Categories
Fréttir

Efnislegur skortur barna á Íslandi

Deila grein

28/01/2016

Efnislegur skortur barna á Íslandi

líneik„Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri þingmenn hafa gert, ræða nýja skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um efnislegan skort barna á Íslandi sem kynnt var í síðustu viku. Niðurstöðurnar vekja mig virkilega til umhugsunar. Ég tel að við eigum að taka þessar niðurstöður alvarlega og ígrunda vel ástæður skortsins og hvernig bregðast megi við.
Rannsókn sem gerð var árið 2014 leiðir í ljós að alls 9,1% barna á Íslandi á aldrinum 1–15 ára líður efnislegan skort, eða rúmlega 6.000 börn. Þar af eru um 1.600 börn sem skortir fleiri en þrenn af þeim gæðum sem spurt var um. Fjöldinn hefur tvöfaldast frá árinu 2009 þegar sams konar rannsókn var gerð. Skorturinn mælist mestur þegar kemur að húsnæði og á Íslandi eru mestar líkur á því að þau börn líði skort sem eiga foreldra sem eru í hálfu starfi eða í lægra starfshlutfalli, þar með talin eru börn þeirra sem eru atvinnulausir. Næst á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en 30 ára og síðan börn foreldra sem eru í leiguhúsnæði.
Fyrstu viðbrögð mín voru að það er afskaplega mikilvægt að í vinnu velferðarnefndar þessa dagana verði hugað sérstaklega að því að þær breytingar á húsnæðiskerfinu sem nú er unnið að komi þessum hópum til góða. Nefndin verður að fara vel yfir það. Ég er líka mjög hugsi yfir skorti hvað varðar félagslíf barna en niðurstöðurnar sýna að 5,1% barna líður skort á sviði félagslífs eða um 3.400 börn. Algengasta ástæðan er sú að barnið getur ekki boðið vinum heim til að borða eða leika. Félagsleg einangrun barna er alvarlegt mál. Stafar hún af skorti á efnislegum gæðum, ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu við fjölskyldur, viðhorfum í samfélaginu eða einhverju öðru? Eru þetta sömu börnin og ekki geta tekið þátt í tómstundastarfi? Regluleg gagnaöflun um stöðu barna er mikilvæg og okkur ber stöðugt að vinna að velferð og tryggja réttindi þessa hóps.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — í störfum þingsins 26. janúar 2016.