Categories
Fréttir

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

Deila grein

05/10/2016

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um að í umræðu um málefni flóttamanna og innflytjenda er mjög mikilvægt að kynna sér málin til hlítar. Að því sögðu langar mig að ræða um eitt af þeim málum sem ég tel mjög mikilvægt að við afgreiðum hér á þessu þingi. Það er frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Nú liggur frumvarpið fyrir þinginu eftir umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd ásamt breytingartillögu þaðan. Ég tel að sú kerfisbreyting sem felst í frumvarpinu sé mjög mikilvæg fyrir íslenska námsmenn og fyrir menntakerfið í heild sinni. Þessu frumvarpi fylgir hvati til þess að stunda nám miðað við fulla námsframvindu. Því fylgir viðbótarhvati við það sem verið hefur til þess að stunda iðnnám, sem er mjög mikilvægur hluti frumvarpsins. Fyrir meiri hluta námsmanna mun þetta leiða af sér minni og fyrirsjáanlegri afborganabyrði og mun leiða af sér gagnsærri og skýrari mynd af því hverjir njóta styrks. Í breytingartillögum allsherjar- og menntamálanefndar felst mjög viðamikil og mikilvæg breyting, þ.e. að námsmenn geti fengið greidda út styrki og lán samhliða námi eftir að fyrsta missiri lýkur, en það hefur verið baráttumál íslenskra námsmanna frá árinu 1992 og getur skipt sköpum fyrir marga.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 5. október 2016.