðborgarsvæðið eru jafnvel svæði sem við þjónustum ekki nema að litlu leyti með stoðstofnunum ríkisins. Á meðan er sveitarfélögum ætlað að leysa vandann sem allir vita að hafa hvorki bolmagn, fjármagn né lausnir til að bregðast við svo vel sé. Fólk eltir nefnilega skattpeningana sína, menningu og þjónustu — og hvar er skattfé helst varið? Viðfangsefnið verður hvorki leyst með skjótvirkum hætti né verður hægt að beita almennum úrræðum til að leysa þetta sértæka verkefni. En það er grundvallaratriði að íbúar þessa lands búi allir við sem jöfnust kjör og þjónustu sem hið opinbera veitir, óháð búsetu.
Ég spyr því: Brothættar byggðir — og hvað svo?“