Categories
Fréttir

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

Deila grein

06/10/2016

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla ögn áfram um þá ákvörðun Seðlabanka Íslands í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum, í 5,25%. Ákvörðun stýrivaxta á hverjum tíma er tilraun Seðlabankans til að draga úr eftirspurn, en það dugar ekki, því að nánast öll heimili landsins eru með verðtryggð lán og stýrivextir Seðlabankans á hverjum tíma hafa ekki áhrif á það.
Hverjir hagnast? Jú, krónan hækkar. Verðbólgan er lág. Krónan hækkar en verðbólgan ætti að vera miklu lægri vegna þess að áhrif af hærri krónu skila sér ekki til neytenda að fullu, en alla vega hagnast þá kaupmenn á ákvörðun Seðlabankans. Há króna hefur einnig áhrif á útflutningsatvinnuvegi, s.s. sjávarútveg og ferðamennsku. Þess vegna þarf Seðlabankinn að grípa til eins konar vúdú-aðferða til að halda öllu í skefjum, m.a. með því að kaupa gjaldeyri sem aldrei fyrr til að halda aftur af hækkun krónunnar, sem er bein afleiðing af stýrivaxtaákvörðununum.
En það er kannski einn hópur sem hagnast öðrum fremur verulega á því að stýrivextir séu hér háir, það eru erlendir aflandskrónueigendur. Það vill nú þannig til að Alþingi þurfti að hysja sérstaklega upp um Seðlabankann í vor með því að setja á nokkurs konar bindiskyldu til þess að koma í veg fyrir flæði kviks fjármagns inn í landið. Það dugði ekki alveg til. En erlendir aflandskrónueigendur eru í þeim sporum að vera eins og unglingur sem vill ekki yfirgefa heimili pabba og mömmu því að það fer svo vel um hann þar. Þess vegna liggja þessir aflandskrónueigendur uppi á okkur Íslendingum og vilja ekki yfirgefa fang Más Guðmundssonar. Það sér hver einasti maður að það er t.d. ekkert vit í öðru fyrir mann sem býr í Svíþjóð og er með sænska krónu, sem er fallandi, en að koma til Íslands og kaupa íslenskar krónur, sem eru jú vaxandi, og vera á 5,5% vöxtum í staðinn fyrir -0,25 í Svíþjóð. Þetta er náttúrlega galið. Stýrivextir verða að lækka.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 6. október 2016.