Categories
Fréttir

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

Deila grein

05/10/2016

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða stöðugleika. Efnahagsmál og innviðauppbygging fer hátt í umræðunni og það sem hefur einkennt umræðuna er viljinn til að auka ríkisútgjöld og setja meiri fjármuni t.d. í heilbrigðis- og velferðarmál og aðra innviðauppbyggingu. Ég ætla ekki að mæla gegn því að fjárþörf sé til staðar víða en vil þó segja hér að efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli, verðlagsstöðugleiki, gengisstöðugleiki, pólitískur stöðugleiki fyrir atvinnulífið og fyrir heimilið, til þess að við verðum áfram og í frekari færum til að styrkja innviðina.
En af hverju er stöðugleikinn svo mikilvægur? Í mjög einföldu máli erum við, heimilin og atvinnulífið, frekar tilbúin til að hreyfa okkur til athafna við slíkar aðstæður, til nýbreytni og nýsköpunar. Við verðum öruggari í stöðugu umhverfi. Í óstöðugu umhverfi höldum við að okkur höndum, bíðum átekta og leitum í skjól. Við mikinn öldugang úti á sjó þá stígum við annaðhvort ölduna eða leggjumst í koju. Við náttúruhamfarir, storma og hvirfilbylji leitum við skjóls og bíðum það af okkur. Þegar allt er á hreyfingu í kringum okkur stoppum við og bíðum af okkur þá hreyfingu. Það sama á við um efnahagsmálin. Hinar miklu skattbreytingar á síðasta kjörtímabili eru dæmi um það. Fyrirtæki halda að sér höndum í mannaráðningum, fjölskyldan dregur saman útgjöldin, ekki til uppbyggilegs sparnaðar heldur neyðarsparnaðar.
Hér boða flestir flokkar stóraukin útgjöld, uppskurð kerfa, kerfisbreytingar á grundvallaratvinnuvegum. Staðreyndin er að samhliða stöðugleika hefur atvinnulífið dafnað, kaupmáttur aukist og ráðstöfunargeta heimilanna sem og efnahagslega staða þjóðarinnar batnað á þessu kjörtímabil og sjaldan verið betri.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 5. október 2016.