Categories
Fréttir

Drög að ályktunum 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018

Deila grein

05/03/2018

Drög að ályktunum 35. Flokksþings Framsóknarmanna 2018

Stjórnmálaályktun – Flokksþing 2018 – drög
Framsóknarflokkurinn fagnar sterkri stöðu efnahagsmála á Íslandi. Staðan endurspeglast í fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu innviða íslensks samfélags. Það verður stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu misserum.  Í öðrum ályktunum flokksþingsins koma fram ítarlegri áherslur í einstökum málum sem forystu flokksins er falið að fylgja eftir í ríkisstjórn og á Alþingi.
Samhliða verður að gæta að því að skilyrði séu til áframhaldandi verðmætasköpunar atvinnulífsins og þar með bættra lífskjara landsmanna.  Eitt af forgangsverkefnum í efnahagsmálum verður endurskipulagning fjármálakerfisins. Þar þarf að móta skýra samfélagslega framtiðarsýn. Í því felst meðal annars að leita þarf leiða til að auka samkeppni á viðskiptabankamarkaði, á sama tíma og að dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur bera af starfsemi fjármálafyrirtækja.
Uppbygging sterkra innviða er grundvöllur þess að hægt sé að tryggja jafnrétti til búsetu um allt land, þar sem allir hafa hafi sama aðgang að grunnþjónustu, svo sem  heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngum og fjarskiptum.
Tryggja þarf sterka stöðu sveitarfélaganna í landinu, þar sem stutt er við tekjuöflun þeirra og samvinna sé höfð um frekari flutning verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Skoða þarf frekari flutning stofnana frá höfuðborgarsvæðinu út á land með það að markmiði að auka fjölbreytileika atvinnutækifæra í dreifðari byggðum.
Halda þarf áfram að bregðast við húsnæðisskorti í landinu, tryggja uppbyggingu um allt land og jafnt aðgengi ungs fólks að húsnæði. Þá þarf að leggja áherslu á að eldri borgarar hafi öruggt húsnæði ef þeir ákveða að minnka við sig.
Góðar samgöngur eru undirstaða í uppbyggingu brothættra byggða um allt land og liður í því að tryggja jafnrétti til búsetu og atvinnusköpunar. Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu á samgöngumannvirkjum landsins og gera innanlandsflug að raunhæfum ferðamáta. Þá er öruggt flutnings- og dreifikerfi raforku undirstaða þess að fjölbreytt atvinnulíf geti þróast um allt land. Ljúka þarf uppbyggingu ljósleiðarakerfis í landinu til að tryggja jafnan aðgang íbúa að öflugum fjarskiptum.
Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og mikilvægt er að gripið verði inn í grafalvarlega stöðu í íslenska skólakerfinu vegna kennaraskorts í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Stuðla þarf að aukinni viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Efla þarf nám í verk- og tæknigreinum til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar og búa íslenskt samfélag undir fjórðu iðnbyltinguna. Háskólanemar og ungt fólk í framhaldsnámi þurfa að geta stundað nám án þess að hafa áhyggjur af framfærslu, en það þarf meðal annars að byggja á endurskoðun námslánakerfis LÍN og leiðréttingar á frítekjumarki.
Ferðaþjónustan fer ört stækkandi og mikilvægt er ná  sátt um langtímastefnu í greininni í samvinnu við helstu hagsmunaaðila. Þar þarf til dæmis að líta til þess að dreifa ferðamönnum um landið allt en alltaf með sjálfbærni að leiðarljósi. Finna þarf farsælan farveg fyrir skattheimtu á ferðamenn til þess að standa undir kostnaði við rekstur fjölsóttra ferðamannastaða um landið.
Sjávarútvegur og landbúnaður eru grunnatvinnuvegir landsins og traustar stoðir í byggðum þess.  Greinarnar þurfa ávallt að búa við sanngjörn starfsskilyrði. Tryggja þarf samkeppnishæfni þeirra og leggja áherslu á að styðja við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun. Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess að nýta betur innlend aðföng eftir því sem hægt er.
Stigin hafa verið mörg góð skerf í umhverfismálum á síðustu misserum. Mjög stór verkefni eru framundan í loftslagsmálum til að Ísland nái markmiðum sínum um samdrátt í losun fyrir 2030 og markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust land fyrir árið 2040. Því verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild og með því að nýta öll þau verkfæri sem eru í boði þar með talið bætta orkunýtingu, orkuskipti, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Halda þarf áfram vinnu við skilgreiningu íslenskra náttúruauðlinda til að hægt sé að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra og leggja metnað í að draga úr sóun í íslensku samfélagi. Stíga ætti skref í átt að banni á plastnotkun, minni matarsóun og frekari endurvinnslu úrgangs.

* * *

Áherslur í menntamálum – Flokksþing 2018 – drög.
Framsókn vill að staðinn verði vörður um íslenskuna
Áfram verði unnið að því að bæta læsi í gegnum fjölbreytt verkefni einstakra skóla  og sveitarfélaga, með baklandi í læsisverkefni Menntamálastofnunar. Jafnframt verði unnið að umbótum á sviðum sem styðja við læsi s.s. útgáfu námsgagna, eflingu skólabókasafna, gegnum bókmenningarstefnu og stefnumörkun um aðgang að íslensku hljóð- og myndefni. Sem lið í að efla aðgengi að bókum til lestrar og náms vill Framsóknarflokkurinn afnema virðisaukasatt af bókum. Fjárfest verði í íslenskri máltækni með það að markmiði að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu. Þá verði aukinn kraftur settur í markvissar aðgerðir til stuðnings kennslu í íslensku sem öðru tungumáli, fyrir nemendur á öllum aldri. Komið verði á fót umbótateymi sem hafi faglega forystu í verkefninu.
Framsókn vill tryggja framboð á gæðanámsefni á íslensku
Nemendum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi verði tryggt gæða námsefni á íslensku, á því formi sem hentar hverju sinni og jafnt fyrir nemendur sem eiga íslensku að móðurmáli eða sem annað eða þriðja mál. Námsgagnasjóður grunnskóla og Þróunarsjóður námsgagna verði efldir verulega og Menntamálastofnun efld og falið stærra hlutverk á sviði þróunar, útgáfu og gæðaeftirlits með námsgögnum.
Framsókn vill auka virðingu fyrir kennarastarfinu og fjölga menntuðum kennurum
Hæfir og góðir kennarar eru forsenda þess að nemendur njóti sín og nái árangri sem leggur grunn að framtíð þeirra. Bæta þarf starfsaðstæður kennara, auka stoðþjónustu við þá og gera þeim og skólakerfinu betur kleift að sinna fjölbreyttum hópi nemenda. Hækka þarf laun kennara til að laða að hæfa nemendur í kennaranám og laða að kennara sem starfa utan skólanna. Þjóðarátaks er þörf til að auka virðingu fyrir kennurum og kennarastarfinu. Auka þarf tengsl kennaranáms við starfsvettvang og koma á launuðu starfnámi á 4 ári kennaranámsins. Samhliða þarf að auka fjárhagslega hvata til  kennaranema í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Framsókn vill styrkja samfélagslega umgjörð skólastarfs
Heildstæð geðheilbrigðisþjónusta og heildstæð velferðarþjónusta fyrir börn og ungmenni þarf að vera hluti af þjónustu heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga. Þannig verður hægt að veita þjónustuna óháð starfstíma skóla og óháð því hvort ungmenni sækir skóla. Efla þarf náms- og starfsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og alla stoðþjónustu við nemendur. Koma þarf á samtali aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnuvikunnar til að aðstoða foreldra við að samþætta betur starfsskyldur og fjölskyldulíf.
Framsókn vill tryggja að leikskólapláss eða sambærileg vistun standi foreldrum til boða að loknu fæðingarorlofi
Lengja þarf fæðingarorlof hvors foreldris fyrir sig í fimm mánuði en til viðbótar verði sameiginlegur fæðingarorlofsréttur foreldra tveir mánuðir. Koma þarf á samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að tryggja börnum dagvistunarúrræði að fæðingarorlofi loknu, frá 12 mánaða aldri. Horfa skal þar sérstaklega til leikskólans sem er fyrsta skólastigið í skólakerfinu.
Framsókn vill gera góða leikskóla enn betri
Bæta skal starfsumhverfi barna, kennara og starfsfólks í leikskólum. Mikill skortur er á menntuðum leikskólakennurum til að lög um menntun og ráðningu leikskólakennara séu uppfyllt a. Meta þarf kosti og galla þess að endurskilgreina leikskólann í námstíma annars vegar og daggæslu hins vegar þar sem leikskólahlutinn yrði gjaldfrjáls en greitt yrði fyrir daggæslu. Færa þarf starfsumhverfi leikskólakennara og annara starfsmanna leikskólans nær því sem þekkist á öðrum skólastigum til að auka nýliðun í stéttinni. Leita þarf leiða til að draga úr álagi á börn og starfsfólk leikskóla, t.d. með því að fækka börnum í hverju rými.
Framsókn vill treysta stoðir grunnskólans
Markmiðið grunnskólans er að byggja upp góða grunnþekkingu og námsáhuga á mörgum sviðum. Styðja þarf við þróun fjölbreyttra kennsluhátta og einstaklingsmiðað nám. Ráðgjöf til foreldra og skóla verði aukin. Greining á vanda leiði til ráðleggingar til nemanda, foreldra og kennara um hvernig nemandinn getur náð árangri á eigin forsendum. Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla æfi. Ekki má slá af kröfum um líðan og samskiptafærni og að hver einstaklingurinn fái að blómstra á eigin forsendum og njóta hæfileika sinna.
Framsókn vill byggja upp og þróa framhaldsskólann í takt við áskoranir framtíðarinnar og að hærra hlutfall hvers árgangs innritist í starfs- og verknám
Sett verði markmið um að hærra hlutfall (20% árið 2022) hvers árgangs innritist í starfs- og verknám að loknum grunnskóla og útskrifist innan viðmiðunartíma. Skipaður verði forystuhópur til að tryggja heildarsýn og vinna að samhæfingu þeirra breytinga sem framundan eru á iðnnáminu. Hópurinn vinni á grunni þróunarverkefna síðustu ára, haldi heildarsýn yfir áframhaldandi þróun og sýni forystu og frumkvæði að breytingum eftir því sem við á. Framhaldsskólarnir eru að ganga í gegnum miklar breytingar vegna styttingar náms á framhaldsskólastigi og þá er mikilvægt að þeir fái næði og svigrúm til að takast á við áskoranirnar sem því fylgja og tækifæri til áframhaldandi þróunar. Það fjármagn sem sparast með styttingunni til stúdentsprófs haldist innan framhaldsskólanna til þróunar og aukinna gæða starfsins.
Framsókn vill fjárfesta í menntun, nýsköpun og rannsóknum
Auka skal gæði náms og starfs í íslenskum háskólum og vísindastofnunum. Samhliða verði framlög til háskóla hækkuð svo þau nái meðaltali OECD þjóða 2020 og Norðurlanda 2024. Fjárfesting í menntun, nýsköpun og rannsóknum er fjárfesting til framtíðar. Mótuð verði stefna um námsframboð og stuðning við fjarnám á háskólastigi sem styðji við atvinnustefnu landsins. Þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni verði efld.
Framsókn vill að jöfnunarhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði styrkt
Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um jafnan rétt fólks til menntunar, óháð búsetu og efnahag. LÍN gegnir þar lykilhlutverki. Hækka þarf frítekjumark og endurskoða reglulega raunverulegan framfærslukostnað svo lánasjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu sem jöfnunarsjóðs. Vísbendingar eru um að nemendur hverfi frá námi vegna framfærslukostnaðar og hefur erfitt ástand á húsnæðis- og leigumarkaði þar einnig áhrif. Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð, með það að markmiði að koma á styrkja- og hvatakerfi. Hvatar verði nýttir til að fjölga námsmönnum í greinum þar sem skortur er á fagmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði eins og í leikskóla- og kennarafræði, sem og til að styðja jákvæða byggðaþróun.
Framsókn vill samþætta frístundastarf, tónlistarkennslu og íþróttir inn í daglegt starf grunnskóla
Mikið álag getur verið á fjölskyldum og vinnudagur margra barna langur. Með samþættingu gæðastarfs á vegum íþróttafélaga, tónlistarskóla og æskulýðsfélaga við starf grunnskóla má styðja betur við fjölskyldur og börn. Möguleikar til að læra á hljóðfæri eða stunda íþróttir fari ekki eftir fjárhag heimila heldur eigi að gera öllum börnum kleift að rækta líkama og sál í gegnum skipulagt frístundastarf. Stjórnvöld, í samráði við sveitarfélögin í landinu, móti og innleiði sérstaka æskulýðsstefnu.
Framsókn vekur jafnframt athygli á ítarlegi skýrslu starfshóps flokksins um framtíðarsýn í menntamálum sem birt hefur verið opinberlega.

* * *

Ályktun um samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnamál – flokksþing 2018 – Drög
Samgöngumál

 • Stórauka þarf framlög til viðhalds og nýbyggingar vega.
 • Framsóknarflokkurinn hafnar norsku tvísköttunarleiðinni í vegamálum.
 • Áhersla á orkuskipti í samgöngum með skattalegum hvötum.
 • Samgönguáætlun verði tvískipt með áherslu á umferðaröryggi.
 • Almenningssamgöngur efldar og hugsaðar upp á nýtt.
 • Reykjavíkurflugvöllur verði áfram og að óbreyttu miðstöð innanlands- og sjúkraflugs.
 • Flugöryggi og aukin flugumferð kallar á nýjan alþjóðaflugföll.
 • Net- og upplýsingaöryggi verði tekið föstum tökum.

Eftir viðhaldsleysi vegakerfisins undanfarinn áratug og stóraukna umferð allra síðustu árin er brýn nauðsyn, ef ekki á illa að fara, að stórauka framlög til viðhalds og betrumbóta á þjóðvegakerfi landsmanna.
Móta þarf framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins. Það er stefna Framsóknarflokksins að tekjur af olíu- og bensíngjöldum, auk bifreiðagjalda og vörugjalda innflutnings ökutækja renni til reksturs, viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi landsmanna. Jákvæð þróun bílaflota landsins í umhverfisvænni átt hefur og mun í sífellt meira mæli leiða til þess að þessi gjöld muni lækka.
Útfæra þarf nýjar tekjuleiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu. Eldsneytisskattar myndi áfram tekjugrunn samgangna á landi og/eða þá að aksturstengd gjöld leysi þá af hólmi. Framsóknarflokkurinn hafnar tollhliðum.
Skattalegum hvötum, m.a. kolefnisgjöldum verði beitt sem stjórntæki til að hvetja til að ökutæki séu knúin vistvænum og innlendum orkugjöfum.
Framsóknarflokkurinn vill að samgönguáætlun verði hugsuð upp á nýtt og í stað einnar heildarsamgönguáætlunar afgreiði Alþingi tvær áætlanir. Sú fyrri er til skemmri tíma og taki einkum mið af umferðaröryggi og greiningu Vegagerðarinnar á viðurkenndum aðferðum á helstu slysa- og hættustöðum í vegakerfinu. Hinn hluti samgönguáætlunar er til lengri tíma og miðast við uppbyggingu vegakerfis, tengingar byggðarlaga, styttingar leiða, jarðgöng sem og flugvalla- og hafnaáætlun.
Sveitarfélögin hafa mörg hver haldið úti almenningssamgöngum af myndarskap og við þröngan kost. Almenningssamgöngur verði hugsaðar og útfærðar heilstætt upp á nýtt með aðkomu stjórnvalda.  Markmiðið er að fjölga kostum bæði í þéttbýli, dreifbýli og á milli landshluta þar sem beita á nýrri tækni og umhverfishugsun til að gera þær ódýrari og aðgengilegri fyrir landsmenn. Framsóknarflokkurinn telur að innanlandsflug sé hluti af almenningssamgöngum.
Reykjavíkurflugvöllur er óumdeilanlega miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Á meðan ekki kemur fram raunhæfur og jafnhentugur kostur í stað Reykjavíkurflugvallar er brýnt að ráðast sem fyrst í að lagfæra afgreiðslu og móttöku farþega.
Reynslan sýnir að óbreyttur Keflavíkurflugvöllur veitir ekki nægjanlegt flugöryggi og nothæfi vallarins er skert í óveðri. Með stóraukinni flugumferð á síðustu árum og áfram til framtíðar er  mikilvægt að hugað verði að öðrum fullbúnum alþjóðaflugvelli sem jafnframt verði varavöllur Keflavíkurflugvallar.
Net- og upplýsingaöryggi þarf að taka alvarlega og föstum tökum.  Framsóknarflokkurinn vill hraða stefnumótun stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi, með áherslu á netöryggi, að trygga auðkenningu og nafnleynd.
Tryggja þarf aðgengi að einni hljóðvarpsrás í öllum byggðum landsins og meðfram helstu stofnvegum.
Byggðamál

 • Ívilnanir í nýsköpun atvinnuuppbyggingar um land allt.
 • Sjúkraflutningar og heilbrigðisþjónusta verði ekki skert á landsbyggðinni.
 • Skynsamleg nýting auðlinda er leið sem tryggir búsetu um landið.
 • Niðurgreiðslur innanlandsflugs að skoskri fyrirmynd.
 • Afborgarnir felldar niður af námslánum í brothættum byggðum.

Framsóknarflokkurinn er byggðarstefnuflokkur og leggur því áherslu á jafnrétti til búsetu. Framsóknarflokkurinn vill skoða af alvöru ívilnanir fyrir fyrirtæki og einstaklinga til  nýsköpunar og   atvinnuuppbyggingar í landsbyggðunum..
Leitað verði leiða til að jafna búsetuskilyrði með almennri lagasetningu og að viðurkennt verði að hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma litið sé undir því komin að viðhalda dreifðari byggðum.
Skapa þarf hvata til að laða ungt, vel menntað fólk til þess að setjast að á landsbyggðinni, líkt og t.d. Norðmenn hafa gert. Framsókn vill að afborganir séu felldar niður af námslánum í fimm ár fyrir þá sem eru búsettir í brothættum byggðum. Það mun auðvelda fagmenntuðu starfsfólki að setjast þar að, til að sinna grunnþjónustu og sérhæfðri atvinnuuppbyggingu.
Framsóknarflokkurinn telur að sjálfbær þróun sé leiðarstef í allri atvinnuuppbyggingu.  M.a. í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðamennsku og orkuvinnslu. Með skynsamlegri nýtingu auðlinda tryggjum við allt landið í byggð.
Styrkja þarf stoðir frumatvinnuvega landsbyggðarinnar, sjávarútvegs og landbúnaðar. Framsóknarflokkurinn þarf að vera í forystu um að tala fyrir sértækum byggðarúrræðum í þessum málaflokkum.
Innanlandsflug er ekki raunhæfur kostur fyrir fjölskyldur vegna hárra flugfargjalda. Framsóknarflokkurinn vill taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd.
Það er ótækt að horfa upp á skerðingu sjúkraflutninga á smærri stöðum og í dreifðum byggðum. Lakari þjónusta og skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu eykur ójöfnuð og er ólíðandi.
Raforkuöryggi er skert víða um landið. Hraða þarf uppbygginu landsnetsins og tengja byggðir betur við raforkukerfið með hagkvæmum loftlínum eða jarðstrengjum þar sem þeim verður viðkomið.
Ríkið fjárfesti að nýju í byggðarlögum s.s. í hafnarmannvirkjum, húsnæði undir heilbrigðisþjónustu, framhaldsskóla, póstþjónustu og í annarri þjónustu sem ríkið veitir.  Viðhaldi eigna þarf að sinna að meiri metnaði.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu nú sem fyrr á að ný opinber störf verði staðsett um land allt.
Aldrei hefur verið mikilvægara en nú en að höfuðborgarsvæðið og landsbyggðin vinni og standi saman.
Sveitarstjórnarmál

 • Skipulagsvald sveitarfélaga ber að virða.
 • Svigrúm sveitarfélaganna aukið til ákvörðunar gjaldstigs helstu tekjustofna.
 • Hluti komugjalda ferðamann renni til sveitarfélaga.
 • Mikilvægt er að efla lýðræðishugsun og auka áhuga fólks á þátttöku í sveitarstjórnarmálum.
 • Frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga komi frá heimamönnum.

Með öflugum og sjálfstæðum sveitarfélögum er lagður mikilvægur grunnur að valdreifingu og mikilvægt að sveitarfélögin fái enn frekari verkefni og hlutverk í nærþjónustu við íbúa.
Skipulagsvald sveitastjórnar ber að virða. Við gerð langtímasýnar og landskipulags skal ekki gengið frekar á sjálfstæði sveitarfélaga og skipulagsvald þeirra. Einnig þarf að tryggja skipulagsvald sveitarstjórnar á strandsvæðum.
Tekjustofnar sveitarfélaganna þurfa að haldast í hendur við verkefni þeirra.  Auka á svigrúm sveitarfélaga til ákvörðunar á gjaldstigi lögbundinna tekjustofna eins og útsvari og fasteignagjöldum.
Hluti af komugjöldum ferðmanna renni til sveitarfélaga.
Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið og auka áhuga almennings á þátttöku í sveitarstjórnarmálum m.a. með auknu íbúalýðræði. Einnig frekari tilraunir með hverfisráð og  lækkun kosningaraldurs til sveitastjórnar.
Flokksþingið styður framkomnar hugmyndir þess efnis að hjón geti átt sitthvort lögheimilið.  Eins hvetur þingið til þess að skoðað verði að danskri fyrirmynd heimild í lögum til skiptrar búsetu í tveimur sveitarfélögum þar sem þjónustu og tekjum er deilt.
Framsóknarflokkurinn telur að miklu megi áorka með samvinnu sveitarfélaga. Ekki komi til sameiningar sveitarfélaga nema að frumkvæði heimamanna og að undangengnum kosningum.

* * *

Ályktun um velferðarmál – Flokksþing 2018 – drög

 • Standa skal vörð um velferðarkerfið og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðar- og heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.
 • Vinna þarf markvisst eftir settri lýðheilsustefnu af hálfu ríkis og sveitarfélaga.
 • Á Íslandi skulu lífskjör vera þau bestu í heimi samkvæmt alþjóðlegum samanburði.
 • Huga þarf sérstaklega að stöðu þeirra hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu.
 • Einfalda þarf lífeyriskerfið, afnema krónu á móti krónu skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar.
 • Leggja þarf ríka áherslu á velferð barna og bæta andlega og líkamlega heilsu þeirra og líðan.
 • Hefja skal undirbúning að byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað.
 • Mikilvægt er að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði.
 • Leysa þarf húsnæðisvanda ungs fólks og bregðast við skorti á húsnæði
 • Framsóknarflokkurinn fagnar opinni umræðu um kynferðislega áreitni sem því miður hefur fengið að líðast víða í okkar samfélagi í skjóli þöggunar.

Inngangur:
Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um velferðarkerfið og tryggja jafnt aðgengi að öflugri velferðarþjónustu, óháð efnahag. Sú stefna samræmist grunngildum framsóknarstefnunnar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð, þar sem manngildi er ætíð sett ofar auðgildi. Framsóknarmenn fagna því að ráðherra flokksins leiði félags- og jafnréttismál í nýrri ríkisstjórn og að áfram verði velferðarmál sett í forgang m.a. með aukinni áherslu á jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu.
Það er stefna Framsóknarflokksins að á Íslandi séu lífskjör þau bestu í heimi í alþjóðlegum samanburði. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika til framtíðar. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ný ríkisstjórn ætli að setja á fót þverpólitískan hóp um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði hér á landi á fyrri hluta kjörtímabilsins.
Framsóknarflokkurinn telur að huga þurfi sérstaklega að stöðu þeirra hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu. Allir þegnar þjóðfélagsins eiga að njóta jafnræðis og hafa jafnan rétt til þjónustu. Framsóknarflokkurinn stendur vörð um grundvallarmannréttindi.
Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að efla enn frekar samvinnu stofnana sem sinna félags-, heilbrigðis- og skólamálum þar sem sérstaklega er tekið tillit til barna og íbúa af erlendum uppruna. Framsóknarmenn telja að standa þurfi vörð um hagsmuni barna með því að hafa lögbundna þjónustu gjaldfrjálsa. Efnahagsleg staða foreldra á ekki að hafa áhrif á skólagöngu grunnskólabarna. Framsóknarflokkurinn telur því að öll námsgögn á grunnskólastigi eigi að vera gjaldfjáðs.
Tryggja þarf áfram að örorkulífeyrir fylgi lágmarkslaunum. Einfalda þarf lífeyriskerfi öryrkja, afnema krónu á móti krónu skerðingar og hvetja til starfsendurhæfingar. Halda þarf áfram að fjölga leiguheimilum fyrir öryrkja og fatlað fólk í almenna íbúðakerfinu. Draga þarf úr heilbrigðiskostnaði öryrkja með því að lækka enn frekar þakið í greiðsluþátttökukerfinu.
Framsóknarflokkurinn telur að frjáls félagasamtök gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu. Þau beri að efla enn frekar m.a. með skattaafslætti og aukinni samvinnu við stjórnvöld um verkefni á velferðarsviði sem og öðrum sviðum. Tryggja þarf faglega nálgun þeirra og efla eftirlitshlutverk ríkisins með gerðum þjónustusamningum. Framsóknarflokkurinn hvetur til þess að stuðningur eða bætur byggi á stöðu einstaklingsins óháð hjúskaparstöðu og styðji þannig fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.
Heilbrigðismál
Framsóknarflokkurinn vill að innlend heilbrigðisþjónusta verði áfram í fremstu röð. Nýta þarf fjármuni betur og efla þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Auka þarf þjónustu við sjúklinga og lækka kostnaðarþátttöku. Vinna ber að sameiningu greiðsluþátttökukerfis læknisþjónustu og lyfja. Stefna ber að því að tannlækninga-, sálfræði- og ferðakostnaður sjúklinga falli undir greiðsluþátttökukerfið. Fólk á aldrei að þurfa að glíma við fjárhagsörðuleika vegna veikinda sinna, barna eða skyldmenna. Takmarkið er að veikir borgi ekki.
Þá verður að leggja meiri áherslu á menntun starfsmanna framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu, m.a. með auknum framlögum til heilbrigðissviða háskólanna og auknum stuðningi við nemendur sem fara erlendis í nám. Auðvelda þarf menntuðu fólki erlendis frá að fá starfsleyfi hér á landi.
Varað er við hagnaðardrifnum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Tilraunaverkefni um árangurstengdar greiðslur í heilsugæslu er fagnaðarefni sem verður að takast vel. Starfsskilyrði heilbrigðisstarfsmanna á Landspítalanum við Hringbraut eru áhyggjuefni. Nýverið bannaði Vinnueftirlitið vinnu í hluta húsnæðis lungnadeildar vegna rakaskemmda þar sem stofnunin taldi heilbrigði starfsmanna hætta búin.  Við svo búið má ekki standa.
Hefja þarf undirbúning nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað um leið og unnið er að uppbyggingu við Hringbraut.  Horfa þarf til framtíðar og gera ráð fyrir því að nýtt þjóðarsjúkrahús rúmi alla nauðsynlega starfsemi, auk geðdeildar og öll aðstaða þar verði til fyrirmyndar.  Reynslan sýnir að full þörf er á að hefja undirbúning fyrr en seinna.
Réttur allra landsmanna til bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, á hverjum tíma, skal tryggður óháð búsetu. Leiðrétta þarf þá mismunun sem er á þjónustu á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins, til dæmis í geðheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega þarf að taka til endurskoðunar greiðsluþátttöku fólks á landsbyggðinni sem leita þarf sérfræðiþjónustu á milli landshluta. Efla þarf fjarlækningar og þannig nýta færni sérfræðinga til þess að þjónusta landsmenn um allt land. Áhersla er lög á að sjúkrahótel séu starfandi í Reykjavík og á Akureyri fyrir þá sjúklinga og aðstandendur sem þess þurfa.
Efla þarf sérstaklega lýðheilsustarf Landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins s.s. til rannsókna og þróunar og eflingu lýðheilsusjóðs. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir á sviði lýðheilsu með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins. Bregðast þarf tafarlaust við mikilli aukningu lífstílstengdra sjúkdóma, s.s. offitu og sykursýki með virkari forvörnum og aðgerðum.
Vinna þarf markvisst eftir settri lýðheilsustefnu til að mynda með því að innleiða lýðheilsumat þar sem allar stjórnvaldsákvarðanir verði metnar út frá því hvaða áhrif þær hafa á heilsu. Stefna skal að því að öll sveitarfélög verði heilsueflandi samfélög fyrir árið 2025 og allir skólar, leikskólar og framhaldskólar séu þátttakendur í heilsueflandi verkefnum. Mikilvægt er að efla heilsueflandi vinnustaði með auknu samstarfi Vinnueftirlitsins og Landlæknis á því sviði.
Framsóknarflokkurinn telur að áfram eigi að byggja á faglegum og vísindalegum niðurstöðum í lýðheilsumálum og hafnar því að áfengi sé selt í matvöruverslunum
Skattastefnan þarf að taka mið af lýðheilsu og hollustu. Framsóknarflokkurinn vill skoða útfærslu á skattaafslætti til fyrirtækja sem innleiða hugmyndafræði heilsueflingar á vinnustöðum.
Málefni aldraðra og öryrkja
Öldruðum fjölgar nú umfram aðra aldurshópa í íslensku samfélagi. Þá breytingu þarf velferðarþjónstan að geta ráðið við til að tryggja að aldraðir eigi öruggt ævikvöld og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu sem lengst. Aldraðir eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Framsóknarflokkurinn telur það mikinn ávinning fyrir samfélagið að allir þeir sem vilja og geta unnið fái tækifæri til þess og því beri að afnema frítekjumark atvinnutekna eldri borgara.
Aldraðir þurfa að geta búið sem lengst á eigin heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Lögð verði áhersla á kvöld-, nætur- og helgarþjónustu, dagvistunarúrræði og skammtímadvöl, jafnframt því sem unnið verði að nýsköpun og eflingu tæknilausna á þessu sviði. Tannheilsu aldraðra hefur hrakað m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið við 75% niðurgreiðslu kostnaðar og því mikilvægt að sú niðurgreiðsla sé tryggð.
Ekki er fullnægjandi að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu heldur þurfi þessi hópur einnig að fá viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengda þjónustu, sem eflir líkamlega og andlega líðan síðustu æviárin.
Áfram þarf að efla forvarnir og skimun og leggja áherslu á greiningu og þrepaskipta meðferð með snemmtæka íhlutun að leiðarljósi. Brýnt er að greina vanda þess hóps öryrkja og ellilífeyrisþega sem býr við þungan lyfjakostnað og gera sérstakar ráðstafanir til að hópurinn geti ráðið við lyfjakostnað sinn. Þar má t.d. benda á hugmyndir um að fella niður virðisaukaskatt af lyfjum. Einnig þarf áfram að skoða möguleika til lyfjakaupa í samstarfi við önnur lönd Norðurlönd
Efla þarf Framkvæmdasjóð aldraðra til uppbyggingar hjúkrunarheimila og dagvistunarúrræða og tryggja jafnframt rekstrargrundvöll þeirra. Tryggja þarf fjárhagslegt sjálfstæði og góðan aðbúnað heimilismanna m.a. að þeim standi til boða sérbýli. Lífeyrir almannatrygginga til aldraðra þarf að taka breytingum í samræmi við lágmarkslaun. Taka skal tillit til húsnæðiskostnaðar lífeyrisþega við greiðslur Tryggingastofnunar.
Vangoldnar skuldbindingar ríkisins gagnvart opinbera lífeyriskerfinu eru áhyggju efni ljúka þarf fjármögnun þeirra. Jafnframt þarf að jafna lífeyrisréttindi landsmanna.
Fjölskyldan
Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á velferð barna. Rannsóknir sýna að líðan barna í skólum landsins fer versnandi Mikilvægt er að rannsaka þær orsakir sem liggja þar að baki og bregðast strax við.
Umgengnisforeldri fái skattaafslátt með hverju greiddu meðlagi. Skilgreina ber ástæðulausar umgengnistálmanir sem ofbeldi í lögum og brot þess efnis verði sjálfkrafa barnaverndarmál.
Auka þarf fræðslu um skaðsemi ávana- og fíkniefna. Horft verði heildstætt til fjölskyldna þegar barn lendir í vanda vegna fíkniefna og vinna bug á biðlistum eftir meðferðarúrræðum. Foreldrum standi til boða stuðningur m.a. til að standa straum af kostnaði sem til fellur en lendir utan almannatryggingakerfisins.
Hvatt er til þess að nýbökuðum foreldrum um land allt gefist kostur á fræðslu um uppeldisaðferðir til eflingar jákvæðrar sjálfsmyndar barna og ungmenna. Jafnframt þarf að efla fræðslu til starfsmanna í leik- og grunnskólum vegna tilkynningarskyldu í barnaverndarmálum því skipt getur sköpum í lífi einstaklings ef gripið er inn í nógu fljótt.
Félagsþjónusta sveitarfélaga þarf að geta tryggt fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúa ásamt því að stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Hún þarf að vera sambærileg um allt land og í boði fyrir alla íbúa. Þörf fyrir félagsleg úrræði leggst mjög misjafnlega á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá skal tryggt að sveitarfélögin hafi burði til að veita þá þjónustu sem þeim er skylt að gera lögum samkvæmt.
Sveitarfélögin þurfa að geta boðið upp á leikskóla mannaða fagfólki, strax að loknu fæðingarorlofi þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.
Framsóknarflokkurinn styður lengingu fæðingaorlofs í 12 mánuði og að foreldrar sem þiggja fæðingastyrk fái að dreifa honum á lengri tíma en sex mánuði eins og býðst þeim foreldrum sem þiggja fæðingarorlof. Þá þarf að finna leiðir til að fjölga dagvistunar- og leikskólaplássum í þeim tilgangi að tryggja að foreldrar komist að fullu á vinnumarkaðinn að fæðingarorlofi loknu. Hægt væri að skoða að greiða þeim foreldrum sem ekki fá pláss hjá dagforeldrum niðurgreiðslu sveitarfélaganna sem annars myndi renna til dagforeldranna. Þetta yrði gert til að auðvelda foreldrum sem eru hvorki á vinnumarkaði né í fæðingarorlofi að sinna barni sínu heimavið.
Framsóknarflokkurinn fagnar tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika getur leitt til aukinnar ánægju í starfi, meiri afkasta, betri heilsu og þar með betri lífsgæða. Velferðarráðuneytið hefur stýrt sambærilegu verkefni af hálfu hins opinbera með góðum árangri og því mikilvægt að skoða af alvöru styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar á íslenskum vinnumarkaði í heild.
Nýta þarf reynslu annarra þjóða við að bæta skilvirkni og lífskjör hérlendis. Með það að markmiði leggur flokkurinn til að stofnað verði atferlisteymi af breskri fyrirmynd (Behavioral insights team) þar sem vísindamenn og sérfræðingar á sviði atferlisfræði, heilsuhagfræði, sálfræði og tengdra greina vinna að aðgerðum sem snúa að aukinni, þátttöku, skilvirkni og mótun í stjórnsýslu og samfélagi. Nú þegar er töluverð þekking til á þessu sviði hér á landi og nauðsynlegt að nýta hana samfélaginu til framdráttar.
Jafnrétti
Jafnrétti er eitt af grunnstefjum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Nálgast verður jafnrétti sem mannréttindamál. Jafnrétti snýst um mannréttindi. Framsóknarflokkurinn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis eða stöðu að öðru leyti. Það eitt af hlutverkum Framsóknarflokksins að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun
Framsóknarflokkurinn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á sem flestum sviðum. Fagna ber opinni umræðu um kynferðislega áreitni sem því miður hefur fengið að líðast víða í okkar samfélagi í skjóli þöggunar. METOO byltingin er dæmi um jákvæða valdeflingu þar sem kraftur fjöldans veitir þolendum styrk til þess að stíga fram í dagsljósið. Framsóknarflokkurinn var fyrstur flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi. Sérstaklega ber að fagna framlagi félags- og jafnréttismálaráðherra sem hefur ákveðið að skipa nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður þeirrar vinnu þurfa að skila sér í aðgerðum gegn kynferðislegri áreitni í samfélaginu.
Húsnæðismál
Framsóknarflokkurinn leggur sem fyrr áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform
Fjarlægja þarf húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs en verð á húsnæði hefur að jafnaði hækkað meira en annað verðlag. Afleiðingin þess eins er að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tugi milljarða undanfarin ár. Fylgja þarf fast eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í átt að afnámi verðtryggingar samhliða mótvægisaðgerðum, til þess að standa vörð um möguleika efnaminni fjölskyldna og ungs fólks til að eignast sitt eigið húsnæði.
Húsnæðisvandi ungs fólks er áhyggjuefni og við honum þarf að bregðast af festu. Fagna ber stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem ætlunin er að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn og skoða meðal annars nýtingu lífeyrissparnaðar til lausnar.
Framsóknarflokkurinn vill að unnt verði að sækja um afborgunarhlé á námslánum í allt að fimm ár til að mæta ungum fjölskyldum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.. Innkoma Bjargs, húsnæðisfélags ASÍ og BSRB inn á leigumarkað er ánægjuefni. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
Framsóknarflokkurinn lýsir yfir sérstökum áhyggjum af húsnæðisskorti á landsbyggðinni og styður fyrirætlanir félags- og jafnréttismálaráðherra sem ætlaðar eru til að bregðast við því.
Óska á eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýnust.

* * *

Ályktun um ferðaþjónustu – Flokksþing 2018 – drög
Áherslur Framsóknarflokksins í málefnum ferðaþjónustunnar:

 • Að gæta þess að auðlindir landsins séu nýttar af skynsemi og gætt sé virðingar í umgengni við land og þjóð.
 • Dreifa þarf álagi af völdum ferðamanna og hlúa að viðkvæmum ferðamannastöðum
 • Setja þarf ferðaþjónustunni skýr markmið í umhverfismálum, öryggismálum og hvað réttindi starfsfólks varðar.
 • Áhersla skal lögð á mikilvægi menntunar sem nýtist í greininni og eykur þjónustugæði.
 • Skoða hvort hægt sé að leggja á öryggis- og umhverfisgjald sem lagt verði á allar komur til landsins. Tekjur af þessu gjaldi skal nýta til verndunar náttúrunnar, nauðsynlegrar uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði.
 • Jafna þarf tekjustreymi af ferðaþjónustu til opinberra aðila, en nær allar tekjur fara í dag til ríkissjóðs.
 • Vinna skal að greiningum og stefnumótun fyrir innanlandsflug sem góðan valkost í ferðaþjónustu og fyrir heimamenn.
 • Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi

Greinargerð:
Ferðaþjónusta er sú grein sem skapar mestan gjaldeyri og fjölda starfa á Íslandi. Íslensk ferðaþjónusta byggir m.a. á stórkostlegri náttúru, sögu og menningu sem laða að sér sífellt fleiri gesti hingað til lands. Greinin skiptir einnig miklu máli í uppbyggingu starfa á landsbyggðinni og gegnir þýðingarmiklu hlutverki í byggðaþróun landsins.
Ábyrg ferðaþjónusta er lykilþáttur þess að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna til langrar framtíðar. Setja þarf ferðaþjónustunni skýr markmið í umhverfismálum, öryggismálum og hvað réttindi starfsfólks varðar. Þar má líta til verkfæra eins og Vakans, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar, og alþjóðlegra ISO-staðla sem lúta að aga, öryggi og faglegum vinnubrögðum í ferðaþjónustu. Innleiða þarf slíka staðla á sem flestum sviðum ferðaþjónustunnar en þar er mikilvægt að greinin sjálf og opinberir aðilar vinni saman að innleiðingu, framkvæmd og eftirliti. Á sama hátt þarf að gera kröfu til þess að erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa hér á landi fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til innlendra ferðaþjónustufyrirtækja. Skýra þarf lög og reglur um starfsemi erlendra aðila hér á landi svo jafnræðis sé gætt og til þess að hægt sé að koma í veg fyrir félagsleg undirboð.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi menntunar sem nýtist í greininni og eykur þjónustugæði. Mikilvægt er að stofnaður verði Fagskóli ferðaþjónustugreina þar sem boðið verður upp á þrepaskipt nám í matvælagreinum og öðrum fögum er tengjast ferðaþjónustunni. Mikilvægt er að þróa námsmöguleika í samræmi við þarfir atvinnulífsins og um leið finna leiðir til að gera nám í ferðaþjónustu aðgengilegt og áhugavert í samkeppni við annað námsframboð. Styrkja þarf faglegan grunn og stefnumótun með aukna áherslu á rannsóknir, tölulegar upplýsingar, kannanir og spár. Efla þarf öryggis- og neyðarþjónustu í samvinnu við almannavarnir, björgunarsveitir landsins og upplýsingamiðstöðvar. Auðvelda þarf aðgengi að hagnýtu starfsnámi inni á vinnustöðum og nýta þá leið til að samræma skilaboð um hvernig áfangastaður Ísland ætlar að vera. Þar skal fagmennska, gestrisni og öryggi gesta vera höfð að leiðarljósi.
Íslensk stjórnvöld þurfa að endurskoða starfsumhverfi ferðaþjónustunnar með það að markmiði að einfalda regluverkið, auka skilvirkni og hvetja til aukinnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi í greininni. Einföldun skal þó aldrei gerð á kostnað gæða og ber að draga lærdóm af því sem best hefur gengið erlendis í þeim efnum á undanförnum árum. Færa þarf málefni ferðaþjónustunnar undir eitt ráðuneyti eins og kostur er. Skoða þarf sérstaklega hvort ekki sé hægt að gera stjórnsýslu sem lýtur að ferðaþjónustu skilvirkari með sameiningu stofnana.
Til þess að tryggja fjármuni í þennan málaflokk skal, í samstarfi við ferðaþjónustuna og aðra hagsmunaaðila, skoða hvort hægt sé að leggja á umhverfis- og öryggisgjald sem lagt verði á allar komur til landsins, jafnt með flugi eða skipum. Fjölskipuð nefnd muni þá úthluta úr sjóði sem umhverfis- og öryggisgjald rennur óskert í. Skoða skal misjafna álagningu eftir tímabilum til að hvetja enn frekar til fjölgunar ferðamanna yfir vetrarmánuðina. Víða er stór hluti gistingar í formi heimagistingar (s.s. AirBnb) og af þeirri gistingu innheimtist oft ekki gistináttagjald, hið sama gildir um bílaleigu- og húsbíla. Verði innheimtu gistináttagjalds haldið áfram skal það renna óskipt til sveitarfélaga landsins og útdeilt að hluta til í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ljóst er að auka þarf tekjur til sveitarfélaga enda kostnaður sveitarfélaga af ferðamönnum töluverður. Tekjur af komugjaldi skal nýta til verndunar náttúrunnar, nauðsynlegrar uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði.
Leggja þarf áherslu á stjórnunar- og verndaráætlanir sem fjallar m.a. um landvörslu, vöktun, uppbyggingu og fræðslu. Jákvæð ímynd landsins byggist á upplifun sem tengist hreinleika og sérkennum þess.
Vinna skal að greiningum og stefnumótun fyrir innanlandsflug sem góðan valkost í ferðaþjónustu og fyrir heimamenn. Brýnt er að stækka flughlöð á Akureyri og á Egilsstöðum til þess að geta tekið á móti fleiri flugvélum. Athuga verður hvort ekki megi auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármuna ef innanlandsflugvellir sem nú eru undir forsjá ISAVIA myndu færast til sveitafélaga eða heimamanna sem geta í mörgum tilfellum haldið þeim við á hagstæðari hátt.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á  að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi. Með opnun nýrra gátta verði horft sérstaklega til vetrarferðamennsku og lengingu ferðamannatímabilsins, ásamt því að ferðamannastraumnum og álagi verði betur stýrt um landið. Geta þjóðarinnar til að taka á móti fleiri ferðamönnum eykst og atvinnusköpun í ferðaþjónustu verður traustari víðar um landið.

* * *

Ályktun um endurskipulagning fjármálakerfisins – Flokksþing 2018 – drög
Við endurskipulagningu fjármálakerfisins leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á eftirfarandi:

 • Að hagsmunir neytenda og skattgreiðenda verði hafðir að leiðarljósi.
 • Að skapaðir verði efnahagslegir hvatar til þess að viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi banka verði aðskilin en að slíkt skuli ekki gert með lögboði.
 • Að sérhæfðum áhættulitlum fjármálafyrirtækjum verði búin betri rekstrarskilyrði með einföldun regluverks eftir því sem kostur er.
 • Að ekki verði losað um núverandi eignarhald ríkisins á viðskiptabönkunum nema á grundvelli ígrundaðrar áætlunar sem feli í sér kerfisbreytingar sem miði að aukinni samkeppni og minnkaðri áhættu skattgreiðenda.
 • Að stór viðurkenndur alþjóðlegur viðskiptabanki verði fenginn inn á íslenskan bankamarkað til að auka samkeppni.
 • Að ríkið eigi ráðandi eignarhlut í einum banka til frambúðar og að slíkur banki skuli rekinn með lágmarkstilkostnaði og á forsendum lágmarksáhættu.

 
Greinargerð:
Sameiginleg markaðsráðandi staða þriggja stórra viðskiptabanka er megineinkenni íslenska fjármálakerfisins. Af þessum þremur bönkum á ríkið tvo nánast að fullu. Ríkið er því umsvifamikið á íslenskum bankamarkaði og í kjöraðstöðu til þess að hrinda í framkvæmd kerfisbreytingum í átt að aukinni hagkvæmi, neytendum og skattgreiðendum til hagsbóta.
Vaxtastig er með hæsta móti hér á landi sem má meðal annars rekja til óhagkvæmni í rekstri stóru bankanna þriggja, takmarkaðra möguleika þeirra til að fjármagna sig með hagkvæmum hætti erlendis, hárrar eiginfjárkröfu, og margvíslegrar skatt og gjaldtöku. Á það hefur verið bent að umsvif bankanna séu of mikil miðað við stærð hagkerfisins, en hvata virðist skorta til virkrar samkeppni sem skákað geti óhagkvæmum aðilum af markaði. Þess í stað virðist bankamarkaðurinn hafa náð jafnvægi í því að viðhalda óbreyttu ástandi í því að hver hinna þriggja banka lagi sig rekstrarlega að hinum og bjóði sambærileg kjör til neytenda og fyrirtækja.
Fæð hinna stóru markaðsráðandi viðskiptabanka skapar kerfisáhættu sem meðal annars hefur verið mætt með kröfu af hálfu yfirvalda um háa eiginfjárbindingu. Af þessari bindingu hlýst kostnaður fyrir bankana, þar sem þessu fé verður á meðan ekki varið í arðbærar fjárfestingar. Á endanum er þessum kostnaði velt yfir á viðskiptavini bankanna í formi lakari viðskiptakjara. Að auki hafa bankarnir notið ríkisábyrgðar í ljósi kerfislegar stöðu sinnar, sem veldur ríkinu fjárhagslegri áhættu sem meta verður til kostnaðar sem lendir á skattgreiðendum.
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunir neytenda og skattgreiðenda verði hafðir að leiðarljósi við boðaða vinnu við endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem m.a. er getið um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Í því felst að leitað verði leiða til að auka samkeppni á viðskiptabankamarkaði, á sama tíma og að dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur bera af starfsemi fjármálafyrirtækja.
Framsóknarflokkurinn telur að skapa eigi efnahagslega hvata til þess að viðskipabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi bankanna verði aðskilin. Slíkir hvatar geti verið á formi mismunandi eiginfjárkröfu eftir því hvers konar starfsemi eigi í hlut, með takmörkun ríkisábyrgðar á innlánum við þá banka sem eingöngu stunda viðskiptabankaþjónustu, og einföldun regluverks og lækkun gjaldtöku vegna áhættulágrar starfsemi. Markmiðið með slíkum hvötum væri að minnka áhættu skattgreiðenda af bankakerfinu með því að aðskilja áhættusama fjárfestingarstarfsemi frá hefðbundinni áhættulítilli bankastarfsemi. Hvötum af þessu tagi væri ætlað að styrkja stöðu sérhæfðra viðskiptabanka og sérhæfðra fjárfestingarbanka á kostnað banka sem veita alhliða þjónustu, enda geti þeir skapað mikla kerfisáhættu.
Framsóknarflokkurinn telur ekki rétt að banna samþættingu viðskipta- og fjárfestingarrbanka með lögboði, enda geta ýmsir kostir fylgt slíkri samþættingu. Fjölbreytni á bankamarkaði sé til þess fallin að stuðla að aukinni samkeppni neytendum og fyrirtækjum til hagsbóta. Fjárfestingarbankastarfsemi stóru viðskiptabankanna er talin vera á bilinu 5-13% af heildarumfangi starfsemi þeirra og því ekki sérstakt áhyggjuefni sem stendur. Það geti hins vegar verið fljótt að breytast og sé því rétt að beita jákvæðum efnahagslegum hvötum til þess að þessi veigalitli hluti af starfsemi stóru viðskiptabankanna verið skilinn frá hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi. Með hvötum til dreifingar mismunandi þátta fjármálaþjónustu í sjálfstæðar sérhæfðar fjármálastofnanir minnkar áhætta skattgreiðenda af kerfishruni. Með nútíma tölvutækni og virku aðhaldi samkeppnisyfirvalda geta neytendur sömuleiðis notið góðs af aukinni sérhæfingu fjármálafyrirtækja og þannig verið í viðskiptum við mörg fjármálafyrirtæki í einu með mismunandi þjónustuþætti.
Framsóknarflokkurinn telur núverandi umsvif ríkisins í bankastarfsemi of mikil til lengri tíma litið. Þó er lögð áhersla á að ekki verði losað um núverandi eignarhald á viðskiptabönkunum nema á grundvelli ígrundaðrar áætlunar sem feli í sér kerfisbreytingar sem miði að aukinni samkeppni og minnkaðri áhættu ríkisins af starfsemi þeirra.
Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að fá stóran viðurkenndan alþjóðlegan viðskiptabanka inn á íslenskan bankamarkað. Af nýlegri reynslu af öðrum mikilvægum neytendamörkuðum má sjá að slík aðkoma viðurkenndra alþjóðlegra aðila getur skapað umtalsverðan þrýsting á innlenda samkeppni neytendum til hagsbóta.
Framsóknarflokkurinn telur að ríkið eigi að vera ráðandi eigandi í einum banka til frambúðar. Slíkur banki skuli rekinn með lágmarkstilkostnaði og á forsendum lágmarksáhættu. Slíkur banki væri sérhæfður viðskiptabanki og einkum ætlaður til móttöku innlána á hagstæðum kjörum og til veitingar hagstæðra útlána til neytenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hagkvæmni næðist fram með einföldu og áhættulitlu viðskiptamódeli, sem stuðla eigi að verðsamkeppni við keppinauta á bankamarkaði.
Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt að ríkið komi fram sem virkur hluthafi í þeim fjármálafyrirtækjum sem það á hlut í. Í því felst að sett verði eigendastefna fyrir hvern eignarhlut um sig og þeirri stefnu framfylgt af stjórnarfólki sem beri ábyrgð gagnvart Bankasýslu ríkisins. Eigendastefnan fyrir hvern eignarhlut geti verið mismunandi eftir því hvert kerfislegt hlutverk hver fjármálastofnun skuli hafa að mati ríkisins. Með eigendastefnunni skuli stuðla að samkeppni og fjölbreytni á bankamarkaði og að því marki að lágmarka áhættu ríkisins af bankakerfinu.

* * *